Allir dagar eins og í draumi hjá Önnu í Mílanó

Anna Bergmann nýtur þess að stunda nám í Mílanó.
Anna Bergmann nýtur þess að stunda nám í Mílanó. Ljósmynd/Aðsend

Anna Bergmann stundar háskólanám í Fashion Business, Communication and Media við listaháskólann Istituto Marangoni í Mílanó. Anna er ánægð í Mílanó enda heilluð af ítalskri menningu og ekki skemmir fyrir að borgin er annáluð tískuborg.  

„Ég hef alltaf verið heilluð af ítalskri menningu og eftir að hafa búið í London í tvö ár langaði mig að breyta til. Istituto Marangoni, háskólinn sem ég er að læra við, er einn af þeim bestu og þekktustu á sínu sviði og var ég svo heppin að komast þar inn. Svo sakar ekki að Mílanó er talin vera ein af höfuðborgum tískunnar, ásamt London, New York og París. Það hentar náminu og ástríðu minni ansi vel,“ segir Anna um ástæðu þess að Mílanó varð fyrir valinu. 

Hvaða hverfi eru í uppáhaldi?

„Brera, Moscova, Porta Venezia og Porta Ticinese.“

Áttu þér uppáhaldsveitingastað?

„Ég er mikill matgæðingur og er því dugleg að fara út að borða. Ég er samt sem áður mjög vanaföst og hef því farið oft á mína uppáhaldsstaði hér í Mílanó, því er ekki erfitt fyrir mig að mæla með þeim. Fyrir góðan ítalskan mat: Il Salumaio Di Montenapoleone, Langosteria Café Milano, Lú Bar og Penelope a Casa. Fyrir bestu pizzurnar: Dry Milano og Pizza Ok. Fyrir gott sushi: Temakinho. Fyrir brunch og kaffi: Égalité og Pandenus. Svo er minn helsti uppáhaldsstaður Canteen. Hann er mexíkóskur og býður upp á æðislegan mat og frábæra stemningu.“

Hvernig er skemmtanalífið í Mílanó?

„Ítalinn er mikið fyrir að skemmta sér og eru því öll tilefni nýtt til þess að fá sér drykk og hitta vini. Eftir vinnu eða skóla er vinsælt að fara í svokallað aperitivo en þá kaupir þú drykk og færð frían fingramat með, það er boðið upp á aperitivo á flestum börum og kaffihúsum. Svo er auðvitað mikil klúbbamenning í borginni en ég er ekki aðdáandi þegar kemur að því. Svo á sumrin er mikil „rooftop“-stemning, mínir uppáhalds eru Radio og Ceresio 7.H“.

Ljósmynd/Aðsend

Hvar er best að versla?

„Corso Vittorio Emanuele fyrir keðjur líkt og Zara, H&M, Mango, Sephora og Foot Locker. Fyrir fínni merki mæli ég með Via Monte Napoleone, Galleria Vittorio Emanuele og búðina Rinascente sem selur öll helstu merkin. Fyrir „vintage“ og „second hand“ mæli ég með Corso di Porta Ticinese.“

Hvað er ómissandi að sjá?

„Galleria Vittorio Emanuele er elsta verslunarmiðstöð Ítalíu og er vægast sagt stórkostleg. Duomo di Milano, dómkirkja borgarinnar, er einnig mjög falleg. Hún er staðsett við hliðina á Galleria Vittorio Emanuele og er því tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi. Ég mæli samt sem áður með að skoða þessa staði snemma á virkum degi eða seint að kvöldi til þar sem yfir daginn og um helgar verður mjög fjölmennt á torginu og getur það verið ansi yfirþyrmandi. Mílanó er stútfull af fallegum stöðum til að sjá, m.a. Castello Sforzesco, Teatro alla Scala, Palazzo Reale og auðvitað San Siro fyrir fótboltaaðdáendur. Einnig er hægt að sjá Seinustu Kvöldmáltíðina eftir Leonardo da Vinci á safninu Santa Maria delle Grazie en það er nauðsynlegt að kaupa miða marga mánuði fram í tímann. Svo eins og ég nefndi hér að ofan þá er ótrúlega gaman að labba í gegnum hverfin Brera og Moscova, þar er mikið af fallegum stöðum sem fanga augað.“ 

Mikið er af fallegum byggingum í Mílanó.
Mikið er af fallegum byggingum í Mílanó. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er draumadagurinn þinn í Mílanó?

„Eins klisjukennt og það hljómar þá eru allir dagar draumi líkastir í þessari fallegu borg. Ég fer daglega með hundinn minn í garðinn Giardini Pubblici Indro Montanelli og leyfi henni að hlaupa um á meðan ég nýt þess að vera í ró og næði í fallegu umhverfi. Svo fer ég á uppáhalds franska kaffihúsið mitt sem heitir Égalité, fæ mér soja cappuccino og nýbakaða madeleine. Á draumadegi myndi ég svo fara ásamt góðra vina hópi á uppáhaldsveitingastaðinn, Canteen, og fá mér góðan mexíkóskan mat.“

Anna fer með púðluhundinn sinn í garðinn Giardini Pubblici Indro …
Anna fer með púðluhundinn sinn í garðinn Giardini Pubblici Indro Montanelli. Ljósmynd/Aðsend

Mílanó er þekkt fyrir viðskipti og stundum er talað um að það sé mikill hraði og mikið af steinsteypu í borginni, hver er þín upplifun á þessu?

„Mílanó er mikil viðskiptaborg en ég verð að vera ósammála varðandi hraðann. Ég upplifi lítið stress og alls ekki jafnmikinn hraða líkt og í borgum eins og London og New York. Þvert á móti í rauninni þar sem Ítalinn er rólegur að eðlisfari og er orðið stress eða „í kapp við tímann“ ekki til í þeirra orðabók.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvað er það sem heillar þig mest við menningu Mílanóbúa?

„Maturinn, kaffimenningin, hvað allir eru vingjarnlegir (aðallega ef töluð er ítalska) og að hundar eru leyfðir alls staðar, það er ansi hentugt fyrir mig þar sem ég er með eina litla púðlu. Fjölskyldan skiptir líka öllu máli og eru sunnudagar með fjölskyldunni heilög hefð hjá Ítalanum.“

Eru einhverjar túristagildrur sem ber að varast?

„Í kringum Duomo er mikið um fólk sem reynir að fá af þér peninga með því að „gefa“ þér rósir eða armbönd og skipa þér svo að borga. Ég hef ekki lent í vasaþjófum né miklu áreiti en það getur auðvitað gerst hvar sem er í heiminum.“

View this post on Instagram

On a stroll

A post shared by 𝗔𝗡𝗡𝗔 𝗕𝗘𝗥𝗚𝗠𝗔𝗡𝗡 (@annasbergmann) on Oct 25, 2019 at 7:25am PDTmbl.is