Í kompaníi við malbikið

Akstri Route 66 nýlokið og haldið af stað frá Malibu …
Akstri Route 66 nýlokið og haldið af stað frá Malibu við endalausa víðáttu Kyrrahafsins áleiðis til San Francisco eftir hinum annálaða Pacific Coast Highway, hugsanlega einni fallegustu slóð sem gervöll Bandaríki Norður-Ameríku hafa upp á að bjóða. Mynd/ASG

Atli Steinn Guðmundsson og Rósa Lind Björnsdóttir höfðu haft það á stefnuskrá sinni síðustu sex ár að aka hinn goðsagnakennda þjóðveg Route 66 frá Chicago til Santa Monica þegar þau létu loks slag standa nú á haustdögum og auðguðu höll minninganna sem aldrei fyrr. Í dag, og næstu tvo daga, opinberast hér á Ferðavefnum í fullri lengd ferðasaga sem Morgunblaðið birti í styttri útgáfu um helgina.

Að lokum rann sá dagur að þessu sumarfrísverkefni yrði ekki slegið á frekari frest svo við negldum það niður í fyrra að haustið 2019 væri tímabært að aka Will Rogers Highway eins og hann hét, The Mother Road sem John Steinbeck gerði að ódauðlegu heiti í Þrúgum reiðinnar, The Main Street of America eða bara U.S. Route 66 eins og vegurinn hét í opinberu þjóðvegakerfi Bandaríkjanna þar til hann var lagður niður sem þjóðvegur árið 1985. Að frumkvæði sveitarfélagsins Springfield í Missouri var þessi tæplega 4.000 kílómetra langa leið endurvakin árið 1990 undir heitinu Historic Route 66, Hinn sögulegi 66, og hér má þá lesa söguna af því þegar miðaldra íslensk hjón leigðu sér blæjubíl, þóttust vera 25 ára og lögðu til atlögu við þessa goðsögn og móður allra vega vestanhafs.

Í smábænum Elk í Vestur-Oklahoma er að finna safn til …
Í smábænum Elk í Vestur-Oklahoma er að finna safn til heiðurs Route 66, The National Route 66 Museum. Gestum býðst þar að ganga gegnum svæði sem hvert og eitt stendur fyrir eitt þeirra átta ríkja Bandaríkjanna sem leiðin liggur um. Hluti safnsins er helgaður samgöngum á ýmsum tímum og er fjöldi gamalla bifreiða hluti safnkostsins auk vélhjóla og ævafornrar slökkviliðsbifreiðar. Mynd/Atli Steinn Guðmundsson

Úr því verið var að ráðast í slíka Bjarmalandsför þótti ekki annað tækt en að stíga skrefið til fulls og aka stranda á milli, frá Atlantshafi til Kyrrahafs. Ferðalagið hófst því í hinu gullfallega keltneska vígi Boston í Massachusetts þaðan sem fyrst var ekið norður til Bangor í Maine og litið á hús rithöfundarins Stephen King, enda miklir aðdáendur hans á ferð, þaðan svo í áföngum til Chicago, þar sem finna má upphafspunkt Route 66, en í hinn endann bættum við hinum rómaða Pacific Coast Highway við ferðalagið, frá Santa Monica, lokapunkti Route 66, norður eftir til San Francisco þar sem gerð var heiðarleg tilraun til að hvíla lúin bein í sex daga. Viðbætur þessar eru önnur, en mjög skemmtileg, saga sem ekki verður sögð að þessu sinni. Það sem hér fer á eftir er upplifunin á þjóðvegi 66 frá Chicago til Santa Monica.

Hlýtur að vera misskilningur

Eftir að hafa sótt eldrauða Ford Mustang-blæjubifreið úr véum Alamo-bílaleigunnar á Logan-flugvellinum í Boston mánudaginn 2. september ókum við á nokkrum dögum til Chicago. Alex, afgreiðslumaður bílaleigunnar á flugvellinum, bað okkur strax velvirðingar á þeim misskilningi að ætlun okkar væri að skila færleiknum á flugvellinum í San Francisco, það hlyti að vera ranghermt. Þegar hann var sannfærður um að það væri einlægur ásetningur viðskiptavina hans að aka hátt í 8.000 kílómetra næstu þrjár vikurnar bauð hann nafnspjald sitt og bað um að fá sendar myndir úr förinni.

Ekki þótti stætt á öðru en að velja hæfilega baldinn …
Ekki þótti stætt á öðru en að velja hæfilega baldinn fola í svo verðugt verkefni sem akstur Route 66 er óneitanlega. Þennan rúmlega 300 hestafla Ford Mustang sóttum við á Logan-flugvöllinn í Boston og skiluðum rúmum þremur vikum og 7.382 kílómetrum síðar á flugvöllinn í San Francisco. Alex, afgreiðslumaður Alamo-bílaleigunnar Boston-megin, baðst fyrst afsökunar á þeirri misritun að ætlunin væri að skila bifreiðinni í San Francisco en var fljótt sannfærður um að sá væri helber ásetningur viðskiptavina hans. Mynd/ASG

Eðlilega var áð á nokkrum stöðum á leiðinni frá Boston til Chicago, heimili foreldra annars greinarhöfunda í Ann Arbor í Michigan á námsárum þeirra um 1970 meðal annars heimsótt og hús tekið á safnverði íslenska Fiske-bókasafnsins við Cornell-háskólann í Ithaca í New York, Patrick Joseph Stevens, og rætt við hann í nafni mbl.is sem var hvort tveggja ánægju- og fróðlegt.

Í Chicago var ákveðið að á tvær nætur enda borgin hin skemmtilegasta og spillti ekki fyrir að á sakleysislegu kráarölti síðari daginn var okkur fyrirvaralaust boðið í brúðkaupsveislu tveggja ungra manna hinum megin í borginni, í Andersonville, eftir að hafa rekist á tvo vini þeirra, Frakka og Bandaríkjamann sem linntu ekki látum fyrr en þeim auðnaðist að draga íslensku ferðalangana með í brúðkaup vina sinna. Hlaust af þessu hin besta skemmtun meðal drag-drottninga og hinsegin fólks sem lauk með harðri karaókí-keppni þar sem annar greinarhöfunda söng hástöfum lagið „You‘ll Never Walk Again“ fyrir hreinan misskilning enda aldrei verið mikill Liverpool-maður, né áhugamaður um knattspyrnu yfirleitt.

Ekið inn í Chicago úr austri, í þessari borg er …
Ekið inn í Chicago úr austri, í þessari borg er upphafspunktur Route 66 sem þó hefur verið fluttur nokkrum sinnum síðan þjóðvegurinn var vígður 11. nóvember 1926. Mynd/ASG

Reikull byrjunarreitur

Daginn eftir var komið að brottför frá Chicago og fyrsta degi á Route 66. Byrjunarreitur leiðarinnar er auðkenndur með skilti á horni Michigan Avenue og Adams Street en rétt er að geta þess að hin upprunalega Route 66 átti sér ekki þann upphafspunkt. Hann var hins vegar við Jackson Boulevard fram til 1937 en færðist þá og svo aftur 1955 þegar Jackson varð einstefnugata vestan Michigan Ave. Saga Route 66 er ekki alltaf einfaldleikinn uppmálaður.

Þennan fyrsta dag á leiðinni fornfrægu ókum við áleiðis til smábæjarins Springfield í Illinois þar sem Abraham Lincoln var búsettur frá 1837 og þar til hann tók við forsetaembætti sínu 1861. Þar sem við sátum á einu þriggja öldurhúsa bæjarins þá um kvöldið fengum við að heyra að Springfield væri stjórnsýsluleg höfuðborg Illinois-ríkis og hefði okkur seint boðið í grun enda íbúar aðeins rétt rúmlega 100.000. Bæjarbúar voru hinir skemmtnustu og eignuðumst við góða vinkonu meðan á dvölinni stóð sem lauk með tvísýnu knattborðseinvígi. Við þökkum Julie Patterson einstaka gestrisni og gætum nefnt marga fleiri, svo sem Tim barþjón sem bauð okkur upp á hnetusmjörsviskí á kostnað hússins. Það var furðugott miðað við titilinn. Springfield býður ef til vill ekki upp á mikinn þokka frá þjóðveginum séð en þar er óvitlaust að taka náttstað við Route 66 og ræða við heimamenn sem muna margir hverjir tímana tvenna.

Næturgisting í Springfield í Illinois. Bæjarbúar tóku ferðalöngunum frá Íslandi …
Næturgisting í Springfield í Illinois. Bæjarbúar tóku ferðalöngunum frá Íslandi opnum örmum, buðu hnetusmjörsviskí og fróðlegt spjall auk þess sem þessi dásamlega nýja vinkona okkar, Julie Patterson, skoraði Rósu á hólm í knattborðsleik. Mynd/ASG

Frumleikinn var ekki meiri en svo að næst var áð í bænum Springfield í nágrannaríkinu Missouri. Áður en því er náð liggur Route 66 gegnum St. Louis þar sem er gráupplagður áningarstaður fyrir þá sem hafa gaman af að heimsækja stærri borgir á leiðinni. Við ókum rakleiðis gegnum St. Louis enda fjöldi annarra stórborga á akstursáætluninni.

Stólaakurinn í Oklahoma

Nú er það allmisjafnt hvað heillar fólk á ferðalögum en líklega yrðu einhverjir til að sammælast okkur um að fyrsti þriðjungur Route 66, rúmlega 1.300 kílómetra kafli frá Chicago niður til Oklahoma-borgar, er ekki líklegur til að drepa meðalmanneskju úr spennu. Leiðin er án mikillar tilbreytingar, mest þráðbeinn vegur með bleika akra og slegin tún til beggja handa enda farið um mikil landbúnaðarríki svo sem Kansas og Missouri. Að mati þeirra sem hér skrifa magnast hinir eiginlegu töfrar Route 66 þegar ekið er í vestur frá Oklahoma-borg áleiðis til Amarillo í Texas. Eftir það er varla dauður punktur á leiðinni og lítill hörgull á sögulegum áningarstöðum fyrir þá sem vilja taka sér góðan tíma í 66. Næturgisting í Oklahoma er óvitlaus.

Dvölin í Oklahoma-borg hófst á að skoða minnismerkið The Field of Empty Chairs sem stendur á því sem var grunnflötur Alfred P. Murrah-stjórnsýslubyggingarinnar þar í borg þar til Timothy McVeigh, fyrrverandi hermaður úr Persaflóastríðinu, sprengdi þar fyrir utan bifreið með 2,3 tonnum af ammóníumnítrati og nítrómetani 19. apríl 1995 klukkan 09:02 að staðartíma, þurrkaði út alla bygginguna og nánast allt hverfið en 300 aðrar byggingar eyðilögðust eða löskuðust við sprenginguna. Í raun var ótrúlegt að ekki fleiri en 168 létust við þennan atburð sem fram að 11. september 2001 var mannskæðasta hryðjuverk í sögu Bandaríkjanna. McVeigh hlaut dauðarefsingu skömmu fyrir það ódæði, 11. júní 2001.

Á því sem var grunnflötur Alfred P. Murrah-byggingarinnar í Oklahoma …
Á því sem var grunnflötur Alfred P. Murrah-byggingarinnar í Oklahoma má nú heimsækja minnismerkið The Field of Empty Chairs sem lætur fáa ósnortna, einn stóll úr bronsi og gleri fyrir hvert fórnarlamb McVeigh, með ígröfnu nafni hins eða hinnar látnu, og stillt upp í raðir miðað við á hvaða hæð viðkomandi sat. Einnig eru stólarnir staðsettir eftir því hvernig höggbylgja áburðarsprengjunnar skall á byggingunni og eru því flestir stólarnir saman komnir næst þeim stað þar sem bíllinn stóð og flestir létust. Nítján börn urðu fórnarlömb þessa grimmilega ódæðis, þar af þrjú ófædd í móðurkviði. Litlu stólarnir sem sjá má á myndinni eru tileinkaðir börnunum sem týndu lífi sínu þennan aprílmorgun 1995. Mynd/ASG

Stólaakurinn lætur fáa ósnortna, einn stóll úr bronsi og gleri fyrir hvert fórnarlamb McVeigh, með ígröfnu nafni hins eða hinnar látnu, og stillt upp í raðir miðað við á hvaða hæð viðkomandi fórnarlamb sat. Einnig eru stólarnir staðsettir eftir því hvernig höggbylgja áburðarsprengjunnar skall á byggingunni og eru því flestir stólarnir saman komnir næst þeim stað þar sem bíllinn stóð og flestir létust.

Vírgirðingin Memorial Fence sem umlykur minnismerkin um 168 fórnarlömb Timothy …
Vírgirðingin Memorial Fence sem umlykur minnismerkin um 168 fórnarlömb Timothy McVeigh. Enn þann dag í dag, rúmum 24 árum eftir ódæðið, hengja gestir enn bangsa, kerti, leikföng og frumsamin ljóð á girðinguna í minningu barnanna sem lifðu sinn síðasta dag í apríl 1995, sum enn í móðurkviði. Mynd/ASG

Í raun eru minnismerkin í garðinum nokkur, næst stólaakrinum eru Hlið tímans, The Gates of Time, háir steinveggir með dyraopi, hvor sínu megin við grunnt vatn, Reflecting Pool. Efst í hvorn vegg er grafin tímasetning, 9:01 og 9:03, mínúturnar hvoru megin við tímasetningu sprengingarinnar. Þarna er einnig veggur með nöfnum þeirra 600 starfsmanna byggingarinnar sem lifðu tilræðið af, Survivor's Wall, veggur með teikningum skólabarna sem greyptar hafa verið í flísar, Memorial Fence, vírgirðing sem gestir hengja enn ljóð, bangsa, kerti og aðra hluti á en 19 börn létust í sprengingunni, þar af þrjú ófædd í móðurkviði. Gangstéttir garðsins eru allar gerðar úr graníti úr byggingunni en alls er garðurinn 13.000 fermetrar, að frátöldu húsnæði minjasafnsins sem þar stendur.

Næst: Óumflýjanleg hraðasekt, geðþekkur friðdómari, þjóðgarður steingervinga, kynngimögnuð saga bæjarins Two Guns og nótt við Miklagljúfur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert