Hafðu þetta í huga áður en þú bókar Airbnb

Skoðaðu myndirnar af gistirýminu sem þú hyggst bóka.
Skoðaðu myndirnar af gistirýminu sem þú hyggst bóka. AFP

Airbnb er vinsæll kostur þegar haldið er í ferðalag. Í flestum borgum og bæjum víða um heim er hægt að finna Airbnb, hvort sem það er á Grænlandi eða á Ítalíu. Þessi valmöguleiki er skemmtileg viðbót við hefðbundin hótel og hostel en þó ekki sem hentar öllum.

Með því að bóka Airbnb er möguleiki á að gista á óhefbundnari stað, t.d. í húsbíl eða bát og hentar því þeim sem vilja upplifa áfangastaðinn á skemmtilegan hátt.

Það er ýmislegt sem hafa skal í huga þegar maður bókar gistingu á Airbnb þar sem gestgjafar eru ekki stórfyrirtæki heldur oft bara meðalmanneskja sem vill drýgja tekjurnar.

Skoðaðu myndirnar

Það er góð regla að bóka bara þar sem þú getur fengið að sjá myndirnar af gistirýminu. Þá er líka mikilvægt að bera myndirnar saman við þær upplýsingar sem koma fram á síðunni. Sumir skrá til dæmis svefnsófa, eða bara sófa, sem rúm. Ef gistirýmið er skráð sem tveggja herbergja en þú sérð bara eitt herbergi á myndunum og svo einn sófa, þá er annað herbergi líklega bara sófinn í stofunni.

Lestu umsagnirnar

Eftir að gestir nýta sér þjónustu gestgjafa á Airbnb býðst þeim sá valmöguleiki að gefa umsögn. Í þeim umsögnum geturðu skoðað hvort gistirýmið, hvort sem það er sófi, herbergi eða heilt hús sé eins og því er lýst. Það getur komið í veg fyrir vonbrigði að lesa umsagnirnar vel.

Vertu með aðra Airbnb-auglýsingu í huga eftir að þú bókar

Við erum öll mannleg, líka Airbnb-gestgjafar. Það getur eitthvað komið skyndilega upp á hjá gestgjafanum sem þú bókaðir hjá og því þarf hann að hætta við að taka á móti þér. Þú færð endurgreitt ef gestgjafinn hættir við, en hann er ekki ábyrgur fyrir að tryggja þér gistingu. Það margborgar sig því að vera búinn að skoða fleiri auglýsingar á sama svæði til að spara þér höfuðverkinn.

Kannaðu hverfið vel áður en þú bókar

Ef þú ert ekki kunnugur staðháttum er lykilatriði að kanna hverfið vel áður en þú bókar gistingu. Það er ekki gaman að vera búinn að bóka gistingu og komast svo að því þegar maður mætir að hverfið sé ekki gott eða gríðarlega langt sé í almenningssamgöngur.

Talaðu við gestgjafann áður en þú kemur

Að eiga í góðum samskiptum við gestgjafann er mjög mikilvægt. Spurðu spurninga um eignina og svæðið. Þá færðu betri tilfinningu fyrir gestgjafanum og hvort þú getir treyst honum. Einnig er mælt með að skoða umsagnir um gestgjafann.

mbl.is