Hvergi betra að vera en á Íslandi um sumar

Tinna á Holi-hátíðinni í Indlandi.
Tinna á Holi-hátíðinni í Indlandi. Ljósmynd/Aðsend

Tinna Eyberg Örlygsdóttir er mannfræðingur að mennt og hefur verið á ferðalagi um heiminn frá því hún var í menntaskóla. Síðustu ár hefur hún starfað sem flugfreyja hjá Icelandair sem er hentugt fyrir manneskju sem elskar að ferðast. Hún hefur komið til yfir 50 landa í heiminum og ýmislegt hefur drifið á daga hennar. 

„Ég er forvitin að eðlisfari og hef gaman af ólíkum menningarheimum en ég brosi breiðast þegar ég sé, heyri, borða og upplifi eitthvað nýtt. Ég stunda mikla fjallgöngu og jóga sem er sem betur fer í boði hvar sem er í heiminum,“ segir Tinna í viðtali við ferðavef mbl.is. Tinna var stödd á Indlandi þegar blaðamaður náði í hana og bað hana að segja sér frá ferðalögum sínum.

Á Petra svæðinu í Jórdaníu.
Á Petra svæðinu í Jórdaníu. Ljósmynd/Aðsend

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?

„Ég verð að segja ferð mín til Nepals í fyrra. Ég hafði engar væntingar en hafði skráð mig í jóganám þar. Ég varð síðan mun lengur í Nepal þar sem ég gjörsamlega féll fyrir landi og þjóð. Óreiðan í Katmandú, fallega náttúran og margbrotna menningin örva öll skilningarvit þannig að maður er alltaf í núinu. Það er einhver orka í Nepal sem lætur mann finna hugarró og verða tímalaus, jafnvel í óreiðunni.“

Við mótmæli í Palestínu.
Við mótmæli í Palestínu. Ljósmynd/Aðsend

Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?

„Reykjavík. Mér hefur alla tíð þótt borgin vera sérkennileg og sjarmerandi en undanfarin ár hefur hún blómstrað verulega og þakka ég auknum fólksflutningum til landsins sem og ferðamönnum fyrir það — borgin hefur sjaldan verið jafn litrík og lifandi.“

En fyrir utan Evrópu?

„Beirút í Líbanon. Borgin iðar af mannlífi og þar mætast straumar austurs og vesturs. Menningin er lifandi og margbreytileg  það er alltaf hægt að finna eitthvað að gera en Beirút hefur mjög sterka listræna hlið og það heyrist tónlist úr öllum áttum og hægt að finna listsýningar á hverju horni. Margar byggingar eru í niðurníðslu, meðal annars eftir borgarastríðið, en eins hefur verið mikil uppbygging á síðustu árum og heimamenn hafa fundið leiðir til að nýta gömul hús fyrir nýmóðins kaffihús, veitingastaði og listsýningar. Það er allt til alls í Beirút og allt í boði. Svo verð ég auðvitað líka að nefna matinn en ég smakkaði nýja rétti í öll mál og varð alltaf jafn heilluð.“

Með Friðarsamtökum kvenna í Palestínu.
Með Friðarsamtökum kvenna í Palestínu. Ljósmynd/Aðsend

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi? 

„Hornstrandir. Ég fór þangað síðasta sumar og dvaldi í nokkra daga með góðum gönguhóp. Náttúran og kyrrðin er engu lík. Mér leið eins og ég hafði tekið skref í burtu frá umheiminum.“

Besti maturinn sem þú hefur fengið á ferðalagi? 

„Maqluba-rétturinn sem ég smakkaði í Palestínu. Það er algengt að matreiða hann með lambakjöti eða kjúklingi en eins hægt að nota blómkál og eggaldin. Eins hrísgrjón, kartöflur, tómata og papriku, sem og hvaða grænmeti sem maður vill hafa með. Þetta er allt eldað saman í potti, kælt og síðan snýr maður pottinum yfir diskinn svo rétturinn verður kökulaga og fallegur.“

Í brúðkaupi í Nepal.
Í brúðkaupi í Nepal. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi?

„Það hafa komið upp ýmis tilfelli en ég fer oft óhefðbundnar leiðir og treysti mikið en er þó ekki að leika mér að hættunni. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er þegar ég var stödd í fátækrahverfinu Mathare í Naíróbí, en þá öskraði heimamaður á mig og mína og beindi skammbyssu að okkur. Hann var að tyggja miraa sem gefur manni ákveðna vímu og var óánægður með veru okkar þarna.“

Hvaða ferðalög eru á dagskrá hjá þér? 

„Ég er nú stödd á Indlandi þar sem ég hef verið í jóganámi undanfarið og hafði ætlað mér að ferðast meira um landið og fara svo yfir til Nepal. En nú hefur landamærunum við Nepal verið lokað og eins verður þeim lokað hér bráðlega. Sjáum hvað setur. Annars verð ég á Íslandi í sumar, enda hvergi betra að vera á þeim tíma.“

View this post on Instagram

happy hippo. 🐙 #australia #backpacking #palebum

A post shared by Tinna Eyberg (@tinna_eyberg) on Apr 10, 2019 at 3:04am PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert