Ferðalögin styrkja hjónaband Lilju og Guðbjargar

Hjón hafa gott af því að eiga sameiginlegt áhugamál og …
Hjón hafa gott af því að eiga sameiginlegt áhugamál og ferðalög eru sameiginlegt áhugamál Guðbjargar og Lilju. Þær eru alltaf að skipuleggja eitthvað og reyna alltaf að eiga einn flugmiða í rassvasanum. Ljósmynd/Aðsend

Áður en hárgreiðslumeistarinn Lilja Torfadóttir hitti sinn betri helming, Guðbjörgu Árnadóttur, hafði hún farið víða. Ferðagleðin tók þó fyrst völdin þegar þær fóru að vera saman enda ákváðu þær að ferðlögin yrðu þeirra sameiginlega áhugamál.

„Ferðalögin gefa okkur ánægju, gleði, víðsýni og ekki síst þakklæti. Við náum líka að styrkja hjónabandið með þolinmæðisæfingum, því við verðum stundum báðar smá stressaðar. Svo þetta er mjōg góð æfing. Við erum ólíkar en samt með sōmu sýn á hlutum sem skipta máli,“ segir Lilja þegar hún er spurð út í ástæðuna fyrir því að þær hjónur ferðast jafn mikið og þær gera.

Hrifnar af rólegri stöðum

Á þeim tæplega níu árum sem þær Lilja og Guðbjörg hafa verið saman hafa þær ferðast til Spánar, Þýskalands, Hollands, Danmerkur, Englands, Skotlands, Frakklands, Ítalíu, Sviss, Austurríkis og Ameríku. Fjórum sinnum hafa þær farið til Asíu. „Við höfum farið tvisvar til Taílands, einu sinni til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og einu sinni til Balí. Af þeim stöðum sem við höfum heimsótt í Asíu vorum við hrifnastar af Koi Samui í Taílandi og Gili air sem er rétt fyrir utan Bali. Báðar eyjarnar eiga það sameiginlegt að vera rólegar og sjarmerandi. Við erum frekar fyrir rólegri staði. Strendurnar eru guðdómlegar og sjórinn svo tær. Æðislegir staðir til að snorkla á.“
- Þið hafið ferðast til Asíu á regntímabilinu, hvernig hefur það komið út?
„Guðbjörg er kennari svo vinnulega séð hentar sá tími best. Regntímabilið er bara fínt og langt frá því að vera eins og á klakanum. Kannski aðeins meiri raki. Reyndar vorum við á ferð í byrjun regntímabilsins. Kosturinn við það er að verðið er lægra og færri túristar. Ég persónulega er ánægð með að það séu ský á himnum. Það rignir mest á nóttunni og stundum nokkrir dropar á daginn en mjōg sjaldan. Mér finnst byrjun júní góður tími til að heimsækja Taíland.“

Klassísk ferðamynd af Guðbjörgu og Lilju. Guðbjörg er alltaf svo …
Klassísk ferðamynd af Guðbjörgu og Lilju. Guðbjörg er alltaf svo spennt að skoða sem mest þannig að hún er alltaf minnst fjórum metrum á undan Lilju. Hér eru þær í Singapore. Ljósmynd/Aðsend

Gera verðsamanburð og nýta afslætti

Hjónurnar skipuleggja öll sín ferðalög sjálfar og segir Lilja að Guðbjörg sé snillingur hvað skipulagið varðar.
„Já, við græjum allt sjálfar, en hōfum alveg tekið klassíska Spánarferðir með allt innifalið. Við reynum alltaf að skipuleggja stóru ferðalōgin tímanlega. Við búum oft til beinagrind og reynum þá að finna hagstæðustu leiðina hverju sinni, gerum verðsamanburð o.s.frv. Við pöntum alltaf öll hótelin á sömu síðunni, þannig náum við að safna fríum nóttum og fá betri tilboð. En parturinn af ævintýrinu er að gera allt sjálfur,“ segir Lilja. Aðspurð um góð ráð til þeirra sem eru að skipuleggja ferð til Asíu segist Lilja alltaf taka sólarvörn með sér út því hún sé mjög dýr í Asíu. Eins segir hún að það sé minna mál en margur heldur að fara í 2—3 flug til Taílands. „Flug þangað ætti ekki að taka meira en 15—20 klukkutíma. Við höfum valið að kaupa beinan miða á ticket2travel.is.Varðandi Dubai þá fannst okkur fínt að stoppa í Sviss eina nótt. Sama má segja um Balí, við stoppuðum bæði í London og Singapore. Okkur finnst fínt að stoppa, sérstaklega á leiðinni heim og ná okkur eftir langt flug.“

Dags daglega starfar Lilja á Hárhorninu við Hlemm og Guðbjörg …
Dags daglega starfar Lilja á Hárhorninu við Hlemm og Guðbjörg kennir í Laugarnesskóla. Sameiginlegt áhugamál þeirra eru ferðalög. Hér eru þær á hinni taílensku James Bond-eyju. Ljósmynd/Aðsend


- Hefur allt gengið smurt á ykkar ferðalögum ykkar eða eigið þið óhappasögu í farteskinu?
„Við höfum sem betur fer sloppið vel. Nema látið stundum svíkja okkur um nokkra 1.000 kalla. Ég fæ oft mjōg slæm bit en er fljót að fara í næsta apótek og kaupa vörn og krem. Svo ef ég hef séð um eitthvað sem tengist ferðalaginu þá gleymi ég alltaf að bóka alls konar hluti. Svo ég held að eftir síðasta ferðalag sé konan mín búin að reka mig úr skipulagsdeildinni.“

Hjónurnar Guðbjörg og Lilja hafa ferðast mikið á þeim tæplega …
Hjónurnar Guðbjörg og Lilja hafa ferðast mikið á þeim tæplega níu árum sem þær hafa verið saman. Þótt þarfir og væntingar séu ólíkar reyna þær að fullnægja óskum beggja á ferðalögum. Þessi mynd er tekin í Dubai. Ljósmynd/Aðsend

 Alltaf með flugmiða í rassvasanum

Í ljós kemur að hjónurnar hafa mjög ólíkar þarfir og væntingar á ferðalögum. Á meðan Lilju finnst best að slaka á og slappa af vill Guðbjörg sjá og skoða sem mest. „Við reynum að sameina þetta tvennt. Ég segi oft þegar hún er smá stressuð að ná ekki að skoða allt: „Við komum bara aftur.“ Við gerum oft grín af því að ég sé alltaf 4 metrum á eftir henni því hún er svo spennt að skoða allt. Ég held hún sé einmitt búin að taka eina svoleiðis mynd î hverju ferðalagi. Ég er miklu rólegri og gúggla yfirleitt aldrei neitt á meðan hún er með allt á hreinu. Við reynum að vanda okkur og leyfa hvor annarri að njóta sín í því sem önnur hvor okkar hefur gaman af,“ segir Lilja og bætir við að þær skoði alltaf sögulega staði og þá sé gott að vera á ferð með kennara sem er með allt á hreinu og geti frætt hana um alls konar því tengt.

- Nú er alltaf verið að tala um að fólk eigi að ferðast minna og sumir eru með flugviskubit, hvernig takið þið á þessum málum?

„Er maður ekki eitt nagandi samviskubit alla daga? En maður reynir að gera sitt. Kannski erum við aðeins meðvitaðri núna með að reyna að fara á fleiri staði þegar komið er af klakanum. Árið sem við vorum sem mest á flakki þá bjuggum við í 40 fm og þurftum minna að nota bílinn.“

-Hvert liggur leið ykkar næst? Eruð þið byrjaðar að skipuleggja næsta ferðalag?

„Við erum alltaf að skipuleggja nýtt og spennandi ferðalag. Næst á dagskrá er Amsterdam, þaðan til Möltu og svo stopp í París á leiðinni heim. Við reynum alltaf að eiga einn flugmiða í rassvasanum.“

Færri ferðamenn heimsæki Asíu á regntímanum en þær stöllur segja …
Færri ferðamenn heimsæki Asíu á regntímanum en þær stöllur segja að sá tími sé ekki algalinn til ferðalaga, það er a.m.k þeirra reynsla. Hér eru þær á Koi Samui. Ljósmynd/Aðsend
Þegar ferðast er til Asíu er gott að taka sólarvörn …
Þegar ferðast er til Asíu er gott að taka sólarvörn með að heiman segir Lilja því góð sólkrem eru dýr. Hér eru þær stöllur í Taílandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is