Fegurðardrottning grunuð um sóttvarnabrot

Zara Holland kemur fyrir dómara á morgun.
Zara Holland kemur fyrir dómara á morgun. Skjáskot/Instagram

Love Island-stjarnan og fyrrverandi fegurðardrottningin Zara Holland mun koma fyrir dómara á Barbadoseyjum á morgun, miðvikudag. Holland er grunuð um að hafa brotið lög um sóttkví á eyjunni þegar hún sótti hana heim. 

Óljóst er hvort hin fyrrverandi Ungfrú Bretland muni koma fyrir dómara í eigin persónu eða í gegnum fjarfundabúnað. Holland kom til Barbadoseyja 27. desember síðastliðinn og fór í kórónuveirupróf. Hún fékk þau tilmæli að halda sig á Sugar Bay-hótelinu þar til hún fengi niðurstöðu.

Hinn 29. desember vaknaði hins vegar grunur um að hún væri að reyna að yfirgefa eyjuna án leyfis. 

Samkvæmt heimildum BBC var Holland stöðvuð á flugvellinum og gaf sig síðar fram við lögreglu. Hún baðst afsökunar í viðtali við fréttamiðilinn Barbados Today og sagði málið mikinn misskilning. 

„Ég er búin að vera gestur þessarar yndislegu eyju síðastliðin 20 ár og myndi aldrei stofna lífi heillar þjóðar í hættu. Ég elska og virði þessa þjóð sem hefur tekið mér sem fjölskyldumeðlimi,“ sagði Holland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert