Ætlar að verða skemmtilega exótíska frænkan

Á Santa Teresa.
Á Santa Teresa. Ljósmynd/Aðsend

Í lok árs flutti stjórnmálafræðingurinn Guðbjörg Lára Másdóttir í annað skipti á ævinni til Kosta Ríka. Hún ber sterkar taugar til landsins en hún var skiptinemi í 1 ár þar þegar hún var 17 ára. 

Nú er hún snúin aftur til landsins sem hún segir að eigi stóran hluta af henni. Í þetta skiptið ætlar hún að staldra lengur við, alla vega til ársins 2021. Guðbjörg lauk stjórnmálafræði við Háskóla Íslands árið 2018 og við tóku störf hjá Reykjavíkurborg og verkefnastýrði hún verkefninu Hverfið mitt. 

Nú er hún komin með inngöngu í University for Peace, háskóla á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem er staðsettur í Kosta Ríka. Þar mun hún leggja stund á sjálfbæra matvælaþróun á braut sem snýr að umhverfi, þróun og friði.

Skólinn hefst ekki fyrr en í haust en Guðbjörg situr ekki auðum höndum þangað til. Hún býður upp á hina ýmsu þjónustu, meðal annar að lesa yfir ferilskrár, prófarkalestur og tekur einnig að sér að skipuleggja frí fyrir fólk. 

Hvað ertu að gera í Kosta Ríka núna?
Ég hef alltaf ætlað mér að prufa að búa í Kosta Ríka og verið með augun á háskóla sem heitir University for Peace og er á vegum Sameinuðu þjóðanna. Staðsettur í Kosta Ríka, mér til mjög mikillar ánægju. Fjölskyldan mín ákvað snemma árið 2019 að eyða jólum og áramótum hérna í Kosta Ríka og út frá því fékk ég þá flugu í hausinn að fyrst ég væri nú á leiðinni út væri tilvalið að nýta ferðina til hins ýtrasta og verða bara eftir og henda mér í mastersnám.

Guðbjörg ásamt skiptinemasystur sinni Alexa og fjölskylduhundurinn Nikolas.
Guðbjörg ásamt skiptinemasystur sinni Alexa og fjölskylduhundurinn Nikolas. Ljósmynd/Aðsend

Mér fannst allt vera að stillast upp á þann veg að þetta væri nákvæmlega það sem ég ætti að gera, ég var að vinna hjá Reykjavíkurborg sem sérfræðingur í lýðræðismálum og verkefnastýrði þar verkefni sem heitir „Hverfið mitt“ og var þar samningsbundin út 2019, þurfti því að velta fyrir mér hvort ég vildi sækjast eftir áframhaldandi stöðu hjá borginni eða fara út í nám. Þarna hafði myndast gatið umtalaða og allt að segja mér að þarna væri tækifærið komið til að flytja út, hversu oft myndast tími til þess að eiga hálft ár í algjöru fríi algjörlega ábyrgðarlaus? Alls, alls ekki oft leyfi ég mér að fullyrða. Þannig að úr varð að ég fór út með fjölskyldunni minni 17. desember 2019 og mun ekki koma heim til Íslands fyrr en 2021! Ég fór út með nákvæmlega ekki neitt plan. Ég var ekki komin með svar frá háskólanum varðandi inngöngu og vissi ekkert hvar ég myndi búa né hvað ég myndi gera. Ég hafði þó ekki miklar áhyggjur þar sem ég á góða fjölskyldu og vini og þekki mjög vel til hérna og ákvað að leyfa þessu öllu saman svolítið að ráðast.

Ég byrjaði ferðalagið með mínum nánustu hérna í Kosta Ríka og þykir óendanlega vænt um að hafa getað sýnt þeim Kosta Ríka og marga af mínum uppáhaldsstöðum. Ómetanlegar minningar. Síðan þá hef ég verið að ferðast með Kosta Ríka-vinum og fjölskyldu sem og verið að taka þátt í hversdagslífinu hérna þar sem ég er búin að búa heima hjá gömlu skiptinemafjölskyldunni minni síðustu vikur. Ég var ótrúlega heppin með skiptinemafjölskyldu og finnst oftast hálfkjánalegt að skeyta orðinu skiptinema- fyrir framan.

Blue canyon - tók tvo og hálfa klukkutíma að ganga …
Blue canyon - tók tvo og hálfa klukkutíma að ganga í gegnum frumskóg og drullu til að komast að þessum himinbláa fossi - A bajos del toro heitir svæðið sem þessi foss finnst á. Ljósmynd/Aðsend

Þetta er í annað skipti sem þú flytur til Kosta Ríka, hvað er öðruvísi núna? Hefur eitthvað breyst?
Það sem er öðruvísi núna er einna helst að ég er ekki lengur 17 ára. Ég er með sterkari og mótaðri skoðanir sem og mun ákveðnari heimssýn og það gerir það mun erfiðara að búa hérna en ég bjóst við. Menningarmunurinn er gríðarlegur. Margt sem ég á mjög erfitt með að „samþykkja“ en auðvitað líka margt sem ég sé að við Íslendingar gætum klárlega tekið okkur til fyrirmyndar eins og t.d. að taka hlutunum ekki svona alvarlega, flýta okkur svona gríðarlega mikið, brosa meira til ókunnugra, fara meira í frí og eyða meiri tíma, sem og bera meiri virðingu fyrir tímanum sem maður á, með fjölskyldunni og lifa meira eftir „Pura vida“-hugarfarinu en það er orðatiltæki sem einkennir Kosta Ríka eins og „Þetta reddast“ einkennir Ísland. Hérna hittast stjórfjölskyldurnar yfirleitt a.m.k. einu sinni í viku. Mín fjölskylda fer t.d. alltaf í hádegismat til ömmunnar á föstudögum. Mér finnst það mjög falleg hefð.

Coco Vivo, Panama - ecolodge - fyrsti áfangastaður fjölskyldunnar núna …
Coco Vivo, Panama - ecolodge - fyrsti áfangastaður fjölskyldunnar núna í desember. Ljósmynd/Aðsend


Landið sjálft er enn þá jafn ótrúlega fallegt og vinalegt en innviðirnir eru nákvæmlega eins hægir og lítið þróaðir og þegar ég var hérna fyrir 8 árum. Ágætis og einfalt dæmi um það er strætókerfið en ég tók mikið strætó hérna fyrir 8 árum og var mjög hissa á því að hér væru engar tímatöflur né upplýsingar um hvaða strætóar stoppa á stöðinni. Maður bara mætir og bíður og spyr svo bílstjórana hvert þeir séu að fara, lærir smátt og smátt á þetta en enn þann dag í dag árið 2020 er kerfið nákvæmlega eins. Ég bara mæti á stöðina og hangi þar þangað til minn strætó kemur. Maður lærir að kunna að meta alls konar hluti við það að flytja að sjálfsögðu og eitt af því sem ég bjóst nú seint við að ég myndi segjast elska eru íslenskir innviðir og stjórnsýsla. Jesús minn góður hvað við höfum það gott!
 

Var ekki erfitt að flytja svona langt í burtu frá vinum og fjölskyldu?

Jú, og það verður bara erfiðara og erfiðara. Ég fæ reglulega heimþrá auðvitað en ég er búin að læra að það er af því ég á svo gott fólk að heima. Þannig að ég er í rauninni bara heppin að fá heimþrá. Ég er ótrúlega glöð og þakklát fyrir alla tæknina sem gerir mér kleift að vera í sambandi við fjölskyldu og vini. Nú eru vinir mínir til dæmis farnir að eignast börn, ég á svakalega erfitt með að vera ekki að kaffæra þessa krakka í knúsum. Geri það bara eftir nokkur ár. Ætla að verða skemmtilega exótíska frænkan sem gefur öllum skrítinn mat og kennir krökkunum að dansa reggeaton.
En svo bý ég náttúrulega líka svo vel að ég á fjölskyldu og vini hérna líka. Það væri náttúrulega best ef við gætum öll búið á sama stað í eitthverri útópíu, en það er víst ekki hægt og algjör lukka að eiga svona margt gott fólk að. Þótt það sé hvort í sinni heimsálfunni.

Á toppi Isla Tortuga.
Á toppi Isla Tortuga. Ljósmynd/Aðsend
Santa Teresa.
Santa Teresa. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er bærinn sem þú býrð í núna?

Ég bý á höfuðborgarsvæðinu í bæ sem heitir Santa Ana og er í rauninni úthverfi í höfuðborginni San José. Hverfið mitt er mjög krúttlegt og öruggt. Ef ég ætti að bera það saman við höfuðborgarsvæðið heima myndi ég segja að ég byggi í Hafnarfirði.
Það er stór útimarkaður alla sunnudaga þar sem allur bærinn hittist, fær sér nýkreistan safa úr þeim ávexti sem þeim dettur í hug og verslar inn ávextina og grænmetið fyrir vikuna. Það er allt til alls í Santa Ana og stutt að skreppa á ströndina.  Hitastigið er yfirleitt á bilinu 26-30 gráður og hér er mjög gróðursælt. Það gróðursælt að hér bókstaflega hrynja mangóin úr trjánum og vinsæla plantan monstera vex eins og illgresi.

Með hverju mælir þú fyrir ferðamenn sem koma til landsins?

Ég mæli með því að koma hingað í a.m.k. 2 vikur, alveg í allra minnsta lagi. Landið er rosalega fjölbreytt og mikið að sjá. Gullfallegar strendur, ótrúlegt dýra- og plöntulíf, frumskógar- og fjallgöngur, eldfjöll og sjarmerandi lítil litrík þorp úti um allt og svo að sjálfsögðu verð ég að minnast á kaffiekrurnar, hér er allt úti í kaffi, draumur fyrir nautnasegginn mig. Mæli hiklaust með því að heimsækja kaffiekrurnar og drekka kaffið eins og Kosta Ríka-búinn hellir upp á það.
Landið er lítið (helmingi minna en Ísland) þannig að auðvelt er að skoða stóran hluta af landinu án þes að það taki ár og aldir. Pakka létt, hitastigið er fullkomið þannig að ekki er þörf á miklum fatnaði. Svo er líka gott að hafa smá pláss í töskunni fyrir minjagripi en hér er mjög mikið af fallegri og vandaðri list.

Sólsetur á playa Flamingo - Guanacaste-svæðinu.
Sólsetur á playa Flamingo - Guanacaste-svæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Ég hef heimsótt alveg ótrúlega stóran hluta af landinu og á erfitt með að gera upp á milli en ég á nú auðvitað mína uppáhaldsstaði. Númer eitt hjá mér er strandbær sem heitir Santa Teresa. Það er eins og loftið sé einfaldlega betra þar, sólin bjartari og sjórinn blárri. Það er erfitt að útskýra af hverju en í hvert einasta skipti sem ég kem þangað verð ég bara ástfangnari og ástfangnari af svæðinu. Á því svæði er mjög margt að skoða t.d. er þar fyrsti þjóðgarður Kosta Ríka sem heitir Cabo Blanco, annar strandbær sem heitir Montezuma og þar í kring er mikið úrval af göngum inn í frumskógum þar sem hægt er að stinga sér í fossa (ef maður leggur í það) leita að letidýrum, öpum, risafiðrildum, gullfallegum blómum og þar fram eftir götunum. Einnig er mikið af siglingum í boði þar í kring til að heimsækja eyjarnar, uppáhaldseyjan mín að heimsækja á þessu svæði heitir Isla Tortuga. Hvort sem maður er í leit að lúxusstrandfríi, ró, einfaldari lífsstíl, ævintýrum, yoga, surf eða hreinlega langar bara í sól þá finnur þú það hér.
Svo eru það fjöllin og frumskógarnir og algerlega ósnert náttúra. Það er mjög mikið í boði af sjálfbærum gististöðum svokölluðum „eco-lodge“ það er ótrúlega skemmtileg upplifun og myndi ég þar helst mæla með Suður-Kosta Ríka, Kyrrahafsmegin, svæði sem kallast „La península de Osa“. Að lokum er það Norður-Kosta Ríka — Guanacaste, þar er allt krökkt af gullfallegum ströndum, mín uppáhalds þar er San Juanillo svo hef ég heyrt ótrúlega vel talað um strönd sem heitir Nosara. Stefni þangað í apríl. Listinn er alls ekki tæmandi og það er mjög erfitt að verða fyrir vonbrigðum.

Fjölskyldan í skoðunarferð í miðbæ San José, desember 2019.
Fjölskyldan í skoðunarferð í miðbæ San José, desember 2019. Ljósmynd/Aðsend

 Er eitthvað sem ferðamenn ættu að varast á þessu svæði?

Landið er ekki hættulegt, en þá á ég við að það er ekki hættulegt miðað við önnur lönd hér í Mið- og Suður-Ameríku. Maður þarf aðeins að passa sig á verðinu, best að prútta aðeins, a.m.k. reyna — túristar fá eiginlega alltaf hærra verð. Einnig er það þannig að því miður þá er alls ekki það sama að ferðast hér um sem kona og sem karlmaður og sem kona er mjög mikilvægt að skipuleggja gististaði vel. Almenna reglan er nú samt sem áður bara sú að passa sig, ef þú færð ónotatilfinningu í magann gjörðu svo vel og hlustaðu á hana. Ekki vera mikið á ferðinni ein/n eftir myrkur. Svo það sé nú tekið fram þá hef ég aldrei lent í hættu hérna, verið rænd eða neitt svoleiðis. Ímyndin sem Mið- og Suður-Ameríka hafa á sér er allt önnur en raunveruleikinn. Kosta Ríka og löndin hér allt í kring eru að vinna mjög hart að því að hrista af sér „Narcos“-ímyndina.

Manuel Antonio, þjóðgarður - allt úti í ,,Herra Níels” öpum, …
Manuel Antonio, þjóðgarður - allt úti í ,,Herra Níels” öpum, letidýrum, páfagaukum og ströndum. Ljósmynd/Aðsend

 Hvað er fram undan hjá þér þangað til þú byrjar í skólanum í haust?

Næst á dagskrá hjá mér er ferðalag til Panama og mögulega fleiri landa. Ætla að leyfa því að ráðast með tímanum hvert það ævintýri leiðir mig. Þegar því ævintýri lýkur mun ég vera í 10 vikur í sjálfbæru samfélagi í frumskógi Kosta Ríka en meistaranámið sem ég byrja í í ágúst er á braut sem nefnist umhverfi, þróun og friður og mun ég koma til með að sérhæfa mig í sjálfbærri matvælaframleiðslu og fannst því svona líka tilvalið að upplifa lífsstílinn til hins ýtrasta áður en ég hæfi námið bóklega. Fá almennilega tilfinningu fyrir því hvað það þýðir að lifa með sjálfbærum hætti. Mér finnst það mjög mikilvægt, ekki get ég leyst mörg vandamál með því að lesa og skrifa ritgerðir.

Tveggja tíma ganga í fyrsta þjóðgarði Kosta Ríka Cabo Blanco …
Tveggja tíma ganga í fyrsta þjóðgarði Kosta Ríka Cabo Blanco leiðir mann að þessari gullfallegu strönd. Ljósmynd/Aðsend
Í fossaferð að Montezuma falls rákumst við á þessa stórkostlegu …
Í fossaferð að Montezuma falls rákumst við á þessa stórkostlegu eðlu. Þær eru mjög algengar og alveg meinlausar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is