Vera Illuga þráir að koma aftur til Hong Kong

Vera Illugadóttir ásamt bróður sínum, Ísleifi Eldi í Róm á …
Vera Illugadóttir ásamt bróður sínum, Ísleifi Eldi í Róm á Ítalíu. Ljósmynd/Aðsend

Flestir ættu að kannast við útvarpsstjörnuna Veru Illugadóttir en hún heldur úti einum vinsælustu útvarpsþáttum landsins, Í ljósi sögunnar, á Rás 1. Í þáttunum ferðast Vera með hlustendur sína til fjarlægra staða, allt frá Skandinavíu til Bandaríkjanna og þaðan til Mið-Austurlanda.

Vera hefur líka ferðast um hinn raunverulega heim en hún hefur meðal annars komið til Marokkó, Líbíu, Egyptalands, Sýrlands, Jórdaníu, Ísraels, Palestínu, Jemens og Kína auk fleiri landa. Hún vildi að hún gæti mælt með ferðalögum til Sýrlands og Jemens, en vegna aðstæðna þar er ekki óhætt að ferðast þangað. 

Þegar Vera var yngri ferðaðist hún mikið með ömmu sinni, Jóhönnu Kristjónsdóttir, og fór meðal annars til Líbíu í nóvember 2008.

Hvernig ferðalögum ert þú hrifin af?

Upp á síðkastið hef ég mikið farið til borga í austanverðri Evrópu. Staðir með mikla sögu eru áhugaverðir. Fer líka af og til með móður minni að sjá leiksýningar erlendis þótt yfirleitt séu sýningarnar sjálfar nú sjaldnast hápunktur þeirra ferða. Svo eru Mið-Austurlönd í uppáhaldi hjá mér, en minna ferðast þar á síðustu árum.

Vera hefur aldrei komið til Parísar, en hún fann hinsvegar …
Vera hefur aldrei komið til Parísar, en hún fann hinsvegar Eiffel-turninn í Makaó í Kína. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér einhverja uppáhaldsborg?

Ég er mjög hrifin af Stokkhólmi þar sem ég bjó í þrjú ár. En af borgum sem ég hef bara heimsótt er ég hrifin af Vilníus í Litháen, og þrái að koma aftur til Hong Kong. Damaskus í Sýrlandi var líka mjög heillandi en hefur eflaust breyst eitthvað síðan ég var þar síðast.

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið sem þú hefur farið í?

Fór með ferðaskrifstofu ömmu minnar Jóhönnu Kristjónsdóttur með hópi Íslendinga til Líbíu í nóvember 2008. Hluti af þeirri ferð var ferðalag lengst út í Sahara-eyðimörkina á Land Cruiserum, gist í kúlutjöldum milli sandaldanna og úlfaldakjöt í kvöldmatinn. Eyðimörkin er ótrúlega áhrifamikil og stjörnuhiminninn á nóttunni ólýsanlegur. Við vorum svo ekki í neinum tengslum við umheiminn þarna  fréttum til að mynda ekki hver hefði unnið forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fyrr en mörgum dögum síðar, þegar leiðsögumönnunum tókst að hafa uppi á gömlum manni þarna í auðninni sem átti langbylgjuútvarp.

Áttu þér einhvern eftirlætismat sem þú hefur fengið á ferðalögum?

Úr annarri ferð með ömmu: grillaður kjúklingur á frekar óhrjálegri bensínstöð í Jemen. Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, samstarfskona mín og matgæðingur, var líka í þessari ferð og hefur líka talað um þennan sama kjúkling. Það eru alvörumeðmæli.

Hvaða stað mælir þú með að fólk heimsæki?

Vildi að ég gæti mælt með Sýrlandi og Jemen, vonandi verða ferðalöng þangað möguleg sem fyrst. Annars bara Litháen.

Hvað ætlarðu að gera um páskana?

Vera heima, auðvitað. Ég get þó lítið ferðast innanhúss því ég bý í stúdíóíbúð.

Hvert langar þig að ferðast þegar heimsfaraldurinn er yfirstaðinn?

Langar í hjólaferð, bara eitthvað. Svo langar mig til Georgíu, Albaníu og til Beirút, og svo langar mig líka bara upp í Efstaleiti í vinnuna.

Á Gotlandi.
Á Gotlandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert