Gömul fangaeyja verður að paradís

Eyjan San Lucas er fögur en á sér hryllilega sögu.
Eyjan San Lucas er fögur en á sér hryllilega sögu. Skjáskot/Youtube

Eyjan San Lucas við Kosta Ríka var nýlega gerð að þrítugasta þjóðgarði Kosta Ríka. Eyjan sem er þekkt fyrir fjölbreytt dýralíf á sér merkilega sögu en hún hýsti áður fyrr alræmdustu glæpamenn Kosta Ríka. 

Á vef Lonely Planet kemur fram að eyjan er ferðamannavænni eftir að hún var gerð að þjóðgarði. Tilgangurinn með þjóðgarðinum er meðal annars að hvetja ferðamenn til að kanna leyndar perlur landsins. Til að komast á eyjuna er hægt að taka 40 mínútna langa bátsferð frá borginni Puntarenas en Puntarenas er í tæplega 100 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni San José. 

Þrátt fyrir að vistkerfi eyjunnar sé heillandi vekur saga eyjunnar ekki síst áhuga ferðamanna. Í rúma öld eða frá árinu 1873 til 1991 var rekið fangelsi á eyjunni. Líf fanganna var stutt og var meðferðin á þeim afar hörð. Nú eru fangabyggingarnar hluti af sögu Kosta Ríka og hafa sérstakir leiðsögumenn verið þjálfaðir í að fara með ferðamenn um þessa sögufrægu eyju. 

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið af eyjunni. 

mbl.is