Best að koma með fullhlaðin batterí úr fríinu

Guðný Hilmarsdóttir ljósmyndari hefur mjög gaman af ferðalögum hérlendis og …
Guðný Hilmarsdóttir ljósmyndari hefur mjög gaman af ferðalögum hérlendis og erlendis. Auk þess að vera ljósmyndari starfar hún hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum.

Guðný Hilmardóttir ljósmyndari starfar hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum ásamt því að vera í meistaranámi. Hún segir að ferðalög gefi lífinu lit og segir nauðsynlegt að komast stundum ein í frí. 

Hvernig ferðatýpa ert þú?

„Það sem mér finnst áhugaverðast við að koma til annarra landa er að upplifa hversdagsleikann á hverjum stað. Setjast á kaffihús þar sem heimamaðurinn fer og fylgjast með mannlífinu, fremur en að einblína á vinsælustu ferðamannastaðina.

Við höfum nokkrum sinnum haft íbúðaskipti, bæði í New York og London, og þannig kemst maður í kynni við raunverulegar aðstæður eins og að hitta nágranna, fara í matvöruverslunina og í göngutúr í hverfinu.

Ég reyni svo að kaupa mér einn hlut á hverjum nýjum stað sem ég fer á, sem minjagrip, en ekki í minjagripaverslun, heldur annaðhvort handverk eða listaverk sem má fara upp á vegg eða verður á einhvern hátt hluti af okkar heimili.“

Skipuleggur þú ferðalög með miklum fyrirvara eða ertu spontant þegar þú ferð í ferðalög?

„Ég er yfrleitt búin að skipuleggja fríin með góðum fyrirvara. Þegar fjölskyldan samanstendur af tveimur útivinnandi einstaklingum og tveimum börnum í grunnskóla er ekki hlaupið að því að hoppa í frí með dagsfyrirvara. Það er líka partur af ferðalaginu að fá tíma til að hlakka til þess.“

Hvert er besta frí sem þú hefur farið í?

„Eitt af þeim fríum sem stendur upp úr er fjölskylduferð til Marokkó. Það var vorið 2017 og þetta var skipulögð ævintýraferð með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, sem ég vinn hjá.  Það er auðvitað gott að fara í fyrirfram skipulagðar ferðir þegar maður ferðast til staða sem eru manni mjög framandi.  Í Marokkó fórum við í göngur um Atlasfjöllin, á brimbrettanámskeið í Essaouria, á drómeda baki meðfram ströndinni og á arabískt leturgerðarnámskeið svo eitthvað sé nefnt.                                                                        Ég hef nokkrum sinnum farið í frí án fjölskyldunnar og ég verð að segja að það er sérstaklega gott fyrir mann að fá frí frá öllu í nokkra daga. Það má ekki túlka þetta rangt, auðvitað er fjölskyldan það mikilvægasta sem ég á. En glöð mamma er góð mamma, er það ekki? Þannig að ég mæli algjörlega með fríi með vinkonunum af og til.“

Hvað einkennir gott ferðalag?

„Að koma úthvíld heim úr fríinu og með batteríin fullhlaðin, tilbúin að takast á við rútínuna að nýju. Maður verður að passa að skipuleggja ferðina ekki of mikið, eiga nóg af dögum þar sem ekkert er planað. Þegar við höfðum íbúðaskipti höfðum við svigrúm til að fara einn daginn út yfir daginn en elda og vera heima um kvöldið, annan daginn var það svo öfugt. Þá tókum við daginn rólega heima við eða í hverfinu, og fórum svo út seinnipartinn og út að borða um kvöldið. Með því að skipuleggja ekki um of hefurðu tækifæri til að uppgötva óvænta hluti og staði, sem er oftast það skemmtilegasta við að ferðast.“

Hver er þín flugrútína?

„Það er orðið þægilegt að fljúga aftur núna, þar sem börnin eru orðin 10 og 12 ára. Ég er ekki með neina sérstaka rútínu nema að ég vil helst sitja í gluggasæti þótt ég fái það sjaldnast í dag. Ég þarf nefnilega yfirleitt að sitja á milli barnanna því bæði vilja þau hafa mömmuna við hliðina á sér.“

Kanntu að pakka létt?

„Ég kann það núna já. En var hrikaleg í þessu áður fyrr. Það er nú tilfellið að þegar mér finnst ég vera með nóg af öllu í töskunni þá reynist það vera allt of mikið, en ef mér líður eins og ég sé með of lítið með mér, þá er það akkúrat passlegt þegar á hólminn er komið.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Það sem ég á eftir að gera og ætla mér að gera fljótlega er að fara Jakobsveginn á Spáni. Reyndar skömm að segja frá því að hafa ekki gert það fyrr þar sem ég bjó á Spáni í 15 ár.“

Hér er Guðný ásamt syni sínum.
Hér er Guðný ásamt syni sínum.
Þessi mynd var tekin þegar fjölskyldan fór saman til Marokkó.
Þessi mynd var tekin þegar fjölskyldan fór saman til Marokkó.
Hér er Guðný ásamt Jordi eiginmanni sínum og börnunum Christian …
Hér er Guðný ásamt Jordi eiginmanni sínum og börnunum Christian og Anny.
Hér er Anny að læra skrautskrift.
Hér er Anny að læra skrautskrift.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »