„Þær fiska sem róa“

Hjördís Hugrún Sigurðardóttir í byrjun ársins 2020.
Hjördís Hugrún Sigurðardóttir í byrjun ársins 2020. Ljósmynd/Aðsend

Hjör­dís Hug­rún Sig­urðardótt­ir býr í Sviss þar sem hún starfar sem ráðgjafi hjá Accentura í Zürich. Hún byrjar flesta morgna á því að róa á Zürich-vatni. Hjördís Hugrún nýtur þess að hreyfa sig og upplifa umhverfi vatnsins. Róðurinn hefur líka kennt henni margt sem má yfirfæra á lífið sjálft. 

„Það er himneskt að róa á spegilsléttu vatni við sólarupprás. Róður er nokkuð tæknileg íþrótt sem krefst einbeitingar og vandvirkni. Sætin í róðrarbátunum eru á sleða og megnið af kraftinum kemur þegar þú spyrnir þér, en róður reynir vel á alla stærstu vöðvahópa líkamans og er einstök útrás. Einnig finnst mér mjög gaman að því að róður getur bæði verið einstaklingsíþrótt og hópíþrótt. Hægt er að fara saman á tveggja upp í átta manna báta, þar sem allir verða að róa í takt. Stundum nýt ég þess í botn að vera ein, en einnig er stórkostlegt að vera í góðum félagsskap úti á vatni. Ég gæti eflaust skrifað bók um allt sem heillar við róður,“ segir Hjördís Hugrún um áhuga sinn á róðri. 

„Ég fer flesta morgna frá róðrarklúbbnum Nordiska (Nordiska Roddföreningen) og ræ á Zürich-vatni. Bestu aðstæðurnar á vatninu eru fyrir klukkan átta á morgnana, því ferjurnar og bátar sem búa til öldur fyrir sjóbretti fara af stað klukkan átta. Á milli sex og átta á morgnana myndast því ákveðin hersing af róðrarbátum á vatninu og fylgja þarf umferðarreglum. Tvær leiðir eru í boði; inn að miðju borgarinnar og svo meðfram hinni svokölluðu Gullströnd austan megin eða frá róðrarklúbbnum sem er vestan megin, beint suður eftir vatninu meðfram strandlínunni, yfirleitt eru farnir um tíu kílómetrar í heildarvegalengd.

Við nokkrar vinkonur frá róðrarklúbbnum tókum líka þátt í róðrarhátíð við Bodensee í lok sumars og það var magnað að sjá borgina Konstanz svona frá vatninu. Róðrarklúbburinn fór einnig saman í æfingaferð til Interlaken og þar rerum við á Brienzersee sem er algjör náttúruparadís og gaman er að upplifa nýja staði frá þessum sjónarhóli.“

Hjördís Hugrún á keppnisbáti. Hana langar til að keppa í …
Hjördís Hugrún á keppnisbáti. Hana langar til að keppa í róðri í ár. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig upplifir þú náttúruna og umhverfið af vatninu?

„Bátarnir eru örmjóir og lágir svo þú ert í mikilli nálægð við vatnið og tilfinningin er svolítið líkt og þú svífir á því. Á keppnisbátunum, sem eru nettastir og því óstöðugastir, skiptir staðsetning handa þinna miklu máli. Ef þú færir aðra höndina of ofarlega eða neðarlega fer önnur árin of djúpt í vatnið eða upp úr því og í báðum tilfellum er jafnvægið farið og þú hvolfir bátnum um leið. Tengingin við vatnið er því mikil.“

Hjördís Hugrún lét slag standa og byrjaði að æfa róður í byrjun árs 2020. 

„Þegar ég flutti fyrst til Zürich til að hefja meistaranám tók ég eftir fólki að róa á vatninu snemma á morgnana þar sem ég sat í sporvagninum á leiðinni í skólann, ég man ég hugsaði með mér: vá, hvílíkur draumur ætli það sé að byrja daginn á að róa og fara svo í vinnuna. Ég var síðan eitthvað upptekin og gerði lengi ekkert varðandi þann draum. Vorið 2019 var ég aðeins farin að hugsa heim, fyrir tilviljun hafði ráðningarfyrirtæki samband við mig varðandi starf á Íslandi á þessum tíma. Þá þurfti ég aðeins að hugsa það fyrir alvöru hvort ég vildi flytja, ég hafði nokkuð nýlega byrjað í nýju starfi í Zürich sem ég var mjög ánægð með, en ein af fyrstu hugsunum mínum var að ég væri ekki einu sinni búin að prófa að róa, og fann að ég var ekki tilbúin að flytja frá Zürich.

Ég fótbrotnaði þó á fótboltamóti stuttu síðar svo róðrarnámskeiðið þurfti aðeins að bíða, en ég lauk svo loks byrjendanámskeiðinu í byrjun árs 2020. Í Zürich var algjört „lock down“ vegna Covid í átta vikur frá miðjum mars og á þeim tíma náði ég að fá róðrarvél lánaða hjá róðrarklúbbnum. Við í róðrarfélaginu tókum svo þátt í ýmsum áskorunum saman sem ég hafði mjög gaman af. Þá áttaði ég mig líka á því að ég er smá góð í þessu svo það jók áhugann enn meir. Ég er nokkuð hávaxin, lúmskt sterk og get verið ágætlega þrjósk og það vill svo til að það hentar allt mjög vel fyrir róður, þá varð í raun ekki aftur snúið. Mér þykir þó miklu skemmtilegra að róa á vatninu og þegar mátti aftur opna róðrarklúbbinn í maí byrjaði ég að róa nokkuð oft í viku og endaði á að hljóta heiðursmerkið Silfurárina því ég reri yfir 1.000 kílómetra á róðrartímabilinu. Róðrarklúbburinn sem ég er meðlimur í er samnorrænn róðrarklúbbur (Nordiska Roddföreningen) og skilyrði fyrir inngöngu er að þú talir norrænt tungumál, klúbburinn er stofnaður árið 1878. Svo skemmtilega vill til að ég er fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur Silfurárina hjá Nordiska.“

Ertu búin að setja þér markmið fyrir árið 2021?

„Á meðan ég hef svona gaman af þessu að ég hlakka til að vakna klukkan hálfsex á morgnana til að komast að róa mun ég allavega halda áfram og mig langar að bæta róðrartæknina hjá mér. Án þess að ég sé búin að setja mér föst markmið þykir mér líklegt að ég muni að prófa að keppa á næsta ári.“

Hjördís Hugrún fékk heiðursmerkið Silfur árina fyrir róður sinn á …
Hjördís Hugrún fékk heiðursmerkið Silfur árina fyrir róður sinn á árinu. Ljósmynd/Aðsend

Er einhver sérstakur staður sem þig dreymir um að róa á?

„Róðrarferð til Sevilla og róa á ánni Guadalquivir er á stefnuskránni þegar heimsástandið leyfir. Ég hef einnig verið að velta fyrir mér hvar á Íslandi gæti verið hentugt að róa, afi minn Skúli Brynjólfur Steinþórsson sagði mér nýlega að þegar hann var í MA hefðu hann og skólafélagar hans róið á kappróðrarbátum á Pollinum á Akureyri. Ég hef ekki orðið vör við kappróðrarbáta á Íslandi, en aðeins stöðugri bátar sem eru ætlaðir fyrir sjóróður gætu hentað vel við íslenskar aðstæður, gaman væri að prófa það einn daginn.“

Hefur þú lært eitthvað af róðrinum sem nýtist í starfi?

„Ég hef verið vön að fara svolítið mínar eigin leiðir og það hefur alltaf reddast einhvern veginn. Þegar ég byrjaði að læra að róa var ég kannski tilbúin að horfast betur í augu við mín mistök og aga mig meira. Það getur tekið smá tíma fyrst þegar þú ert að læra að róa að ná grunntækninni rétt, snúa árinni á réttum tíma í hverju róðrartaki og vera í takt við alla í bátnum. Mistök þín eru mjög sýnileg bæði fyrir þig og alla í bátnum því það þarf kannski að stöðva bátinn áður en hægt er að byrja aftur á réttum takti. Að gera mistök, vera stödd úti á bát á miðju vatni, blóta örlítið og langa helst að synda í land, en verða að taka sig saman í andlitinu og demba sér beint í að byrja aftur og reyna að vanda sig enn meira, var mér skemmtileg ögrun og mjög lærdómsríkt.

Ég hugsa að þessi lærdómur í bland við það að uppgötva íþrótt sem ég hef svona mikla ástríðu fyrir hafi haft mjög jákvæð áhrif á mig í ráðgjafarstarfinu. Áhuginn og einbeitingin varð einhvern veginn enn meiri og hefur líklega haft áhrif á að ég fékk nýlega stöðuhækkun.

Einnig hefur nýst mér einstaklega vel á mínum starfsferli að þekkja sögur og ráð kvennanna 50 sem við mamma tókum viðtöl við fyrir bókina okkar Tækifærin. Mér þykir einstaklega vænt um að þær voru til í að deila með okkur af sinni reynslu og við höfum birt brot úr viðtölunum á heimasíðunni húnermeistari.is. Það má kannski segja að málshátturinn „þær fiska sem róa“ eigi vel við sögur þeirra,“ segir Hjördís Hugrún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert