Endurskapar flugvélamat heima hjá sér

Nik Sennhauser endurskapar gómsætar flugvélamáltíðir heima hjá sér.
Nik Sennhauser endurskapar gómsætar flugvélamáltíðir heima hjá sér. Skjáskot/Instagram

Fyrir heimsfaraldurinn þótti matur sem reiddur er fram í flugvélum ekki eftirsóknarverður matur. Eftir að heimsfaraldur skall á og heimsbyggðin gat ekki ferðast eins og áður eru margir farnir að þrá að borða gráan flugvélamat. Einn af þeim er Nik Sennhauser. 

Sennhauser ólst upp bæði í Austurríki og í Taílandi og fór í flug á um þriggja mánaða fresti þegar hann var barn. „Heima neyddi mamma mig til að borða mat sem mig langaði ekki í, en í flugvél borðaði ég bara það sem ég fékk. Ég man eftir að koma um borð og hlakka til að borða matinn,“ segir Sennhauser í viðtali við CNN Travel

Sennhauser býr nú í Glasgow í Skotlandi og fyrir heimsfaraldur ferðaðist hann mikið. Nú hefur hann hins vegar ekki farið í flugvél síðan hann flaug heim frá Japan í febrúar 2020 og saknar þess gríðarlega að fá flugvélamat. 

Eins og margir í þessum heimsfaraldri hefur Sennhauser fundið sér nýtt áhugamál – að endurskapa flugvélamáltíðir heima hjá sér. 

Hverja helgi rennir hann nú í gegnum myndir af máltíðum sem hann naut í háloftunum og velur sér eitthvað til að endurskapa. 

Hingað til hefur hann prófað ýmiskonar rétti, allt frá japanskri ommelettu til taílenskra karrírétta.

Sennhauser leggur sig allan fram við matreiðsluna og framsetninguna og ber matinn fram á bökkum og í ílátum eins og um borð í flugvélum. 




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert