Hvernig á ekki að villast í Feneyjum?

Það er gaman að rölta um Feneyjar vitandi að maður …
Það er gaman að rölta um Feneyjar vitandi að maður kemst alltaf til baka með hjálp tækninnar. Ljósmynd/María Margrét Jóhannsdóttir

Blaðamaður ferðavefs Mbl.is hefur varið umtalsverðum tíma í að ferðast einn um ókunnug lönd. Margir óa við því að ferðast einir og eru hræddir um að lenda í ógöngum.

Sem betur fer hafa tækniframfarirnar þróast þannig að jafnvel ólíklegasta fólk er nú orðið fullfært um að bjarga sér í útlöndum.

Ágætt dæmi um erfiða borg að rata um er Feneyjar. Feneyjar eru þess eðlis að maður neyðist til þess að treysta á sjálfan sig þegar kemur að því að komast leiðar sinnar. Ólíkt öðrum borgum þá getur maður ekki hoppað upp í leigubíl og ætlast þess að vera keyrður upp að dyrum. Eins getur maður alls ekki pantað Uber til að sækja sig ef það fer að hellirigna og maður er fastur einhvers staðar lengst í burtu á stuttermabolnum (já, hér er talað af reynslu).

Vegalengdirnar eru ekki miklar í Feneyjum og maður kemst allt gangandi, en það getur verið kúnst að rata. Göturnar eru þröngar og hlykkjóttar og enda oft úti í vatni. Þá er einnig auðvelt að missa af beygjunni því stundum líður manni eins og þetta geti ekki mögulega verið rétta leiðin, einhver þröngur stígur á milli húsa og vart meira en 50 cm að breidd. Þá kemur tæknin að góðum notum en án Google Maps væri maður sannarlega týndur.

Sú sem þetta skrifar er ekki ratvísasta manneskjan í heimi og þess vegna er það einstaklega frelsandi að geta rölt um Feneyjar án þess að vera hrædd um að villast. Að vita að maður kemst alltaf til baka bara með hjálp tækninnar veitir manni hugarró og maður nýtur ferðalagsins betur.

Að þessu sögðu þá er mikilvægt að vekja athygli á nauðsyn þess að vera alltaf með vel hlaðinn síma og taka alltaf með sér hleðslutæki. Rafhlaða símans er fljót að klárast þegar verið er að taka myndir allan daginn eins og sönnum ferðamanni sæmir.

Aðeins einu sinni hefur sú sem þetta skrifar lent í vandræðum en Google Maps sýndi ekki rétta staðsetningu á hótelinu og endaði leiðin á bílastæði. Þá voru góð ráð dýr því þegar þarna var komið við sögu var aðeins 1% eftir á símanum. Skundað var inn á næsta bar, síminn settur í hleðslu og hringt í hótelið. Hótelstarfsmaðurinn var hinn vinsamlegasti og sendi umsvifalaust nákvæma GPS staðsetningu hótelsins í gegnum samskiptaforritið WhatsApp. 

Góð ráð til að týnast ekki í útlöndum:

  • Vera með vel hlaðinn síma og tengdur við 5G.
  • Nota Google Maps.
  • Vista nafn og staðsetningu hótelsins á símann.
  • Hlaða niður tungumálaforrit ef þú skyldir þurfa að spyrja til vegar.
  • Taka myndir af öllu sem gæti hjálpað þér t.d. mynd af hótelinu, leiðarkerfi, kort, tímaáætlanir, kóðann inn á hótelið eftir myrkur.
  • Ef tæknin bregst manni þá er gott að vera með götukort til öryggis. Það er hægt að fá á flestum hótelum. Og vera svo óhræddur um að spyrja til vegar. Flestir eru allir af vilja gerðir.
Húsasundin geta verið dimm og þröng. Auðvelt er að missa …
Húsasundin geta verið dimm og þröng. Auðvelt er að missa af réttri beygju. Ljósmynd/María Margrét Jóhannsdóttir
Þessi gata endar bara úti í feni.
Þessi gata endar bara úti í feni. Ljósmynd/María Margrét Jóhannsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert