Vinsældir „hótelkodda“ aldrei meiri

Margir sakna þess að leggja þreytt höfuð á hótelkodda.
Margir sakna þess að leggja þreytt höfuð á hótelkodda. Ljósmynd/Andrea Piaxquadio/Pexels

Heimurinn er farinn að þrá að ferðast aftur. Það sést greinilega á tölum frá Premier Inn í Bretlandi en sala á koddum þar hefur aukist um 65% á nokkrum vikum. Ástæðan er myndband á TikTok sem yfir 100.000 hafa horft á. 

Í myndbandinu fjallar TikTok-notandinn CharConnor um kodda sem sagðir eru vera einir bestu koddar í heiminum. 

Salan hefur aukist um 400% á milli ára. Koddarnir koma tveir saman í pakka og með þeim fylgir undirkoddaver en tveir koddar kosta aðeins 25 pund. 

„Við vitum að það er mjög mikilvægt að sofa vel á nóttunni, sama hvort þú ert heima eða á einu af hótelunum okkar,“ sagði Sarah Simpson hjá Premier Inn. Hún segir að söluaukningin hafi komið þeim í opna skjöldu. 

„Mörg okkar sakna þess að fara í helgarferðir og það er frábært að sjá svona marga fjárfesta í góðum svefni. Koddarnir okkar eru hin fullkomna leið til að njóta Premier Inn heima fyrir,“ sagði Simpson.

Auk koddanna selur fyrirtækið rúm og dýnur í mismunandi stærðum. 

Premier Inn stefnir á að opna dyr sínar í Bretlandi aftur 17. maí, en stefnt er að því að slaka á sóttvarnaaðgerðum þann dag í Bretlandi, ef allt gengur að óskum. 

Independent

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert