Kynntist spænskri stelpu sem dró hann til Granada

Reynir fluttist til Granada til að kynnast flamenkótónlistinni betur. Á …
Reynir fluttist til Granada til að kynnast flamenkótónlistinni betur. Á Spáni gengur hann undir heitinu Reynir del Norte en hann var að senda frá sér fyrstu íslensku flamenkóplötuna, El Reino de Granada. Ljósmynd/Aðsend

Reynir Hauksson féll fyrir spænskri flamenkótónlist og fluttist til borgarinnar Granada í Andalúsíu til að kynnast fyrirbærinu betur. Hann segir flamenkótónlistina stórhættulega og hughrifin sterk.

„Ég kynntist spænskri stelpu fyrir nokkrum árum síðan. Hún heillaði mig mikið þessi framandi kona þannig að ég var forvitinn um hennar umhverfi. Eftir að hafa kynnt mér og heimsótt hennar heimahaga var ég dolfallinn af undrun yfir þessari draumaveröld. Það sem stóð upp úr var þetta magnaða fyrirbæri er kallast flamenkó. Getur þetta virkilega verið raunverulegt? Þarf ég ekki að þekkja þetta betur?“ segir Reynir þegar hann er spurður út veru sína í borginni Granada þar sem vöggu flamenkótónlistarinnar er að finna. „Það er í raun allt við flamenkó sem höfðar til mín. Ef við förum út í tæknileg atriði þá heillar mig þessi svokallaði amalgama, eða blandaði rytmi, sem og tónamál og túlkun flamenkó. En í raun töfrar hún mig vegna þess að ég finn fyrir einhverju ekta þarna, einhverju sem er alvöru. Flamenkó er stórhættulegt. Það er ekki hægt að ljúga í flamenkó og þú verður að taka áhættu. Fyrir vikið eru hughrifin svo sterk.“

Það er allt fallegt við flamenkó;kjólarnir, tónlistin og dansinn.
Það er allt fallegt við flamenkó;kjólarnir, tónlistin og dansinn. Ljósmynd/Dreamstime.com

Ævaforn en snarlifandi borg 

Reynir hefur verið í gítarnámi í borginni hjá meisturum eins og Maestro Alberto, Jerónimo Maya og Rubem Dantas. „Í febrúar fer ég svo í öflugan masterklass með Manuel Parrilla, sem er einn helsti spámaður nútíma-flamenkógítarleiks. Ég er í raun stígandi á milli tveggja heima og það sem tengir þá er flamenkóið,“ segir Reynir. Hann bætir við að náminu ljúki aldrei þegar flamenkó er annarsvegar.  Dagarinr í Granada eru skemmtilega frábrugðnir hjá Reyni sem þarf ekki nema tvö orð til þess að lýsa borginni; ævaforn en snarlifandi. „Það er mikil menning og þá sérstaklega í gamla hlutanum, Albayzín og Sacromonte. Hér eru margir viðburðir af ýmsum toga, tónleikar, ljóðakvöld og miklar veislur. Granadabúar kunna að skemmta sér. Venjulegur dagur væri kannski á þá leið að ég vakna og byrja að hita upp á gítarinn. Svo fæ ég mér morgunmat og smá göngutúr og held svo áfram að spila fram að síestunni. Um eftirmiðdaginn spila ég svo undir í dansakademíunni hjá henni Irene, eða fer að spila undir í söngtímum. Svo er oft einhver framkoma á kvöldin. Á öðrum dögum hitti ég vini niðri í hverfi og við spilum saman, svo endum við oft í flamenkópartýi í hellum Sacromonte. Í helgu hæðinni er mikill andi.“   

Reynir þarf aðeins tvö orð til þess að lýsa Granada; …
Reynir þarf aðeins tvö orð til þess að lýsa Granada; ævaforn en snarlifandi. Þessi mynd er frá Alhambra-höllinni en höllin hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem heimsækja borgina. Ljósmynd/Dreamstime.com_lelik83

Ber virðingu fyrir dansinum en söngurinn er rótin

Á Spáni er Reynir þekktur sem Reynir de Norte því föðurnafnið var full erfitt í framburði fyrir Spánverjana og undir því nafni hefur hann gefið út fyrstu íslensku flamenkóplötuna sem er á leið í verslanir á Íslandi. Reynir hefur verið duglegur við að kynna flamenkótónlistina fyrir Íslendingum undanfarin ár og haldið tónleika víða. 

-Hvernig hefur flamenkóið fallið Íslendingum í geð?

„Við Íslendingar erum mjög blóðheit, dýnamísk og andleg. Við erum heit þjóð í köldu landi. Íslendingar eru miklar tilfinningasprengjur sem eru bara að bíða eftir réttum hvata.“

-Seturðu einhvern „íslenskan blæ“ á flamenkótónlistina þína?

„Íslenskur blær, já ég get sagt það, bæði hef ég útsett íslensk lög fyrir flamenkógítar og svo má greina áhrif nokkurra íslenskra þjóðlaga í nokkrum lögum, ef maður leggur vel við hlustir.“

 - Hvað með flamenkódansinn? 

„Ég held mig við tónlistina en inni í mér býr dansari sem ég veit nú ekki hvort komi einhvern tímann fram. En fyrir dansinum ber ég ofboðslega virðingu, hann er rúsínan í pylsuenda flamenkósins. En verandi gítarleikari er ég samt hrifnastur af söngnum, það er hið eiginlega flamenkó. Söngurinn er rótin.“

Reynir Hauksson og dansarinn Jade Alejandra. Reynir hefur verið duglegur …
Reynir Hauksson og dansarinn Jade Alejandra. Reynir hefur verið duglegur við að kynna flamenkótónlistina fyrir Íslendingum undanfarin ár og haldið tónleika víða. Þann 7. desember verður hann með tónleika í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar. mbl.is/​Hari

Ekki hægt að fá vondan mat í Granada

- Hvað þurfa ferðamenn að upplifa í Granada?

„Nóg af flamenkó, sjá það og heyra sem víðast og sem oftast. Ég myndi þá mæla með stöðunum La Alboreá, Eshavira og Peña La Platería. Þetta eru þrír ólíkir staðir og allir með svo sérstakan karakter. Þegar ég vil hlusta á flamenkó fer ég mikið á þessa staði sem og á El Tabanco, sem er sérstakur flamenkó-söngstaður. Svo er ómögulegt að fá vondan mat hérna, hann er alltaf ljúffengur.  Það er einnig vel við hæfi að heimsækja kastalabyggingar Alhambra eða bara slappa af í Albayzin. Varðandi tapas þá er La Sitarilla andalúsískasti staður sem ég hef nokkurn tímann kynnst og það er ekkert grín magnið af mat sem þú færð með hverjum drykk. Svo er gaman að kíkja út í sveit í Las Alpujarras. Eins bara það að ganga um Albayzin, niður Paseo de los Tristes og fram yfir í Realejo. Mér líður oft eins og ég sé staddur inni á gríðarstóru safni, en svo er ég strax minntur á það að þetta sé lifandi og enn í mótun því það er svo margt að gerast hverju sinni.“

„Það er ekki hægt að ljúga í flamenkó og þú …
„Það er ekki hægt að ljúga í flamenkó og þú verður að taka áhættu. Fyrir vikið eru hughrifin svo sterk,“ segir gítarleikarinn Reynir, sem býr meirihluta ársins í borginni Granada á Spáni. Ljósmynd/Aðsendmbl.is