Fylgdarfólk á ströndum í Portúgal

Strandgestir í Portúgal virða fjarlægðarmörk.
Strandgestir í Portúgal virða fjarlægðarmörk. AFP

Portúgalar búa sig nú undir að ferðamenn flykkist á strendur landsins. Yfirvöld hafa kynnt aðferð sem á að passa upp á að sólþyrstir ferðamenn haldi góðri fjarlægð á ströndinni að því er fram kemur á vef The Sun. Notast á við svipaða aðferð og þekkist á veitingastöðum þar sem gestum er vísað á borð. 

Áætlað er að opna strendur í Algarve í Portúgal 6. júní. Á flestum ströndum verða tveir starfsmenn sem fylgja gestum á stað þar sem óhætt er fyrir gestina að koma handklæði fyrir. Einnig á starfsfólkið að upplýsa gesti um reglur um fjarlægðarmörk og benda á hvernig best er að haga tíma sínum á ströndinni. 

Aðferðin sem Portúgalar hafa í huga að beita þekkist vel á fínni veitingastöðum. Það má því áætla að aðferðin geti reynst vel á sólarströndum en stóra spurningin er hvenær ferðamenn þora að láta sjá sig. 

Á strönd í Portúgal.
Á strönd í Portúgal. AFP
mbl.is