Knattspyrnumaðurinn Rúnar Alex ánægður í Dijon

Ásdís Björk og Rúnar Alex Rúnarsson kunna vel við sig …
Ásdís Björk og Rúnar Alex Rúnarsson kunna vel við sig í Dijon í Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend

Knattspyrnumaðurinn Rúnar Alex Rúnarsson og unnusta hans, Ásdís Björk, eignuðust nýverið dótturina Alexöndru Ölbu. Þau hafa verið búsett í Dijon í Frakklandi frá því í júlí á síðasta ári og mæla með borginni fyrir alla þá sem hafa gaman af fagurfræði og góðum mat. Rúnar sem leikur með liði Dijon í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta er duglegur að æfa sig á líkama og sál og segir lífið ganga vel með litlu fjölskyldunni sinni í Frakklandi. Hann segir alla þá sem hafa áhuga á góðri matargerð eiga að smakka Dijon-sinnepið og Bouef Bourguignon-réttinn sem er vinsæll í Dijon. Eins eru rauðvínin einstök á svæðinu og vínsmökkun upplifun sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. 

Hvernig gengur lífið þessa dagana?

„Það gengur rosa vel, ég og kærastan mín eignuðumst fyrsta barnið okkar þann 12. október 2019 þannig að við erum að venjast þessu nýja lífi okkar.“

Hvernig er dæmigerður dagur í þínu lífi?

„Dæmigerður dagur hjá mér er þannig að ég vakna um átta á morgnana, til að vera mættur í morgunmat með liðinu klukkan níu. Æfing byrjar síðan klukkan tíu. Ég er kominn heim um klukkan eitt á daginn og þá fáum við okkur eitthvað gott að borða enda mikilvægt að næra sig vel eftir erfiða æfingu til að vera tilbúinn fyrir næstu æfingu. Eftir hádegismatinn löbbum við yfirleitt í plöntugarð með Alexöndru og Stellu hundinum okkar og svo er það bara afslöppun fram að kvöldmat sem er yfirleitt um klukkan átta á kvöldin. Við reynum að fara að sofa um ellefu á kvöldin, en svefnvenjur okkar hafa aðeins breyst eftir komu Alexöndru dóttur okkar.“

Hversu oft eru æfingar?

„Við æfum sex til sjö sinnum í viku. Svo eru alltaf leikir á laugardögum.“

Rúnar sem leikur með liði Dijon í frönsku úrvalsdeildinni í …
Rúnar sem leikur með liði Dijon í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta er duglegur að æfa sig á líkama og sál og segir lífið ganga vel með litlu fjölskyldunni sinni í Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig vinnur þú í andlegu hliðinni?

„Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á andlegu hliðina enda mikilvægt að vera sterkur andlega sem markmaður. Í dag er ég að vinna með frönskum markþjálfa (e mental coach).“ 

Hvar býrðu?

„Við búum í íbúð í miðbæ Dijon. Okkur líkar vel að vera umkringd fólki og viljum hafa nóg um að vera í kringum okkur, eins og veitingastaði og kaffihús þannig að við getum bara skotist út og gert eitthvað skemmtilegt ef okkur leiðist.“

Hvernig er heimilislífið?

„Heimilislífið er heldur betur búið að breytast. Ég og Ásdís erum búin að vera saman í rúm sjö ár, og eins og áður kom fram erum við nýbúin að eignast dóttur þannig lífið snýst um að hugsa um hana og láta henni líða vel.“ 

Hvað er skemmtilegast að gera í borginni þinni?

„Okkur þykir alltaf skemmtilegt þegar við fáum gesti og förum í vínsmökkun enda Dijon og Búrgúndí-héraðið heimsþekkt fyrir rauðvínin sín.“

Áttu þér upp­á­haldsveit­inga­hús?

„Uppáhaldsveitingastaðurinn minn hér er Gril’Laure, það er veitingastaður í húsi frá 12. öld þar sem þú getur fengið kjöt og fisk sem er eldað á opnu miðaldagrilli. Um helgar förum við oft í „brunch“ á stað sem heitir Mr. Moustard, á virkum dögum er þetta cocktail-bar en á sunnudögum er meiriháttar „brunch“ þar. Svo er einn annar staður í miklu uppáhaldi hjá okkur en hann heitir the Little Italy Shop en eins og nafnið gefur til kynna er þetta ítalskur sem staður sem gerir æðislegt pasta og pizzur.“

Áttu þér upp­á­haldsversl­un?

„Uppáhaldsverslunin heitir Franck Berthier. Þeir sérhæfa sig í herrafatnaði og selja merki eins og Kenzo, Dsquared, Burberry o.fl.“

Hvernig mynd­ir þú eyða drauma­deg­in­um í borg­inni?

„Draumadagurinn minn væri að vakna snemma og fara í golf með félögum mínum úr liðinu, eyða svo tíma með fjölskyldunni á ströndinni eða í garðinum eftir það og fara svo öll saman út að borða um kvöldið.“

Hvað ein­kenn­ir mat­ar­gerðina á þínu svæði?

„Dijon er mikil matarborg og maður verður mjög var við það þegar maður gengur um götur borgarinnar enda mikið af veitingastöðum og kaffihúsum. Það er stór og glæsilegur matarmarkaður í miðbænum sem selur ferskar vörur og er staður sem allir ættu að skoða sem heimsækja borgina. Varðandi matargerðina eru það fyrst og fremst hráefnin sem skipta máli en það er lögð mikil áhersla á góð og náttúruleg hráefni. Það þekktasta sem kemur frá Dijon er sinnepið sem kennt er við borgina en einnig eru nokkrir réttir sem einkenna Dijon en þeir þekktustu eru Bouef Bourguignon, sem er mjög líkt nautagúllasi, Jambon Persille, sem er skinka með persil og svo sniglar.“

Hvað kom á óvart við flutn­ing­ana út á sínum tíma?

„Það sem kom mest á óvart var hversu fáir töluðu ensku. Það voru margir sem höfðu varað okkur við þessu, en okkur grunaði ekki hversu mikil áskorun þetta var í upphafi.“

Ásdís Björk og Rúnar Alex kunna vel við sig inn …
Ásdís Björk og Rúnar Alex kunna vel við sig inn í miðri Dijon þar sem stutt er í verslanir og aðra góða staði. Ljósmynd/Aðsend

Hvað sakn­arðu helst frá Íslandi?

„Ég sakna auðvitað fjölskyldunnar og vinanna en ef það er eitthvað eitt annað sem ég ætti að nefna væri það íslenski ísinn.“ 

Hverju mæl­ir þú með fyr­ir karlmenn á þínum aldri til að gera í borginni?

„Ég mundi klárlega mæla með að fara í alvöruvínsmökkun, það er hrikalega skemmtilegt en líka ótrúlega fróðlegt að læra um vín og læra að kunna að meta gott vín.“

Hvað er gam­an fyr­ir fjöl­skyldu­fólk að gera í borginni?

„Það er hægt að fara á Lac Kir, það er stórt vatn sem er með strönd og fullt af afþreyingum, mini golf, „paddle board sem eru bretti sem staðið er á og róið með ár á vatni eða í sjó, kayak og strandblak svo eitthvað sé nefnt. Eins er gaman að leigja hjól og hjóla vínekruveginn. Svo er hægt að fara í sinnepssmökkun eða súkkulaðismökkun. Einnig er gríðarlega fallegt safn sem er nýuppgert og mjög glæsilegt, í safninu er svo turn sem hægt er að labba upp í og á toppi turnsins ertu með 360 gráðu útsýni yfir Dijon.“

Rúnar Alex og Ásdís Björk hafa verið saman í sjö …
Rúnar Alex og Ásdís Björk hafa verið saman í sjö ár og eignuðust nú nýverið dóttur saman.

Hvað ættu all­ir að kaupa í heim­sókn til borg­ar­inn­ar?

„Sinnep og rauðvín.“

Hvað ættu ferðamenn að var­ast?

„Ekkert sem mér dettur í hug.“

Hvað er eft­ir­sókna­vert í við staðinn sem þú býrð á?

„Það er rosalega margt eftirsóknarvert hér enda er nóg um að vera fyrir alla, það er gríðarlega falleg náttúra hér í kring enda lykilatriði í góðu rauðvínshéraði að það séu hæðir og dalir. Það eru fallegir golfvellir rétt hjá ef fólk hefur áhuga á því og svo er stutt að fara í stórborgir eins og Paris, Lyon, Basel og Genf. Það sem mér finnst vera eftirsóknarverðast er samt það að það eru ekki jafn margir túristar hér eins og í stórborgunum í kring þannig að maður fær að upplifa þessa frönsku menningu sem er svo æðisleg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert