Verði paradís fólks í fjarvinnu

Madeira er mikil paradís.
Madeira er mikil paradís. Ljósmynd/Pexels/Matthias Groeneveld

Frumkvöðlafyrirtæki í Madeira í Portúgal vinna nú að því að gera eyjuna að paradís þeirra sem vinna fjarvinnu. Verkefnið Digital Nomads Madeira Islands fór af stað 1. febrúar síðastliðinn og í gegnum samstarf StartupMadeira verður 100 manneskjum sem vinna fjarvinnu boðið að flytja tímabundið til eyjunnar. 

Verkefnið er tilraunaverkefni en þeir sem koma til með að vinna og starfa á Madeira munu allir búa í litlum 8.200 manna bæ á suðvesturströnd Madeira. Í gegnum verkefnið geta þátttakendurnir fengið skrifstofuaðstöðu í bænum. Vonir standa til að lítið samfélag myndist þar. 

Mikill áhugi hefur verið á verkefninu að sögn Goncalos Halls, eins af aðstandendum verkefnisins. Yfir tvö þúsund manns hafa sótt um og gerir Hall ráð fyrir að 45 manns komi til Madeira 1. febrúar. Þátttakendurnir eru hvaðanæva úr heiminum; allt frá meginlandi Portúgals til Bandaríkjanna og Suður-Afríku. 

Verkefnið hentar best þeim sem búa í Evrópusambandslöndum eða í löndum innan Schengen. Þá þurfa þeir einnig að sýna fram á neikvætt kórónuveirupróf við komuna til Madeira.

Þeir sem fá að taka þátt í verkefninu geta fengið aðstoð lögfræðinga við að fá vegabréfsáritun sem gildir lengur. 

Heimamenn hafa tekið jákvætt í verkefnið og hafa margir áhuga á taka þátt í því. Þá hafa leigusalar boðið fram aðstoð sína með því að lækka verðið og bílaleigur boðið hagstæða langtímasamninga. 

CNN Travel

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert