Ætlaði að vera í fyrsta skipti erlendis

Karitas Harpa Davíðsdóttir
Karitas Harpa Davíðsdóttir ljósmynd/Birta Rán Björgvinsdóttir

Páskarnir í ár verða töluvert öðruvísi en söngkonan Karitas Harpa Davíðsdóttir lagði upp með. Hún gerir ráð fyrir að vera heima um páskana og borða súkkulaði. 

„Páskaplönin breyttust hjá mér eins og mörgum öðrum í ár, ég býst við því að hlutir verði bara mjög svipaðir því sem hefur verið í gangi síðustu vikur nema hugsanlega verður meira súkkulaði í umferð á heimilinu,“ segir Karitas Harpa um páskana í ár. 

Hefur þú nýtt páskana til þess að ferðast erlendis? 

„Ég hef nefnilega ekki gert það hingað til en ætlaði að gera það í fyrsta sinn í ár, við mæðgurnar ætluðum að fara til Danmerkur að heimsækja bróður minn sem er í námi þar en skjótt skipast veður í lofti og hann endaði á því að koma heim, eins og margir Íslendingar, og við frestum ferðinni um ókomna tíð.“

En innanlands? 

„Það var kannski farið í bústað eða sunnudagsrúnta þegar ég var barn og sem unglingur fór ég ekki lengra út á land en kannski í Njálsbúð á páskaball en í seinni tíð hefur þetta yfirleitt verið frekar afslappaður tími með fjölskyldunni.“

Hvernig verða þessir páskar öðruvísi vanalega?

„Eldri strákurinn minn verður hjá pabba sínum, eins og ég sagði var planið að fara til Kaupmannahafnar og kærasti minn og yngri strákur ætluðu austur á land. Það eina sem stenst í þessum plönum er að Ómar fer til pabba síns, við hin verðum bara heima að púsla og horfa á Netflix geri ég ráð fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert