Segir Pútín ferðast með eigið klósett

Julia Louis-Dreyfus sagði frá sérþörfum Vladímírs Pútíns í spjallþætti.
Julia Louis-Dreyfus sagði frá sérþörfum Vladímírs Pútíns í spjallþætti. Samsett mynd

Leikkonan Julia Louis-Dreyfus sagði spjallþáttastjórnandanum Stephen Colbert frá duttlungum Vla­dimírs Pútíns Rússlandsforseta í spjallþætti hans í vikunni. Louis-Dreyfus var nýlega í Vín og fékk einkatúr um listasafnið í borginni en svo vildi til að Pútín heimsótti safnið á undan leikkonunni og samferðafólki hennar. 

Grínleikkonan segir að mikið sé af guðdómlegum blómum í pottum á safninu. Það þurfti hins vegar að fjarlægja blómin af safninu fyrir Pútín. Segir Louis-Dreyfus að Pútín sé hvorki hrifinn af blómum né blómalykt. 

Louis-Dreyfus var ekki þar með hætt að segja frá sérþörfum Pútíns. 

„Þau sögðu okkur að Vladímír Pútín ferðast með sitt eigið klósett, að þau hafi þurft að koma því fyrir fyrir framan safnið, alveg fyrir framan. Þannig að ef hann þurfti að nota salernið var hann með sitt eigið,“ sagði leikkonan og hélt því einnig fram að Pútín tæki kamarinn sinn með sér í flug. 

mbl.is

Bloggað um fréttina