Pylsuhundar, kanilsnúðar og gúllas í Búdapest

Sigrún hefur búið í fimm ár í Ungverjalandi.
Sigrún hefur búið í fimm ár í Ungverjalandi. Ljósmynd/Aðsend

Sigrún Lilja Sigurgeirsdóttir var aðeins rétt rúmlega tvítug þegar hún flutti til Ungverjalands til að hefja nám í læknisfræði við Háskólann í Debrecen. Hún segist ekki hafa vitað mikið um landið, nema það að henni fyndist gúllas ekki gott. Á þeim fimm árum sem Sigrún hefur búið í Ungverjalandi hefur hún lært mikið um austurevrópska menningu og tekið gúllasið í sátt.

Ferðavefur mbl.is fékk Sigrúnu til þess að segja frá höfuðborg landsins, Búdapest, sem er einstaklega heimilisleg stórborg að mati Sigrúnar með áhugaverða og erfiða sögu.

Hvernig var að flytja fyrst til Ungverjalands, var eitthvað sem kom þér á óvart?

Ég vissi svo gott sem ekkert um Ungverjaland þegar ég flutti hingað rúmlega tvítug, nema þá að mér fannst gúllas ekki gott. Menningarsjokkið var talsvert við komuna, en borgin sem ég bý í er við landamæri Rúmeníu, þannig að austurevrópsku áhrifin eru sterk. Mér finnst fólk stundum líta niður á austurevrópska menningu og ætli það hafi ekki bara komið mér mest á óvart hversu áhugaverð og skemmtileg menningin er hér. Andrúmsloftið er afslappað og heiðarlegt, en á sama tíma tekur maður eftir lífsgæðakapphlaupinu líkt og heima. Hér er talsvert mikið af háværri Armani-merkjavöru og enn þá aðeins af Adidas-heilgöllum og gullkeðjum.

Séð yfir Búda frá Búdakastala. Ljósmynd/Aðsend

Ætli stefnur og straumar í stjórnmálum hafi ekki líka komið á óvart, en þrátt fyrir það þá er mín reynsla að hér er afskaplega margt vinalegt, hjálplegt og gott fólk.
Svo er fáránlega mikið af pylsuhundum hérna. Áður en ég flutti hingað hafði ég bara séð pylsuhund í teiknimyndinni Tommi og Jenni mála bæinn rauðan, en hér fer maður sjaldan í göngutúr án þess að sjá pylsuhund, sem er mjög jákvætt.

Og ég hef sæst við gúllasið.

Horft yfir Dóná, Keðjubrúin fyrir miðju. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig borg er Búdapest?

Búdapest finnst mér vera heimilisleg stórborg, með áhugaverða og erfiða sögu og mikla sál. Svo er hún skemmtilega hipp og kúl líka, hér er alltaf eitthvað um að vera.

Hvað er skemmtilegast að gera í borginni?

Mér finnst eiginlega skemmtilegast að hangsa bara og njóta stemningarinnar; rölta um, prófa nýjan mat og hlusta á lifandi tónlist þar sem hún er í boði. Vera með vinum og hitta nýtt fólk.

Sigrún horfir yfir útsýnið frá Fiskimannavíginu svokallaða í Búda-hluta borgarinnar yfir á þinghúsið í Pest-hlutanum. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér einhverja uppáhaldsveitingastaði eða -bari?

Ég rambaði inn á Déryné Bistró í minni annarri eða þriðju ferð til Búdapest og hef farið þangað allar götur síðan. Dásamleg stemning og frábær matur. Svo skemmir það ekki að smjörið sem fylgir með brauðinu er albesta smjör í sögu mannkyns.
First er minn uppáhaldsbar, nóg af craft-bjór á krana og kirsuberjabjórinn þeirra er sumar í glasi.
Aðrar heiðurstilnefningar fá: Padron fyrir tapas, Chez Dodo fyrir kaffi og makkarónur, Las vegans fyrir geggjaða vegan borgara, Mazel Tov fyrir miðausturlenskt, A la Maison Grand í morgunmat og Pizza Me fyrir að bjóða upp á nutella-pizzasneiðar þegar maður þarf á þeim að halda, sem er oftar en margur vill halda.

Fyrir utan Szimpla Kert-barinn í gyðingahverfinu. Ljósmynd/Aðsend

Hvers saknarðu helst frá Íslandi?

Ætli það sé ekki bara helst fjölskylda og vinir, og ferska loftið.

Hverju mælir þú með til að gera í Búdapest?

Mér finnst skemmtilegast að rölta um borgina, með sem minnst fyrir stafni. Maður upplifir alltaf eitthvað nýtt; gyðingahverfið er til dæmis kjörumhverfi fyrir rölt. Það er sérlega líflegt með mörgum veitingastöðum og börum.

Svo mæli ég með Hospital in the Rock-safninu, en þar er boðið upp á klukkutíma ferð með leiðsögumanni í gegnum sjúkrahús sem byggt var inni í náttúrulegu hellakerfi borgarinnar á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Í upphafi var gert ráð fyrir tæplega 100 leguplássum, en hellirinn hýsti um 600 særða við afar slæmar aðstæður í umsátri rauða hersins um Búdapest. Spítalinn var svo opnaður aftur í byltingunni 1956 og svo gerður að háleynilegu kjarnorkuheldu byrgi þegar kalda stríðið stóð sem hæst.
Ég held að ég hafi farið rúmlega 10 sinnum og það fær mann til að staldra við og hugsa í hvert skipti.

Skórnir við Dóná er líka mjög áhrifaríkt minnismerki um þau sem voru tekin af lífi á bökkum Dónár í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta eru rúmlega 50 járnskópör; karla, kvenna og barna, sem eru oftar en ekki fyllt blómum frá gangandi vegfarendum.
En lykilatriði númer 1 er að fá sér kürtőskalács, eða skorsteinsköku, sem er einn af þjóðarréttum ungverja. Þetta er eins konar grillaður kanilsnúður, sem er hægt að fylla með ís og nutella. Ha?!

Skórnir við þinghúsið. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hljómar draumadagur í borginni?

Ætli það sé ekki bara að sofa út, rölta svo á kaffihús í leit að croissant, kíkja í uppáhaldsbúðina mína Retrock og ættleiða ef til vill gamla flík. Borða svo góðan mat með góðum vinum, setjast við árbakkann þegar sólin er sest og njóta borgarljósanna, eða dansa inn í nóttina á Ötkert.

Er eitthvað sem fólk þarf að hafa í huga þegar það ferðast til Ungverjalands? Eru einhverjar ferðamannagildrur?

Svo sem engar sérstakar ferðamannagildrur sem mér dettur í hug, kannski helst að maður reyni að lágmarka tímann í H&M og slíkum verslunum. Sérstaklega í löndum þar sem krónan er ekki með lamandi minnimáttarkennd, því þá er stundum erfitt að hemja sig með kreditkortið og maður endar áður en maður veit af drekkhlaðinn pokum, sem eru bara svo oft fullir af óþarfa.

Keðjubrúin að vori til.
Keðjubrúin að vori til. Ljósmynd/Aðsend
Gata í gyðingahverfi borgarinnar.
Gata í gyðingahverfi borgarinnar. Ljósmynd/Aðsend
Blómstrandi kirsuberjatré í Búda.
Blómstrandi kirsuberjatré í Búda. Ljósmynd/Aðsend
Þinghúsið séð úr Fiskimannavíginu.
Þinghúsið séð úr Fiskimannavíginu. Ljósmynd/Aðsend
Kirsuberjatrén lífga upp á borgina.
Kirsuberjatrén lífga upp á borgina. Ljósmynd/Aðsend
Útsýni frá Várkert Bazar, sem er hluti hallargarðs Budakastala. Mjög ...
Útsýni frá Várkert Bazar, sem er hluti hallargarðs Budakastala. Mjög fallegt svæði sem er frábært að rölta um. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is