Matgæðingar falla í stafi

Azeb og Árni hafa hitt í mark með veitingastaðnum enda …
Azeb og Árni hafa hitt í mark með veitingastaðnum enda metnaður lagður í matseldina. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Hún Azeb á Flúðum sér um alla matseldina á Minilik til að tryggja að gæðin séu alltaf þau sömu. Stundum gefst tími til að útbúa kaffi með ævafornri aðferð. 

„Það er ekki laust við að sumir erlendir ferðamenn, á leið sinni um landið, reki upp stór augu þegar þeir finna eþíópískan veitingastað á Flúðum. Þrátt fyrir vaxandi vinsældir eru eþíópískir veitingastaðir ekki á hverju strái og er þá helst að finna í alþjóðlegum stórborgum. „Sumt fólk leggur sig sérstaklega fram við það að finna eþíópíska staði á ferðalögum sínum um heiminn enda matarhefð sem er í uppáhaldi hjá mörgum,“ segir Árni Magnús Hannesson, sem rekur veitingastaðinn Minilik með konu sinni Azeb Kahssay, en þau stofnuðu staðinn árið 2011 ásamt systur Azeb og mági.

Azeb annast alla matseldina til að tryggja fullkomið samræmi í …
Azeb annast alla matseldina til að tryggja fullkomið samræmi í gæðum árið um kring. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Aðsóknin hefur aukist jafnt og þétt og var miklu minni umferð um svæðið þegar Minilik var opnaður. „Þetta var áður en sprenging varð í komu ferðamanna á svæðið og langaði mig fyrst og fremst að kynna eþíópískan mat fyrir Íslendingum,“ útskýrir Azeb, en nafn veitingastaðarins er fengið að láni frá keisaranum Menelik II, sem var þjóðhöfðingi Eþíópíu í kringum aldamótin 1900 og nútímavæddi landið á marga vegu.

Framandi krydd

Eþíópísk matargerðarlist er fjölbreytt en einkennist m.a. af grænmetisréttum og bragðmiklum kjötréttum. Hefðbundið er að gestir deili stórum diski með nokkrum réttum, og grípi sér klípu af matnum með fingrunum og noti til þess bita af fíngerðu súrdeigsbrauði. „Við eldum m.a. úr nauta-, kjúklinga- og lambakjöti, en erum líka með bauna- og grænmetisrétti fyrir grænkerana. Þá er flest á matseðlinum glútenfrítt,“ segir Azeb.

Kaffibaunirnar eru ristaðar á staðnum.
Kaffibaunirnar eru ristaðar á staðnum. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Umgjörðin á veitingastaðnum er lágstemmd og jarðbundin, aðeins 6-7 borð innandyra og eþíópískir skrautmunir á veggjum og úti í gluggum. Húsið var á sínum tíma notað sem þjónustumiðstöð fyrir tjaldstæðið á Flúðum en hentar prýðilega undir veitingastaðinn. Þar sem Azeb sér um alla matseld er afgreiðslutími takmarkaður og hefðbundinn tími frá 18 til 21 en oft opnað kl. 14 um helgar, og eins opnað kl. 14 á virkum dögum á háannatíma yfir sumarið. Vissara er að panta borð fyrir fram og veitingastaðurinn er lokaður á mánudögum. „Azeb hefur staðið vaktina í heil níu ár og ef hún tekur sér frí eða forfallast af einhverjum öðrum sökum er einfaldlega lokað á meðan,“ segir Árni.

Azeb við matseldina.
Azeb við matseldina. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Kaffi sem er engu líkt

Ef tími gefst til geta gestir fengið að upplifa ekta eþíópíska kaffiathöfn en eins og lesendur vita er Eþíópía mikið kaffiland og sagnfræðingar almennt á þeirri skoðun að þar hafi menn fyrst tekið upp á því að búa til drykkinn sem allir þekkja. „Við erum með sérstaka aðstöðu fyrir kaffiathöfnina þar sem gestir sitja á kollum og fylgjast með, en þá bara ef ekki er of mikið annríki á veitingastaðnum,“ útskýrir Árni en athöfnin fer þannig fram að grænar kaffibaunir eru ristaðar á pönnu, þær síðan muldar í mortéli og kaffið loks útbúið í sérstakri leirkönnu. Þegar kaffið er tilbúið er það skammtað í litla bolla, og þykir mörgum kaffiunnendum leitun að annarri eins kaffiupplifun. „Aðeins Azeb fær að útbúa kaffið enda er svo sterk hefð fyrir því í Eþíópíu að konur útbúi drykkinn að karlar mega helst ekki svo mikið sem setjast á stólinn sem notaður er af þeim sem stýrir athöfninni.“

Gestir fá stóran disk með mörgum réttum.
Gestir fá stóran disk með mörgum réttum. Ljósmynd/Guðmundur Karl
Minilik er til húsa í byggingu sem áður var þjónustuskáli …
Minilik er til húsa í byggingu sem áður var þjónustuskáli tjaldsvæðisins á Flúðum. Ljósmynd/Guðmundur Karl
Hefðbundnir eþíópískir kaffibollar.
Hefðbundnir eþíópískir kaffibollar. Ljósmynd/Guðmundur Karl
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »