Viltu gista á æskuheimili Harry Potter?

Húsið í Lavenham.
Húsið í Lavenham. Ljósmynd/De Vere House

Aðdáendur galdrastráksins Harry Potter geta nú gist á æskuheimili hans í Godrics Hollow fyrir aðeins 110 pund fyrir nóttina eða 17.600 kr. 

Hið 600 ára gamla hús, De Vere-húsið, stendur í þorpinu Lavenham í Suffolk í Bretlandi, það sést í lokamynd Harry Potter-seríunnar, Harry Potter og dauðadjásnin, hluta 1. Bærinn sem húsið stendur í var innblásturinn að bænum Godrics Hollow þar sem Potter-fjölskyldan átti heima í sögunum um Harry. 

Harry bjó í húsinu fyrsta árið sitt en foreldrar hans voru síðar myrtir þar og húsið eyðilagðist. Húsið hefur fengið töluverða athygli eftir að það sást í kvikmyndunum.

Eigendurnir, Jane og Tony Ranzetta, hafa búið í húsinu í yfir 20 ár og útbúið gistiaðstöðu í gestahúsinu, sem þau nú leigja út. Húsið var byggt á 14. öld og á sína eigin „galdrasögu“.

Jane segir að þar búi draugur sem hún hefur margoft séð. „Sagan er frekar merkileg reyndar. Eftir að við fluttum fyrst inn sá Jane undarlega klæddan mann labba í gegnum vegginn í eldhúsinu út í garðinn,“ sagði Tony í viðtali við The Sun. 

Hann segir að Jane hafi auðvitað verið í áfalli en gert sér grein fyrir að þetta væri hús með langa sögu. Því væri ekki óeðlilegt að sjá eitthvað furðulegt á kreiki. 

„Seinna fórum við á safn í Monacute House þegar Jane hrópaði upp fyrir sig þar sem hún hafði séð drauginn sem hún sá í málverki á safninu,“ sagði Tony. 

Síðar kom í ljós að það var Sir Francis De Vere. Sir Francis átti heima í húsinu en var tekinn af lífi. Draugurinn, Næstum hauslausi Nick, í Harry Potter er byggður á draugnum Sir Francis sem býr enn í De Vere-húsinu. 

Ranzetta-hjónin segja að fleiri draugar búi í húsinu, þar á meðal hrekkjalómur sem færir hluti til og er ekki hrifinn af því þegar nunnur eða prestar koma í heimsókn. 

Ljósmynd/De Vere House
Ljósmynd/De Vere House
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert