Afskekkt tjaldsvæði á Íslandi

Útilega á afskektum stað er málið í ágúst.
Útilega á afskektum stað er málið í ágúst. Ljósmynd/Pexels

Þó búið sé að lækka samkomutakmörk niður í 100 manns þá er enn þá sumar á Íslandi. Það eru jafnvel einhverjir sem eru að fara í sumarfríið sitt fyrst núna í ágúst. Takmarkanir eru á öllum helstu tjaldsvæðum landsins og því erfiðara að komast að en áður.

Það þýðir þó ekki að pakka tjaldinu saman og setja það aftur inn í geymslu því vel er hægt að fara í útilegu á afskekktari stöðum landsins. 

Á vefnum Nat.is má sjá yfirlit yfir öll tjaldsvæði landsins. Ferðavefurinn valdi nokkur tjaldsvæði sem eiga það sameiginlegt að vera á frekar afskekktum svæðum, lengst úti á nesi eða lengst inni í landi. 

Þegar haldið er í útilegu á afskekktan stað þarf að hafa ýmislegt í huga sem annars kannski þyrfti ekki að hugsa út í. Þá þarf að hugsa betur út í hvort fararskjótinn komist yfir fjöll og ár nokkuð auðveldlega. Fyrr í sumar tók Ferðavefurinn saman lista yfir það sem er nauðsynlegt að taka með í útileguna og hægt er að hafa hann til hliðsjónar þegar er pakkað niður fyrir útilegu á afskekktum stað. 

Hesteyri á Vestfjörðum

Tjaldsvæðið á Hesteyri er innan friðlandsins og því mikilvægt að ganga vel um náttúruna og skilja ekkert rusl eftir. Á Hesteyri er rennandi vatn en ekki vatnssalerni. 

Hesteyri telst hluti af friðlandinu.
Hesteyri telst hluti af friðlandinu. mbl.is/Árni Sæberg

Höfn í Hornvík

Hornstrandir eru margrómaðar fyrir að vera einn afskekktasti staður landsins. Á Höfn í Hornvík er vatnssalerni og rennandi vatn. Líkt og Hesteyri er Höfn í Hornvík innan friðlandsins og því ber að fylgja öllum reglum um náttúruvernd í hvívetna.

Fjalladýrð

Fjalladýrð er í Möðrudal mitt á milli Mývatnssveitar og Egilsstaða á vegi 901. Það ber nafn með rentu og þaðan er ómengað útsýni til Herðubreiðar. 

Fjalladýrð í Möðrudal.
Fjalladýrð í Möðrudal. Sigurður Aðalsteinsson

Hveravellir

Á Hveravöllum á hálendinu er bæði hægt að gista í skála og í tjaldi. Góð aðstaða er á svæðinu, vatnssalerni, sturta og náttúrulaug.

Hveravellir.
Hveravellir. Einar Falur Ingólfsson

Raufarhöfn 

Raufarhöfn er án efa frábær staður til að heimsækja ef þú vilt forðast að vera í margmenni. Þar er ávallt veðurblíða sem engan svíkur og frábært tjaldsvæði nálægt sundlauginni.

Raufarhöfn.
Raufarhöfn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert