Trump-hjónin fóru í óspennandi brúðkaupsferð

Donald og Melania Trump giftu sig fyrir rúmlega 15 árum.
Donald og Melania Trump giftu sig fyrir rúmlega 15 árum. AFP

Forsetahjón Bandaríkjanna Donald og Melania Trump eru í eldlínunni vegna komandi kosninga í Bandaríkjunum. Hjónin giftu sig árið 2005 og þrátt fyrir að eiga sand af seðlum fóru þau ekki í spennandi brúðkaupsferð eins og margir gera. 

Stuttu eftir að hjónin giftu sig í janúar 2005 mættu þau í spjallþátt Larrys Kings og töluðu um brúðkaupið og samband sitt. King spurði hvernig brúðkaupsferð þeirra hefði verið. Donald Trump svaraði því til að hún hefði verið góð. Í ljós kom að þau fóru ekki í eiginlega brúðkaupsferð heldur dvöldu á setri sínu Mar-a-Lago, sem er á Palm Beach í Flórída í Bandaríkjunum.

„Viðhorf okkar var: Af hverju ættum við að fara frá Palm Beach, þú veist að fólk kallar það ekki Palm Beach út af engu, við erum með fallegustu pálmatrén,“ sagði forsetinn árið 2005 en þá var aðalheimili hjónanna í New York.

Hér má sjá stórhýsi Bandaríkjaforseta á Palm Beach í Flórída, …
Hér má sjá stórhýsi Bandaríkjaforseta á Palm Beach í Flórída, Mar-a-Lago. AFP

Forsetinn virtist ekki hafa neinn áhuga á að skoða sig um á framandi slóðum. 

„Svo af hverju hefðum við átt að fara úr fallega húsinu okkar sem heitir Mar-a-Lago og hætta okkur á einhverja hitabeltiseyju þar sem ekki er nægt hreinlæti eða eitthvað?“

Í kórónuveirufaraldrinum er fólk hvatt til að fara í ferðalög heima hjá sér og mætti færa rök fyrir því að Donald Trump hafi einmitt gert það þegar hann gekk í hjónaband með Melaniu Trump. 

Í spilaranum hér að neðan má sjá viðtal Larrys Kings við Trump-hjónin frá árinu 2005. 

mbl.is