Elma Stefanía deilir lífinu sínu í Vín

Elma Stefanía er einstaklega hrifin af söfnunum í Vín.
Elma Stefanía er einstaklega hrifin af söfnunum í Vín.

Það er alltaf gaman að fylgjast með Elmu Stefaníu Ágústsdóttur leikkonu í Vín. Hún er ekki að leika í augnablikinu því allt leikhúslíf liggur niðri vegna kórónuveirunnar en hún tók upp á því nýverið að byrja að spjalla við vini sína í gegnum samfélagsmiðla. Að fylgjast með henni er einskonar ferðalag um borgina með konu sem segir hlutina eins og þeir eru. 

„Ég tók upp á því í einverunni og einangruninni hér að spjalla við vini mína á Instagram og Facebook. Mig langaði að sýna Vín, hvernig það er að vera kona í borginni, fjölskylda og mamma. Ég fer í göngutúra, geri húsverkin, fer á söfn og fleira áhugavert.“

Þeir sem hafa fylgst með Elmu Stefaníu nýverið á samfélagsmiðlum vita að hún nær skemmtilegum raunverulegum augnablikum í borginni og kemur til dyranna rétt eins og hún er klædd hverju sinni. 

„Vínaborg er mjög sérstök. Það tekur tíma að venjast henni enda er hún öðruvísi en maður er vanur. Hallirnar eru margar vegna þess að hér er byggt á gömlu keisaraveldi. Það má segja að við dettum inn og út úr tískunni, en hér er haldið í alla hluti, þó þeir séu gamlir. Það er allt lifandi en samt liðið. Sem dæmi er rosalega algengt að sjá þurrkuð blóm í gluggunum.“

Elma er spennt að sýna vinum sínum allt sem hún hefur áhuga á í borginni.  

„Ég hlakka til að einn af uppáhalds veitingastöðunum mínum opni aftur. Ég ætla að sýna ykkur það á Instagram. Það eru nokkrar eldri konur sem eiga þennan grænmetisstað, sem líkist Grænum kosti í gamla daga. Þar er boðið upp á bökur og innréttingarnar  á staðnum eru frá árinu 1980. Enda er engu skipt út hér. Það er Vín og svo eru allar hallirnar svo fallegar og þær eru aðgengilegar fólki því í þeim eru söfn, kaffihús, skrifstofur og fyrirtæki svo eitthvað sé nefnt.“

Elma segir að það sé margt í Vín sem minni hana á gamla Ísland, þegar afi fór út í skúr að setja nýtt skaft á smjörhnífinn. Í stað þess að fara út í búð og kaupa sér nýjan. 

„Eins er margt sem minnir á Japan líka, þar sem hlutir verða dýrmætari með árunum. Þeim mun meiri sprungur sem myndast þeim mun verðmætari verða þeir. Það er ekki verið að panta nýja hluti úr Ikea og að henda út nýlegri eldhúsinnréttingunni.“

Elma Stefanía segist kunna að meta að sýna þessa hugmynd á samfélagsmiðlum, lífið eins og það er í raun og veru, með öllum sprungum, kostum og göllum. 

„Ég hef verið í einskonar ástar haturs sambandi við samfélagsmiðla. Ég hef glímt við kvíðaröskun og það var ekki að hjálpa mér að sjá alla svona fullkomna á samfélagsmiðlum. Ég hef einnig verið með svona miklar kröfur á mig sjálf sem ég þurfti að endurskoða. Ég hætti á samskiptamiðlum og missti allan áhuga. Ég hef alveg gaman af tísku og hönnun og Vogue hefur alltaf heillað mig. Ég get horft á það og sett það á annan stað. Ég er ekki að taka við þessum skilaboðum lengur um að við þurfum öll að vera fullkomin, enda er ekkert okkar þannig. Við erum öll fullkomlega ófullkomin og gerum okkar mistök.“

Elma Stefanía segir að kórónuveiran hafi gefið henni tækifæri til að gera nýja hluti.

„Ég hef verið að mála og prjóna sem ég kann einstaklega vel að meta. Ég hef einnig farið meira inn á við en hef reyndar lengi verið að vinna í sjálfri mér. Ég veit gildin mín í dag og vildi sýna það út á við. Ég er bara ég og ég er engin Instagram stjarna. En það er góðmennt og fámennt hjá mér á samfélagsmiðlum og ef fólk vill fylgjast með mér þá er það hjartanlega velkomið. En ég er þarna í samtali og ég vil hafa þetta á persónulegum nótum.“

Hvernig kom fullkomnunaráráttan þín út?

„Með því að vera nýbúin að eignast barn og fundist ég þurfa að passa í gallabuxurnar mínar, þrífa og gera allskonar hluti til að vera meðtekin. Það veldur mikilli togstreitu hjá mér og kvíða og er ekki tilgangur lífsins að mínu mati. Við förum í raun og veru mjög langt frá honum í þessari fullkomnunar hugsun. Þá minnka tengsl við annað fólk. Líkt og með kórónuveiruna. Þá lokast allt og maður má ekki lengur heilsast og faðmast og þá finnur maður minni fyrir nánd við annað fólk. Mig langaði að prófa þessa tækni og finna nánd við fleira fólk og sýna þeim mig eins og ég er. Ekki mig upp á sviði eða í kvikmyndum.“

Ég man eftir því að hafa séð þig í kvikmyndum og upp á sviði og jafnvel á samfélagsmiðlum svona fullkomna. Með postulín húð og fallega brosið þitt. Hvernig leið þér þegar þú tókst þátt í þessu?

„Ég held það sé mikilvægast að fólk viti að þá leið mér ekki vel. Það fara allir í gegnum eitthvað í lífinu og áföllin sem við erum að verða fyrir í dag eru að gerast fyrir okkur öll. Ástandið gefur okkur tækifæri á að skoða inn á við og að forgangsraða. Hvað mun okkur finnast mikilvægast fyrir næstu kosningar? Hvert erum við að stefna? Hvaða máli mun andleg heilsa skipta okkur sem samfélag?“

Hvað með ykkur hjónin. Ég sá að þú varst að reyna að lyfta Mikael Torfasyni manninum þínum um daginn. Þú reyndir aftur og aftur og svo í lokin vildir þú bara skila honum, fyrir léttari mann. 

„Já ég þarf að reyna aftur einhvern tímann seinna. Ég raunverulega trúði því að ég gæti lyft honum og var komin í Mjölnir peysuna mína og allt. Svo þegar ég gat ekki lyft honum þá kenndi ég honum um það. Að hann væri of þungur. Er það ekki dásamlegt? Kannski eitthvað sem maður gerir stundum í nánum samböndum? En að sjálfsögðu ætla ég ekki að skila honum. Þetta var sagt í hita leiksins og hann svo sannarlega reyndi eins vel og hann gat að vera léttur.“

Hvað megum við eiga von á að gerist hjá þér á næstu dögum?

„Ég var að spá í að gera svo margt. Ég ætla að halda áfram að sýna ykkur söfnin í Vín ef ég finn fleiri opin söfn. Svo langar mig að leyfa ykkur að halda áfram að fylgjast með göngutúrunum mínum á morgnanna þar sem ég fer mismunandi leiðir. Svo eru fastir liðir eins og venjulega í kringum heimilið og fjölskylduna og hver veit nema að ég fari að strauja eitthvað líka. Ég hef verið að mála og svo hef ég verið að prjóna sem er dásamlegt líka.“

Elma Stefanía veit fátt fallegra en byggingarnar í Vín.
Elma Stefanía veit fátt fallegra en byggingarnar í Vín.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert