Fljótandi lúxushótel opnar í Svíþjóð

Arctic Bath er einstakt hótel.
Arctic Bath er einstakt hótel. Skjáskot/Instagram

Fljótandi lúxushótelið Arctic Bath opnaði í Svíþjóð í janúar. Hönnun hótelsins er einstök en það er staðsett í Harads sem er í um klukkustundar og kortérs akstursfjarlægð frá Luleå-flugvellinum. 

Hönnun hótelsins var kynnt árið 2018 og vakti mikla athygli. Peter Engström, framkvæmdarstjóri hótelsins, segir í viðtali við CNN Travel að það hafi ekki verið auðvelt að gera hönnunina að veruleika en að það hafi tekist á endanum. 

Heilsa er í fyrirrúmi á hótelinu og er matseðilinn með heilsusamlegu ívafi. Einnig er mikil áhersla lögð á köld böð í kynningarefni hótelsins. Meðal þeirrar afþreyingar sem boðið er upp á er jóga, hugleiðsla og núvitund. Bæði er boðið upp á herbergi á föstu landi og á ánni.

Engström segir að aðalaðdráttarafl hótelsins séu einmitt köld böð þótt tilhugsunin megi virðast framandi fyrir marga. 

„Um helmingur af gestum okkar segir að þeir myndu aldrei fara í kalt bað en alla vega 90 prósent enda svo á að prófa ísbað og oftar en ekki finnst þeim það mögnuð upplifun,“ segir Engström.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert