Þetta eru fjallahjólin sem slegist er um

„Hjólamenning hefur mikið þróast á Íslandi og er margskipt. Það er fullt af fólki sem notar hjól sem samgöngutæki og þar hafa rafmagnshjól líka bæst í flóruna og það hefur orðið mikil söluaukning í þeim á síðustu tveimur árum. Í Fjallakofanum eru líka seld rafmagnshjól og þau hreinlega seldust upp í sumar. Fólk er jafnvel að fá sér rafmagnshjól í stað bíls númer tvö. Bættir hjólastígar og aukin umferð á höfuðborgarsvæðinu hefur ýtt undir þessa þróun. Svo eru hjólreiðar sem tómstundagaman að springa út. Sumir vilja þeysa um á malbiki á „racerum“ meðan aðrir vilja vera á fjöllum á fjallahjólum og svo eru malarhjól annar kostur til að komast hratt yfir á grófari vegum. Við erum í auknum mæli að nota okkur hjólreiðar sem líkams- og heilsurækt,“ segir Ásmundur Þórðarson markaðsstjóri Fjallakofans þegar hann er spurður að því hvernig hjámenning Íslendinga sé að breytast. 

Er fólk farið að kaupa sér fjallahjól til að hjóla í vinnuna eða er þetta meiri leiktæki?

„Fólk sem er að kaupa sér flott fulldempuð fjallahjól er að nota þau sem leiktæki því þau henta ekkert sérstaklega vel til að hjóla á til og frá vinnu. Á góðviðrisdögum er fullt af fólki á fjallahjólum á öllum fjöllum hér í næsta nágrenni allt frá Heiðmörk og upp í Hengil. Svo er líka hægt að taka stólalyftu upp og bruna niður á tilbúnum hjólaleiðum bæði í Skálafelli og í Hlíðarfjalli fyrir norðan. Mesta hjólafólkið á nokkur hjól sem henta fyrir mismundandi notkun og ef það hjólar í vinnuna notar það „racer“,“ segir hann.

Ásmundur segir að fólk sé mjög spennt fyrir Rocky Mountain sem eru margverðlaunuð fjallahjól. Fjallakofinn er nú að selja þau í forsölu, en þau eru frá Kanadísku fyrirtæki sem er staðsett í Vancouver, við rætur Klettafjallanna. 

„Rocky Mountain hefur verið að þróa hágæða fjallahjól frá árinu 1981 og þar er á ferðinni fólk með ástríðu fyrir fjallahjólreiðum. Stefnendurnir þrír Grayson Bain, Jacob Heilbron og Sam Mak unnu við hjólaviðgerðir og byrjuðu að breyta hjólum til að henta betur til fjallahjólreiða. Eftir að hafa fengist við það í nokkur ár ákváðu þeir að mæta þörf fyrir betri fjallahjól og hefja eigin framleiðslu. Allt frá stofnum fyrirtækisins hefur Rocky Mountain alltaf haldið sérstöðu sinni og framleitt hjól sem hafa unnið til verðlauna hjólin og verið notuð af keppendum sem hafa orðið heimsmeistarar og unnið til verðlauna á Ólympíuleikum í fjallahjólreiðum. Fjallakofinn hefur flutt inn Rocky Mountain síðastliðin tvö ár.“

Hvað er það við fjallahjólamennsku sé mer svona skemmtilegt?

„Öll hjólamennska er skemmtileg en það sem gerir fjallahjólamennsku skemmtilega er átökin þegar það er verið að hjóla upp og hraðinn og spennan þegar það er verið að hjóla niður. Þetta er auðvitað visst adrenalín kikk sem þú færð út úr þessu. Svo er auðvitað frábært að njóta náttúrunnar og jafnvel að uppgötva nýja staði. Þú ert að stunda líkamsrækt en hefur það aldrei á tilfinningunni heldur bara að þú sért úti að leika þér,“ segir hann. 

Þarf fólk að vera í einhverjum sérstökum fötum til þess að geta fengið allt út úr fjallahjólamennskunni eða er hægt að fara bara í gömlum gallabuxum út að hjóla?

„Ég mæli fólki eindregið frá því að vera í gallabuxum en það er hægt að nota hvaða íþrótta og útivistarföt sem er. Hjólabuxur með púðum í klofinu gera þetta samt mun þægilegra og kannski enn frekar þegar fólk er að byrja. Það er líka mikilvægt að nota réttu hlífarnar fyrir þá sem eru farnir að hjóla á fullu niður brekkurnar því það er ekki spurning um hvort þú dettur heldur bara hvenær.“

Verða fullorðnir aftur börn þegar þeir komast á svona hjól?

„Algjörlega. Þetta kallar fram leikin og barnið í okkur sem getur verið ótrúlega skemmtilegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina