Staddar í einhverjum hliðarveruleika

Þorbjörg ásamt eldri dóttur sinni Valbjörgu Maríu.
Þorbjörg ásamt eldri dóttur sinni Valbjörgu Maríu. Ljósmynd/Aðsend

Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður Samtakanna ´78 segir það ótrúlega upplifun að ferðast innanlands í ár í ljósi aðstæðna. Henni líður best að ferðast með lítinn farangur og fá plön en segir það erfitt eftir að tvö lítil börn komu í spilið en Þorbjörg er kvænt Silju Ýr S. Leifsdóttur og eiga þær tvær dætur saman, Valbjörgu Maríu og Steinunni Þórkötlu.

Hvernig ætlarðu að verja sumrinu?

„Ég fór hringinn í kringum landið með fjölskylduna í júní. Það var alveg ótrúleg upplifun að sjá landið sitt svona, bæði voru fáir Íslendingar komnir í sumarfrí og landið var ekki opið fyrir ferðamönnum. Mér leið oft eins og við værum staddar í einhverjum hliðarveruleika. Það sem eftir lifir sumars ætlum við að vera duglegar að skella okkur í bústað þegar tækifæri gefst, hafa það gott á höfuðborgarsvæðinu og fara á Snæfellsnes. Planið er að ganga á Snæfellsjökul, svona áður en það verður of seint!“

Röskuðust þín ferðaplön eitthvað vegna kórónuveirunnar?

„Planið var alltaf að ferðast innanlands í sumar, þannig að það stóðst. En svo stóð til að við færum í brúðkaup til Bandaríkjanna í haust og ég stefndi líka á árlega ráðstefnu ILGA-Europe, Evrópusamtaka hinsegin fólks, í Búlgaríu. Hvoru tveggja var frestað vegna veirunnar.“ 

Hvernig ferðatýpa ert þú?

„Mér líður best þegar ég er með fáránlega lítinn farangur og lítið sem ekkert plan. Ég reyni sem sagt yfirleitt að komast hjá öllu auka veseni þegar ég ferðast. Þetta gekk mjög vel þegar við konan mín fórum í níu mánaða bakpokaferðalag eftir stúdentinn, en núna eigum við tvö lítil börn og það má segja að ég komist ekki hjá veseni og skipulagi lengur. Það er ákveðin áskorun að fara í tjaldferðalag með 4 ára og 10 mánaða, en vel þess virði!“ 

Hvert dreymir þig um að fara?

„Mig hefur lengi langað að fara til fyrrum Sovétríkjanna í Mið-Asíu: Kasakstan, Kirgistan, Túrkmenistan, Úsbekistan og Tadsjikistan. Hins vegar er staðan bara þannig að það er ekki sjálfsagt fyrir hinsegin fólk að ferðast um allan heim og ég veit ekki hvort ég fer nokkurn tímann til þessara landa. Við konan mín höfum þóst vera frænkur eða vinkonur til þess að reyna að auka öryggi okkar í löndum þar sem samkynja ástir eru ólöglegar, meira að segja í brúðkaupsferðinni okkar, en sá tími í mínu lífi er liðinn. Þannig að það er afar heppilegt að ég á enn eftir að koma til margra „öruggra“ ríkja!“

Hverjir eru þínir uppáhaldsstaðir á Íslandi?

„Uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi er án efa Þingvallavatn, en stórfjölskyldan mín á gamlan bústað sem langafi og langamma byggðu í hrauninu við vatnið. Það er ekkert sem jafnast á við kyrrðina og fegurðina þar. Annars eru aðrir uppáhaldsstaðir Ísafjörður, Eskifjörður og Húsavík.“ 

Hvað er nauðsynlegt að taka með í ferðalagið?

„Góðan kaffibrúsa, tjaldstóla og fólk sem manni þykir vænt um.“

Húsavík er í uppáhaldi hjá Þorbjörgu.
Húsavík er í uppáhaldi hjá Þorbjörgu. Ljósmynd/Aðsend
Silja og Þorbjörg í Lhasa í Tíbet árið 2011.
Silja og Þorbjörg í Lhasa í Tíbet árið 2011. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert