Þér leiðist ekki eina mínútu í Reykjavík

Steinþór Einarsson.
Steinþór Einarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flest bendir til að kórónuveirufaraldurinn hafi hjálpað til að minna Íslendinga á hvað þeir búa í áhugaverðu landi. Enda sést það vel á færslum vina og ættingja á samfélagsmiðlum um þessar mundir að þeir ætla aldeilis að nota sumarið til að ferðast vítt og breitt um Ísland, uppgötva alls konar náttúruperlur, borða á framúrskarandi veitingastöðum í öllum fjórðungum, og mýkja vöðvana í heitum laugum hringinn í kringum landið.

En það þarf ekki að halda út fyrir borgarmörkin til að lenda í ævintýrum og njóta þess að vera til. „Við sáum það t.d. í faraldrinum, þegar fátt annað var hægt að gera sér til dundurs annað en að fara út og ganga, að margir uppgötvuðu sér til ánægju skemmtilegar gönguleiðir og faldar perlur í hverfum Reykjavíkur hér og þar,“ segir Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur.

Allt stefnir í afskaplega gott sumar í Reykjavík og ættu bæði heimamenn og gestir úr nærsveitarfélögum og öðrum landshlutum aldeilis að geta fundið sér margt til að sjá og gera í höfuðborginni. Á komandi vikum og mánuðum mun hver hátíðin reka aðra, söfnin hafa opnað á ný og finna má alls kyns tækifæri til útiveru og íþróttaiðkunar. Steinþór minnir sérstaklega á sundlaugar Reykjavíkur sem nú eru orðnar sjö talsins. „Þar er opið til kl. 22 alla daga vikunnar og held ég að meira að segja Norðmenn hafi ekki efni á að hafa sundlaugarnar sínar opnar svona langt fram á kvöld,“ segir hann glettinn.

Ómissandi sælureitur

Sundlaugarnar í Reykjavík eru í stöðugri þróun og búa þær t.d. nær allar að spennandi leiktækjum og rennibrautum fyrir börnin. Hver sundlaug hefur sín sérkenni þar sem unnið er með þá styrkleika sem sundlaugarstæðið hefur upp á að bjóða. „Þannig hefur t.d. plássið í kringum sundlaugarnar í Laugardal og Árbæ verið nýtt til að koma upp strandblakvöllum af bestu gerð og eru tveir vellir á hvorum stað. Er aðstaðan svo góð að í Laugardal var strandblakvöllurinn notaður sem keppnisvöllur á Smáþjóðaleikunum,“ segir Steinþór og bætir við að Laugardalslaug bjóði líka upp á hreystibraut og heitan pott með upphituðum sjó. „Það á við um sundlaugarnar að þar finna allir eitthvað við sitt hæfi. Sumir nota laugarnar sem sína líkamsrækt og synda af kappi, en svo eru aðrir sem vilja fyrst og fremst slaka á og vinda ofan af sér eftir amstur dagsins í þægilegum heitum potti eða gufubaði. Þá sáum við það greinilega í kórónuveirufaraldrinum hvað þessi þjónusta skiptir borgarbúa miklu, og mynda sundlaugarnar ákveðinn miðpunkt í samfélaginu rétt eins og kaffihúsin í París og barirnir í London. Bárust okkur endalausar fyrirspurnir um hvenær sundlaugarnar myndu opna á ný að loknum faraldri, og hvort ekki væri hægt að gera ráðstafanir svo tilteknir hópar gætu komist í laugarnar til að hreyfa sig og rækta félagslegu tengslin.“

Það ætti síðan að telja ylströndina í Nauthólsvík upp með sundlaugunum en þar er aðsóknin góð allt árið um kring og ströndin sérstaklega vel nýtt þegar hlýtt er í veðri. „Í ylströndinni hitum við upp lítinn hluta af Atlantshafinu en síðan er hægt að stunda sjósund í Nauthólsvík og syndir fólk þar alla mánuði ársins. Einnig er þar heitur pottur, eimbað og leiktæki á ströndinni og svæðið sannkölluð paradís,“ segir Steinþór en ylströndin er opin frá 10 til 19 alla daga. „Á sömu slóðum er Siglingaklúbburinn með aðstöðu og frá miðjum maí fram í lok ágúst hægt að leigja hjá þeim báta til að róa og sigla um Nauthólsvíkina.“

Öfundsverð af golfvöllunum

Talandi um holla og skemmtilega hreyfingu standa íþróttafélögin í Reykjavík fyrir fjölda námskeiða og íþróttaviðburða í sumar. Sjálfur er Steinþór duglegur að nýta aðstöðu golfklúbbanna og segir hann að margir öfundi Reykvíkinga af því hve stutt er í góða golfvelli og auðvelt að komast þar að. „Eitt sinn fékk ég það verkefni að vera gestgjafi japansks viðskiptamanns sem þurfti að sækja alls kyns fundi í borginni. Spurður hvað hann vildi gera að fundum loknum vildi Japaninn endilega komast í golf, svo ég leigði golfsett og fórum við í Grafarholt þar sem við áttum ánægjulega stund. Nema hvað næsta dag vildi Japaninn fara aftur í golf, og helst ekki gera neitt annað meðan á dvöl hans stæði. Þegar ég spurði af hverju hann hefði svona afskaplega mikinn áhuga á golfi benti hann mér að í Japan þarf oft að hafa margra mánaða fyrirvara á því að bóka sig inn á golfvöll og aka langa leið til að komast á völlinn.“

Ekki er hægt að ljúka umfjöllun um afþreyingu og útivist í Reykjavík án þess að minnast á Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Jafnt og þétt hefur verið aukið við afþreyingarmöguleikana í garðinum svo að núna er hann orðinn eitt allsherjarskemmtisvæði fyrir yngri gestina. „Yfir sumartímann er garðurinn nokkurs konar tívolígarður með fullkomnum leik- og skemmtitækjum eins og klessibílum, ökuskóla, að ógleymdum fallturninum en efst úr honum er fjarskagott útsýni yfir Laugardalinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert