Kanntu að nota flip-flops?

Flip-flops er fótabúnaður sem hentar báðum kynjum. Slíkir skór hafa …
Flip-flops er fótabúnaður sem hentar báðum kynjum. Slíkir skór hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda en urðu vinsælir við sumarklæðnað í Bandaríkjunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Þá höfðu hermenn kynnst skónum í Japan og tekið með heim eftir stríðið. Ljósmynd/Dreamstime.com

Flip-flops-sandalar eru að margra mati ómissandi á ferðalögum. Þeir eru léttir, taka lítið pláss í ferðatöskunni og eru sérlega hentugir í hita. Skórnir eru þó ekki allra.  

Annaðhvort virðist fólk taka ástfóstri við flip-flops eða hreinlega ekki skilja hvernig eigi að ganga á þeim og gefur þeim þar af leiðandi ekki séns. Þessir flötu sandalar, sem eru með y-laga bandi báðum megin við ristina og á milli stóru táar og baugu, eru ekki þeir stöðugustu því þeir veita engan stuðning við fótinn. Á móti kemur að þeir eru frábærir í  heitu veðri því það loftar aldrei betur um fæturna en í flip-flops. Eins þola þeir vel sand og sjó og það má alltaf skola af þeim, sérstaklega ef þeir eru ekki úr leðri. 

Hér eru nokkur góð ráð fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu flip-flops-skref.  

1. Kauptu rétta stærð Fóturinn á að passa í skóinn, hællinn má ekki standa út fyrir sólann né tærnar lafa fram yfir. Skórnir eiga að vera þægilegir. Ef bandið ofan á ristinni er of þröngt þá veldur það sársauka, en það má ekki heldur vera of vítt því þá detta skórnir af fætinum.  

2. Þrýstu tánum saman Það getur tekið smá tíma að venjast því að ganga í flip-flops. Ólíkt öðrum skóm er nauðsynlegt að þrýsta tánum sem bandið liggur á milli örlítið saman þegar gengið er, en ekki of mikið því þá er meiri hætta á falli. Gott er að æfa sig heima áður en heill dagur er tekinn í skónum erlendis.

3.  Ekki ganga eins og önd. Það er meiri hætta á að skórnir detti af fætinum ef þú ert útskeif/ur. Reyndu að ganga sem beinast þegar þú ert í flip-flops.   

4. Veldu skó með breiðu bandi Flip-flops-byrjendur ættu að byrja á því að kaupa sér skó með sem breiðustu bandi yfir ristina, það gefur auka stuðning auk þess sem mjó bönd eiga það til að skerast frekar inn í ristina.  Eins er hægt að fá flip-flops með bandi yfir ökklann en slíkir skór veita meiri stuðning en hefðbundnir flip-flops og því oft auðveldara að ganga í þeim.

5. Notaðu þá í stuttar vegalengdir Flip-flops henta eingöngu fyrir stuttar vegalengdir. Að fara í langa göngutúra í flip-flops getur valdið verkjum í fótum og sinabólgu vegna þess að skórnir veita engan stuðning.

6. Hársprey gegn blöðrum Ef þér finnst þú renna til í skónum prófaðu þá að spreyja sólana að innan með hárspreyi. Það gerir sólann stamari og kemur í veg fyrir núningsblöðrur.

7. Snyrtu fæturna Í flip-flops verða öll fótalýti sýnileg svo það er kannski tímabært að skella sér í fótsnyrtingu áður en skórnir eru dregnir fram. Ef þú svitnar mikið á fótunum er einnig sniðugt að nota fótapúður sem heldur fótunum þurrum og kemur í veg fyrir táfýlu. 

8. Virtu reglurnar Í sumum löndum er bannað að sitja undir stýri í flip-flops og eins eru þeir bannaðir víða á veitingastöðum.

Flip flops eru kjörnir í ferðalög til heitra landa. Skórnir …
Flip flops eru kjörnir í ferðalög til heitra landa. Skórnir eru léttir og auðvelt að ferðast með þá. Ljósmynd/Corewalking.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert