Einkaeyja sveitasöngvara til sölu

Faith Hill og Tim McGraw.
Faith Hill og Tim McGraw. AFP

Einkaeyja sem sveitasöngvarahjónin Faith Hill og Tim McGraw byggðu upp er nú til sölu. Eyjan er hluti af Bahamaeyjum og býr yfir öllu því sem lúxuseyja þarf að búa yfir. Eyjan kostar ekki nema 35 milljónir bandaríkjadala eða tæplega 4,5 milljarða íslenskra króna. 

Eyjan heitir L'île d'Anges og er lýst sem „himnaríki á jörðu“ á fasteignavef Frank Knight. Árið 2017 var eyjan á forsíðu hönnunartímaritsins Architectural Digest en ekki hefur fengist staðfest hvort hjónin eru núverandi eigendur eyjunnar. 

Hjónin keyptu eyjuna árið 2003 en fluttu ekki inn fyrr en 2012. Innviðir eyjunnar þurftu meira viðhald en hjónin gerðu ráð fyrir. „Við ætluðum okkur að byggja hús,“ sögðu hjónin í viðtali við AD á sínum tíma. „Við höfðum ekki hugmynd um að við þyrftum að byggja allt annað. Við þurftum eiginlega að byggja smábæ.“

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið sem fasteignasalan birti á YouTube. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert