Jóhann og Berglind sigldu á lúxussnekkjunni Le Bellot í kringum Ísland

Hjónin Jóhann Pétur Guðjónsson og Berglind Rut Hilmarsdóttir nutu lífsins …
Hjónin Jóhann Pétur Guðjónsson og Berglind Rut Hilmarsdóttir nutu lífsins á Le Bellot á dögunum.

Snekkjan Le Bellot frá skipafélaginu Ponant hefur vakið mikla athyli á Íslandi en snekkjan fór sína jómfrúarsiglingu í kringum landið á dögunum. GB Ferðir bjóða upp á siglingu í kringum landið næstu sjö vikurnar en ferðaskrifstofan er í eigu Jóhanns Péturs Guðjónssonar og Guðjóns Böðvarssonar. Báðir voru þeir í jómfrúarferðinni og segist Jóhann aldrei hafa upplifað annað eins. 

Hvernig kom það til að GB ferðir ákvað að bjóða upp á þessar siglingar?

„Það má segja að þetta hafi dottið í fangið á okkur. Við erum alltaf að leita að nýjungum sem við teljum að gætu hentað okkar viðskiptavinum. Le Bellot átti að byrja að sigla í Karíbahafinu í mars en vegna Covid-19 þá var ekki hægt að fara af stað á þeim tíma. Í sumar var ákveðið að jómfrúarsiglingin yrði sigld í kringum Ísland. Meðal annars vegna þess að Ísland hefur staðið sig vel í faraldrinum og landið strjálbýlt og yndislega fallegt. Þetta eru fyrstu siglingar í heiminum eftir Covid-19. Ponant hefur reynslu og þekkingu í siglingum á norðurslóðum, einnig hefur félagið boðið upp á siglingar til Suðuskautslandið,“ segir Jóhann. 

Snekkjan er engin smásmíði en þar er sundlaug og gufubað …
Snekkjan er engin smásmíði en þar er sundlaug og gufubað svo eitthvað sé nefnt.

Hvernig er að gista á svona snekkju? 

„Það er auðvitað þvílíkur lúxus. Hverri svítu fylgir þjónn sem sér um allt sem þig vantar, hvort sem það er handklæði, kampavín, inniskór, þrif, matur eða hvað það nú er. Vistarverur eru eins og á fimm stjörnu hóteli. Svíturnar eru mjög fallega hannaðar og skápapláss mjög mikið og öll þægindi sem þú átt að venjast á 5 stjörnu hóteli. Þá er einnig gervihnattasjónvarp og frítt WiFi allsstaðar um borð. Allar svítur eru með sjávarsýn og svölum,“ segir hann. 

Aðspurður að því hvað voru margir um borð í jómfrúarsiglingunni segir Jóhann að það hafi verið tæplega 50 gestir. Í áhöfninni voru 112 manns og komu gestirnir flestir frá Frakklandi. Þegar fólk skráir sig í slíka siglingu er allt innifalið og þar á meðal matur og vín. Þegar Jóhann er spurður nánar út í matinn segir hann að maturinn hafi einu orði sagt verið stórkostlegur.

„Franskt eldhús A la carte með morgunverði, 4 rétta a la carte hádegisverði og 4 rétta a la carte kvöldverði.  Þessi var öllu parað saman við frönsk gæðavín og kampavín.  Fyrir kvöldverðinn milli 16.00 og 18.00 var alla daga boðið upp á léttar veitingar í setustofunni á 3 hæð og 6 hæðinni sem var svokallað „observatory lounge“.  Einnig er hægt að panta af matseðli allan sólarhringinn. Á káetunum er „minibar“ sem er fyllt á á hverjum degi og Nespresso vél. Tvö kvöld um borð eru formleg og þá er boðið upp á 7 rétta máltíð og gestir klæða sig upp á.  Svo má ekki gleyma að þjónustan er óaðfinnanleg og persónuleg,“ segir hann. 

Hvernig er ólíkt að upplifa Ísland á snekkju í stað þess að skoða landið á bíl? 

„Það er gjörólíkt sjónarhorn, þú siglir á milli ólíkra áfangastaða í hafinu og það er magnað að fylgjast með því hvað dýralífið er fjölbreytt frá sjó. Fyrir utan óteljandi tegundir fugla þá var stórkostlegt að sjá hvalategundir eins og Hnúfubak, háhyrninga og höfrunga fylgja skipinu allnokkra leið og sýna sig fyrir gestum skipsins. Það er merkilegt hvað þessar skepnur eru forvitnar og með virðast hafa löngun til að sýna sig öllum til ómældrar gleði. Á ferð okkar lögðumst við aðeins tvisvar að bryggju, annars vorum við við akkeri fyrir utan land og sigldum í land í vel útbúnum Zodiac bátum. Allir gestir fá útivistabúnað frá skipafélaginu og góðar úlpur til eignar. Svo má heldur ekki gleyma því að yfirferðin er miklu hraðari á skipi en með bíl og það þarf enginn að sitja við stýrið. Skipið fer á milli staða á meðan þú ert í kvöldverði og þegar þú sefur,“ segir hann. 

Hvert var skemmtilegast að koma? 

„Það er erfitt að velja einn stað, en það var mjög gaman að koma til Flateyjar að morgni og vera síðar sama dag að skoða Látrabjarg af sjó og það magnaða fuglalíf sem er þar. Það er mögnuð tilfinning að sigla nánast upp að bjarginu og horfa upp eftir því, þá áttar maður sig á því hversu hrikalegt það er. Einnig var gaman að sigla að kvöld- og næturlagi framhjá Austfjörðum og sjá hrikaleg fjöllin stíga upp úr sjónum. Áhafnarmeðlimir og erlendir gestir skipsins höfðu það á orði við okkur að þeir hefðu aldrei séð annað eins.  Þeir upplifðu sig eins og þeir væru á framandi plánetu, en ekki á jörðinni. Jökulsárlón var skemmtilegur dagur þar sem við sigldum fyrir utan lónið og sum okkar fóru á WakeBoard, sér og öðru til mikillar skemmtunar.  Siglingin inn til Vestmannaeyja var stórkostleg og ekki síður að sigla þaðan með kokteil við hönd á útsýnisdekkinu á 6 hæðinni.“  

Hvernig var í sjóinn á ykkar ferð? 

„Þetta skip er þannig hannað að þú finnur varla fyrir sjónum. Flesta daga vorum við að lulla á 6-7 hnúta hraða. Þegar við vorum komin á Vestfirði var svokölluð Grænlandslægð á leiðinni þangað og um Hornstrandir. Við vorum á Látrabjargi um kvöldmatarleitið og skipstjórinn ákvað að keyra hraðann upp og vera á undan lægðinni. Hann jók hraðann og skipið keyrði í gegnum þetta á auðveldan hátt án þess að það hafði teljandi áhrif. Ég var í heitri sundlauginni þegar veðrið var verst á miðnætti þann dag án þess að finna fyrir neinu.“  

„Snekkjan er í eigum skipafélagsins Ponant. Þetta skip heitir Le Bellot og er smíðað á þessu ári í Noregi. Það tekur 184 farþega í 94 svítum og í áhöfnin telur 112 manns. Ponant er stofnað 1992 af François Pinault og núna telur flotinn 13 skip. Nýjasta skipið þeirra, Le Jacques-Cartier, var afhent 10. júlí. Þetta eru fallegustu skemmtiferðaskip sem eru að sigla í dag og eina skipafélagið sem siglir undir frönsku flaggi. Ponant er í eigu Pinault fjölskyldunnar, sem er kannski þekktari fyrir eignarhald sitt í félagi sem heitir Kering, sem fer með eignarhald í lúxus fyrirtækjum á borð við GucciSaint LaurentBalenciaga, Stella McCartney, Alexander McQueen og fleiri. Í dag er sonur PinaultFrançois-Henri Pinault stjórnarformaður félagsins. François er giftur leikkonunni Salma Hayek,“ segir Jóhann. 

Hvernig er landslagið breytt hjá ykkur eftir veirufaraldurinn?

„Staðan er auðvitað búin að vera mjög erfið síðustu fimm mánuði. Það er búið að vera lítið um nýjar sölur frá því í mars. Það er mikið um fyrirspurnir en í dag er það helst heimkomusóttkví sem kemur í veg fyrir að fólk ferðist erlendis.“

Nú kostar ferð fyrir einn rúmlega 600.000 kr. Er markaður fyrir vikuferðalög í þessum verðflokki? 

„Það er alltaf markaður fyrir einstaka upplifun. Þetta er auðvitað einstakt tækifæri fyrir Íslendinga að ferðast um landið sitt á hátt sem ekki hefur verið í boði áður. 5 stjörnu gisting í mat og drykk og vistarverum. Þegar allt er tiltalið þá er þetta ekki hátt verð enda ekki ástæða til að taka upp veskið á ferðinni, því allur matur, drykkur og skoðunarferðir eru innifaldar. Hins vegar er ekki markmiðið að selja mörg hundruð ferðir, en vissulega er markaður fyrir 50-150 sæti á næstu 5 vikum,“ segir Jóhann. 

Áttu einhverja góða sögu úr ferðalaginu sem vert er að deila?  

„Það er auðvitað alltaf skemmtilegt að ferðast og margt sagt og gert, sem gaman er að rifja upp. Það var ótrúlega skemmtilegt að rekast á hnúfubaka í Eyjafirðinum, þeir fylgdu skipinu í drjúgan tíma og stukku og sýndu sig, sama má segja um það þegar flokkur af háhyrningum synti örfáa metra frá skipinu þegar siglt var utan við Reykjanesið. Þetta er nokkuð sem landkrabbi eins og ég sjálfur hef ekki séð áður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert