Anna Kristjáns flutt til Tenerife

Anna Kristjánsdóttir vélstjóri er flutt til Tenerife.
Anna Kristjánsdóttir vélstjóri er flutt til Tenerife. hag / Haraldur Guðjónsson

Vélstjórinn Anna Kristjánsdóttir er flutt til eyjarinnar Tenerife til vetursetu. Anna heldur úti dagbók þar sem hún segir frá ævintýrum sínum á eyjunni. Veðrið er búið að leika við Önnu þá 33 daga sem hún hefur búið þar, og fyrsti rigningardagurinn var í gær. 

Anna hefur verið dugleg að hreyfa sig og setti sér það markmið að ganga ekki færri en 6 þúsund skref á dag og vikumeðaltalið 10 þúsund skref. Það hefur gengið eftir að sögn Önnu og hafa vikumeðaltölin verið á bilinu 10 þúsund til 14 þúsund skref.

Hún segir að það sé þvílíkur munur að búa á Tenerife. Hún ber flutningana saman við aðra flutninga í sínu lífi en fyrir 30 árum flutti hún frá Íslandi til Svíþjóðar. 

„Fyrir 30 árum árum  fór ég út í óvissuna, vissi ekki einu sinni hvort ég ætti afturkvæmt til Íslands. Ég þekkti engan í nýju landi og allt var framandi, ekkert internet komið og ef ég vildi hringja til Íslands kostaði hver mínúta 7,20 sænskar krónur mínútan eða sem samsvaraði rúmlega 64 krónum íslenskum á þáverandi gengi. Það var ekki hægt að ná íslensku útvarpi nema þá með herkjum á stuttbylgju. Fyrir bragðið var ég nánast í einangrun fyrstu vikurnar í Svíþjóð eða þar til ég fór að kynnast fólki þar og síðar með þátttöku í Íslendingafélaginu og annarri félagsstarfsemi þar úti,“ segir Anna. 

 

 

Hún segir þó að það versta hafi verið að hún var nánast þvinguð til að yfirgefa langið þá. Hún segist ekki hafa átt neina framtíð á Íslandi við þær aðstæður sem ríktu þá, vegna tilfinninga hennar. 

„Núna fór ég á eigin forsendum. Það var enginn sem ýtti á eftir mér og ég þráði að komast í sól og sumar án hríðarbylja og næturvakta. Þá var allt orðið miklu auðveldara. Farsíminn á verðlagi Evrópusambandsins, internetið komið og tiltölulega ódýrt, örar flugferðir og auðvelt að finna sér húsnæði á viðráðanlegu verði, auk þess sem matur og drykkur kostuðu aðeins brot af því sem það kostar í dýrasta landi Evrópu,“ segir Anna. 

Hún segir að hún hafi margoft haldið því fram að ef netið hefið verið orðið jafn öflugt árið 1996 hefðu hún aldrei flutt aftur til Íslands.

„Í dag er ég frjáls og get farið hvert sem er á meðan íslensk stjórnvöld ræna mig ekki lífeyrissparnaðinum mínum en það eru mínar helstu áhyggjur eins og er. Ef fólk vill vita hvenær ég sný heim aftur, þá get ég ekki svarað því. Það er nefnilega gott að búa í Evrópusambandinu,“ segir Anna.

mbl.is