Hvað er hægt að gera fyrir jólin í Köben?

Tívolíið í Kaupmannahöfn í jólabúningi.
Tívolíið í Kaupmannahöfn í jólabúningi. Tivoli/Christoffer Sandager

Kaupmannahöfn er vinsæll áfangastaður Íslendinga sama hvaða árstíð er. Það er sérstakur andi yfir dönsku höfuðborginni þegar jólin fara senn að ganga í garð. Það er fullkomið að byrja aðventuna á því að skella sér til Kaupmannahafnar í langa helgarferð og fylla á jólatankinn og lækka stöðuna á heimabankanum. 

Jólatívolíið

Kaupmannahöfn er þekkt fyrir sitt einstaka tívolí og það er að sjalfsögðu komið í jólabúning. Tívolíið ætti að vera áfangastaður allra sem fara um borgina í það minnsta einu sinni þrátt fyrir að börn séu ekki með í ferð. Þar er skemmtilegt að sitja og njóta veitinga með jólaívafi. Þar er svo hægt að skella sér á skauta, enda ekkert vetrarlegra en að fara á skauta. 

Jólamarkaður

Ef þig langar að kíkja á jólamarkað þarftu ekki að leita lengra en til Kaupmannahafnar. Þar eru jólamarkaðir í svo gott sem hverju hverfi. Hvað er er danskara en H.C. Andersen jólamarkaður á Nytorv? Eða jólamarkaðurinn á Kongens Nytorv þar sem þú getur notið jólaskreytinganna og klárað jólainnkaupin í verslunarmiðstöðinni Magasin. Þá er jólamarkaðurinn á Hojbro Plads við Strikið einnig hinn fullkomni jólamarkaður og ekki langt að fara ef þið eruð stödd á Strikinu. 

Jólaljósin á Kongprinsensgade.
Jólaljósin á Kongprinsensgade. Skjáskot/Instagram

Jólaljósin á Kronprinsensgade

Jólaskrautið á Kronprinsensgade eru einstaklega falleg og þessi skemmtilega verslunargata lifnar við fyrir jólin.

Skautasvellið í Fredriksberg

Í nóvember ár hvert opnar skautasvellið í Frediksberg í vetrarbúningi. Það er opið langt fram á kvöld og hægt er að skauta um og njóta jólaljósanna. Á nærliggjandi kaffihúsum er svo hægt að næla sér í heitt kakó eða jólaglögg. 

mbl.is