Verstu ferðaráðin sem þú átt ekki fylgja

Hefur þú fengið þessi ferðaráð?
Hefur þú fengið þessi ferðaráð? Ljósmynd/Pexels

Ferðaráð geta breyst frá degi til dags í heimi sem breytist stöðugt. Til er fjöldinn allur af klassískum ferðaráðum, en þó að eitthvað þyki klassískt er ekki endilega þar með sagt að það sé gott ráð. Sum ráð eiga einfaldlega ekki við í dag, meðal annars út af tæknivæðingu eða sífellt aukinni umhverfisvitund.

Þegar þú leggur land undir fót er fólk boðið og búið að leggja þér línurnar og gefa þér ráð. Það er ekki þar með sagt að þú þurfir að fylgja þeim öllum. Ef þú færð eitthvað af eftirfarandi ráðum ættirðu að staldra við og hugsa þig tvisvar um. 

Forðastu kvíða með því að skipuleggja ferðina frá A til Ö

Það eru margir sem eru kvíðnir fyrir ferðalögum og þeir sem gera það hafa oft tilhneigingu til þess að skipuleggja ferðina sína í þaula. Þessi of-skipulagning getur kostað þig peninga, tækifæri og haft öfug áhrif og aukið stressið. Með því að nálgast ferðalagið á opnari máta verður ekkert mál fyrir þig að breyta aðeins út af áætlun, til dæmis ef veðrið hentar ekki vel til þeirrar afþreyingar sem þú hafðir skipulagt.

Ekki borða mat frá götuvögnum

Þetta ráð gæti hafa komið frá einhverjum sem fékk í magann eftir að hafa borðað mat úr götuvagni á framandi slóðum. Ef þú fylgir þessu ráði ferðu á mis við fjölbreytta matarmenningu heimamanna. Götuvagnar með sín opnu eldhús eru oft hreinni en eldhús á veitingastöðum á bak við lokaðar dyr. Matur úr götuvögnum er oft hreint afbragð og töluvert ódýrari en á veitingastöðum. Ef þú sérð heimamenn standa í röð við götuvagn þá er það klárlega gæðamerki. 

Drekktu bara vatn úr flöskum

Mengað vatn er ein stærsta váin í mörgum ríkjum víða um heim. Í mörgum tilvikum er samt algjör óþarfi að kaupa vatn í plastflöskum. Það er einnig einstaklega óumhverfisvænt. Slepptu því og taktu fjölnota brúsa með þér, nýttu hvert tækifæri til að fylla hann á flugvöllum, hótelum og veitingastöðum. Þá spararðu sjálfum þér pening sem og gerir umhverfinu greiða í leiðinni. 

Að sleppa öllum snjalltækjum

Einhverja dreymir kannski um að fara í ferðalag og aftengjast hinum rafræna heimi á meðan. Það er þó ekki góð hugmynd öryggisins vegna en þetta snýst allt um að setja sér takmörk. Það er ekki góð hugmynd að sleppa snjallsímanum algjörlega. Ef þig langar ekki að eyða allri ferðinni á Instagram og Facebook, eyddu þá þessum forritum tímabundið. Síminn getur hins vegar verið lífsnauðsynlegur. Í staðinn fyrir samfélagsmiðla geturðu náð þér í forrit sem tengjast áfangastað þínum, eins og samgönguforrit eða matarforrit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert