„Borg sem hrærir upp tilfinningunum“

Þórhallur við Taj Mahal Indlandi.
Þórhallur við Taj Mahal Indlandi. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhalds borgir Þórhalls Heimissonar eru Róm á Ítalíu og Jerúsalem í Ísrael. Hann hefur komið til Rómar yfir 30 sinnum, bæði sem ferðamaður og sem leiðsögumaður. Hann segist þó halda upp á Jerúsalem hvað mest þar sem borgin sameinar áhuga hans á sögu, trúarbrögðum, margbrotinni menningu og fegurð.

Til hvaða landa hefur þú komið?

„Ég hef ferðast mikið einn og sem leiðsögumaður og komið til flestra landa í Evrópu  og kringum Miðjarðarhafið og oftar en ég get talið til ýmissa svæða Ítalíu, Spánar og Grikklands, bæði meginlands og eyja. Mest er gaman að koma útfyrir hefðbundin túristasvæði eins og suðurfyrir Napolí á Ítalíu, til eyja í Eyjahafi eins og Naxos, Samos og Karpatos og upp á háledni Tyrklands. Ég hef einnig ferðast til til Miðausturlanda, Ísraels, Egyptalands og Jórdaníu, Persaflóaríkjanna, Indlands, Nepal og Bútan og Suð-Austur Asíu, Suður-Kóreu, Laos og Tælands. Ekki má heldur gleyma Grænlandi og Bandaríkjunum. Þetta eru eitthvað kringum 50 ríki sem ég hef heimsótt.“ 

Hvernig ferðalögum ert þú hrifinn af?

„Ég er opinn fyrir öllu og hef alltaf gaman af að prófa eitthvað nýtt. Og fer þá eftir með hverjum ég ferðast. Sólarlandaferðum með fjölskyldunni, ferðum er tengjast sögu og menningu þeirra þjóða sem ég heimsæki, siglingum og gönguferðum með skemmtilegu fólki. Ætli ævintýraferðir standi nú samt ekki upp úr, á nýjar og framandi slóðir.“ 

Mekong fljót í Laos.
Mekong fljót í Laos. Ljósmynd/Aðsend
Skírnarstaður Jesú við ánna Jórdan í Ísrael.
Skírnarstaður Jesú við ánna Jórdan í Ísrael. Ljósmynd/Aðsend

Átt þú þér einhverja uppáhalds borg?

„Það má segja að þær séu tvær. Annarsvegar Róm sem ég hef heimsótt oftar en þrjátíu sinnum einn, með fjölskyldunni og sem leiðsögumaður. Og hinsvegar Jerúsalem sem ég held meira upp á en nokkra aðra borg. Hún sameinar áhuga minn á sögu, trúarbrögðum, margbrotinni menningu og fegurð. Borg sem hrærir upp í tilfinningunum.“ 

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið sem þú hefur farið í?

„Þau eru nú mörg og erfitt að velja. Efst í huga mér núna er ferð sem ég fór í febrúar síðastliðnum með eiginkonu minni, syni og dóttur til Laos að heimsækja aðra dóttur okkar sem hefur starfað þar sem enskukennari. Hún þurfti reyndar að flýja nú í kjölfar Covid 19 og komst heim með síðustu vél fyrir tilstilli Þjóðverja. Það var einstak að kynnast landi og þjóð undir hennar leiðsögn, sigla niður mekong, skoða forn búddamusteri og fjölbreytt dýra og mannlíf. Aðra eftirminnilega ferð fór ég 2016 til Bútan með hóp Íslendinga , fyrsti og eini íslenski leiðsögumaðurinn sem þangað hefur komið með hóp. Það var mikil ævintýraferð, erfið en spennandi og ógleymanleg. Við ókum upp í 4000 metra hæð, yfir hrikalega fjallgarða, klifum einstigi upp í Tigers Nest og skoðuðuð Snowmans Trail, hæstu gönguslóð heims. Og svo má ekki gleyma ferð sem ég fór sem leiðsögumaður til Ísraels 2018 með 190 íslenska Frímúrara og eiginkonur þeirra. Alveg stórkostleg upplifun. Hámarkið náði ferðin með fundi frímúrara í námum Salómons undir musterishæðini þar sem Gullna moskan stendur í dag. En þetta er nú bara smá dæmi um ævintýraferðir.“

Péturstorg í Róm. Róm er ein af eftirlætis borgum Þórhalls.
Péturstorg í Róm. Róm er ein af eftirlætis borgum Þórhalls. Ljósmynd/Aðsend
Munkar í Laos.
Munkar í Laos. Ljósmynd/AðsendÁttu þér einhvern eftirlætis mat sem þú hefur fengið á ferðalögum?

„Ekkert slær við Ítalska matnum eins og hann leggur sig. En það var sérstaklega spennandi nú í vor í Laos að borða núðlusúpu að hætti heimamanna á útiveitingahúsi. Maður fékk öll hráefnin í súpuna, glóandi kol og sjóðandi vatn og sauð svo allt sjálfur. Þjónninn kom svo afog til með meira vatn, krydd og mat. Þarna voru stórfjölskyldurnar úti að borða og öllu ægði saman, alveg einstök upplifun.“

Hvaða stað mælir þú með að fólk heimsæki?

„Enginn ætti að missa af Róm eða Jerúsalem. En svo má ekki gleyma öllum fallegu stöðunum sem finna má utan alfaraleiða. Eins og Amalfíströndin og Kaprí á Ítalíu. Svartfjallaland er líka ævintýrasvæði sem fáir hafa sótt heim. Allar yndislegu litlu grísku eyjarnar svíkja engan. Og Suð-Austur-Asía er ævintýraleg, allt frá Indlandi til Japan. Og kemur manni sífellt á óvart. Sá sem hefur heimsótt Bútan verður þannig aldrei samar, vil ég alla vega meina.“

Þórhallur við Tigers Nest í Bútan.
Þórhallur við Tigers Nest í Bútan. Ljósmynd/Aðsend

Hvert langar þig að ferðast þegar heimsfaraldurinn er yfirstaðinn?

„Ég er búinn að lofa syni mínum lestarferð til Parísar. Ætli ég reyni ekki að halda það loforð þegar landamærin opnast á ný. Við ætlum að aka frá Stokkhólmi, gegnum Danmörku, Þýskaland, Holland og Belgíu og til Frakklands. Og upplifa þannig öðruvísi ferð í gegnum Evrópu, stoppum á leiðinni og skoðum það sem við höfum áhuga á. 

 - En fyrir utan það mun ég nota fyrsta tækifæri eftir að aftur verður hægt að ferðast til að skjótast  til Íslands. Sem er fallegasta land í heimi.“

Hof Nefertari við Abu Simbel í Egyptalandi.
Hof Nefertari við Abu Simbel í Egyptalandi. Ljósmynd/Aðsend
Spænsku tröppurnar í Róm.
Spænsku tröppurnar í Róm.
mbl.is