Lét gamlan draum rætast í Oxford

Ósk lét gamlan draum rætast og stundar nú nám í …
Ósk lét gamlan draum rætast og stundar nú nám í Oxford-háskóla. Ljósmynd/Bárður Örn Gunnarsson

Ósk Sigurðardóttir starfar sem verkefnastjóri á verkefnastofu Landspítala, hún rekur einnig samfélagslegt frumkvöðlafyrirtæki sem heitir TravAble sem er aðgengisupplýsinga-app fyrir fólk með hreyfihömlun. Um þessar mundir stundar hún nám í nýsköpun og stefnumótun við Oxford-háskóla. Ósk er forfallin veiðiáhugamanneskja að eigin sögn og elskar að sigla. Hana dreymir um að eignast lítinn seglbát. 

Hvernig gengur lífið þessa dagana?

„Lífið gengur bara vel þessa dagana. Það er nóg að gera í vinnunni og svo er ég á fullu að lesa og undirbúa mig fyrir næstu ferð til Oxford í nóvember. Svo fer að koma að afmæli dóttur minnar sem við erum að skipuleggja saman, en það verður hrekkjavökuþema.“

Hvar býrðu?

„Ég ólst upp í Garðabæ, flutti svo í burtu í mörg ár, bæði til útlanda og bjó í Reykjavík í Hlíðunum í nokkur ár. Ég er nú komin aftur í bæinn og bý í Sjálandshverfinu og er þar umkringd æskuvinunum  frá því í barnaskóla sem er dásamlegt. Það eru mikil forréttindi að geta búið við sjóinn og geta gengið og hjólað meðfram strandlengjunni.“

Hvernig er heimilislífið og hvernig flakkarðu á milli Íslands og Oxford?

„Fjölskyldulífið er nútíma íslenskt heimilislíf. Ég er einstæð móðir og á eina dóttur sem er að verða 9 ára gömul og er í sambandi með Bárði Erni Gunnarssyni en hann á 3 börn. Við erum í svokallaðri fjarbúð, sem hentar ágætlega þar sem við búum hvort í sínu hverfinu. En við erum með börnunum okkar aðra vikuna og svo kærustupar hina vikuna þegar börnin okkar fara til hins foreldrisins.

Ósk Sigurðardóttir er forfallin veiðiáhuga-manneskja að eigin sögn. Hér er …
Ósk Sigurðardóttir er forfallin veiðiáhuga-manneskja að eigin sögn. Hér er hún með manninum sínum, Bárði Erni Gunnarssyni. Ljósmynd/Aðsend

Ég fer regluleg út til Oxford í námslotur í 7-10 daga í senn, en ég byrjaði í náminu í mars á þessu ári og klára í nóvember á næsta ári. Í Oxford bý ég vanalega á St. Hughes College eða New College sem eru skólar og heimavist fyrir nemendur í grunn- og framhaldsnámi. Herbergin eru svona týpísk einföld heimavistarherbergi en húsin sjálf og garðarnir eru dásamlegir þar sem gott er að sitja og lesa og svo er skemmtilegt að fá að upplifa að borða morgunmat með kennurum og nemendum í fallegum matsal.“

New College-byggingin fallega sem tilheyrir Oxford-háskóla.
New College-byggingin fallega sem tilheyrir Oxford-háskóla. Ljósmynd/Oxford University

Var það gamall draumur að læra við Oxford-háskóla?

„Ég tók grunnámið mitt í Danmörku og hluta af framhaldsnámi mínu á Spáni og hef litið á það sem frábært tækifæri að læra erlendis að kynnast frekar landi og þjóð og stækka sjóndeildarhringinn með því að umgangast fólk með fjölbreyttan bakgrunn. Mig hefur alltaf dreymt um að læra við bestu háskóla í heimi og Oxford var þar efst á lista. Þegar ég svo var að skoða framhaldsnám í nýsköpun þá rakst ég á gráðu sem uppfyllti öll mín skilyrði við Oxford-háskóla og ég ákvað að láta vaða og sækja um. Það var dásamlegur og mjög skemmtilegur dagur þegar ég svo fékk jákvætt svar um inngöngu.

Ég hef kannski líka alltaf haft lúmskan áhuga á Bretlandi og er algjört morðgátunörd og hef sérstaklega gaman af því að horfa á breska þætti eins og Sherlock Holmes,  Inspector Morse, Father Brown og Endeavour sem einmitt flestir eru teknir upp í Oxford. Ekki spillir fallegi breski hreimurinn, viðmótið og kurteisin.“

Hvað er skemmtilegast að gera í Oxford?

„Ég elska að ganga um borgina og skoða allar fallegu byggingarnar og garðana, setjast á kaffihús, ganga meðfram ánni Thames og sjá róðrarliðin á æfingu eða leigja sjálf bát og sigla. Það eru ótrúlega mörg skemmtileg söfn í Oxford og bókasöfn eins og The Bodleian Library eru algjör draumur. Í Oxford er líka mjög fallegur lystigarður en The University of Oxford Botanic Garden er elsti lystigarðurinn í Bretlandi með um 8.000 dásamlega fallegum plöntum.“

Áttu þér upp­á­haldsveit­inga­hús í Oxford?

„Þegar ég borða ekki morgunmat á heimavistinni fer ég á dásamlegan stað sem heitir Vaults and Garden með samnemendum mínum. Kaffihúsið er inni í kirkjunni University Church of St Mary the Virgin. Frábær matur, gott kaffi og yndislegt að sitja úti og horfa á Radcliff Camera-bygginguna sem er beint á móti. Einnig gaman að fara þangað í hádegismat eða afternoon tea um helgar.“

Veitingahúsið Vaults and Garden er inni í kirkjunni University Church …
Veitingahúsið Vaults and Garden er inni í kirkjunni University Church of St Mary the Virgin. Hægt er að sitja úti og horfa á Radcliff Camera-bygginguna sem er beint á móti staðnum. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér upp­á­haldsversl­un?

„Uppáhaldsverslunin mín í Oxford er bókabúðin Blackwell's Bookshop sem var stofnuð 1879 og þangað kíki ég reglulega og get eytt löngum tíma í að ganga á milli hæða, skoða og lesa fallegar bækur.

Í Oxford er allar helstu verslanir að finna eins og í öðrum borgum, en ég lít miklu frekar á Oxford sem borg upplifana, fræðslu og menningar. Og það er mun skemmtilegra að fara á safn, sýningar eða fyrirlestra en að hanga í búðum.“

Hvernig mynd­ir þú eyða drauma­deg­in­um í borg­inni?

„Ég myndi byrja daginn á því að borða morgunmat á Vaults and Garden, fara í göngutúr í miðbæinn, kíkja í bókabúðir og á markaðinn The Covered Market, fara á Ashmolean-safnið á listasýningu og borða hádegismat á Ashmolean Rooftop Restaurant eða fara á einn af fjölmörgum fyrirlestrum sem eru í boði um alla borg, ganga um og setjast á kaffihús í  skemmtilega Jericho-hverfinu. Ég myndi svo borða kvöldmat á Gee's Restaurant & Bar og kíkja svo á eitthvað af elstu krám Oxford, eins og Turf Tavern, King´s Arms eða The Eagle and Child. Ef það er mikil stemning er það FREVD-kokteilbarinn í Jericho-hverfinu eða The Varsity Club sem er Rooftop bar fyrir ofan markaðinn.“

Hvað ein­kenn­ir mat­ar­gerðina á þínu svæði í Oxford?

„Á gömlu fallegu kránum er matargerðin frekar hefðbundinn breskur matur, bökur, fiskur og franskar og steikur en svo eru þó nokkrir skemmtilegir veitingastaðir, m.a. með marokkóska, spænska, líbanska, indverska og asíska matargerð.“

Hvað kom á óvart við Oxford?

„Ég hafði ekki alveg áttað mig á því hvað borgin er í raun lítil og aðgengileg og hve stór hluti fólksins í borginni er tengdur skólanum. Það búa um 150 þúsund manns í borginni en það eru ansi margir skólar, heimavistir og aðrar byggingar sem eru tengdar Oxford-háskóla og um 30 þúsund nemendur og kennarar sem þeysast út um allt á reiðhjólum í jakkafötum eða Sub Fusc-skólabúningnum. Borgin er mjög friðsæl og þægileg og einstaklega fjölskylduvæn.“

Samnemendur Óskar eru 62 aðilar frá 33 löndum um allan …
Samnemendur Óskar eru 62 aðilar frá 33 löndum um allan heim. Hér standa þau undir Bridge of Sight-brúnni. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er gam­an fyr­ir fjöl­skyldu­fólk að gera í borginni?

„Maðurinn minn og börnin okkar komu öll til mín í sumar. Við byrjuðum í Oxford og fórum meðal annars í mjög skemmtilega siglingu á Thames-ánni og í gönguferð á Harry Potter-slóðir, en það eru ansi mörg atriði í myndunum tekin upp í og við hinar ýmsu byggingar í Oxford, m.a. í New College þar sem ég gisti oft. Garðarnir í borginni eru dásamlegir og auðvelt að hjóla eða ganga um þá, fara í lautarferð og leika sér, skoða blómin og húsin.  

Svo er mjög stutt í Cottswold-héraðið sem samanstendur af fallegum litlum miðaldaþorpum sem rekja mörg rætur sínar til Rómverja. Við leigðum okkur fallegt lítið steinhús og eyddum viku á svæðinu, þræddum gömul þorp, kíktum á fornsölur, borðuðum ekta breskan mat, fórum í Cottswold wildlife-dýragarðinn og Warwick-kastalann. Þetta var fullkomin uppskrift að streitulausu fríi fyrir alla fjölskylduna sem ég mæli hiklaust með.“

Börnin áttu dásamlegt frí í Oxford með foreldrum sínum í …
Börnin áttu dásamlegt frí í Oxford með foreldrum sínum í sumar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is