Konur skilgreindar sem börn

Hugbúnaðarvilla olli því að konur voru skilgreindar sem börn með …
Hugbúnaðarvilla olli því að konur voru skilgreindar sem börn með tilliti til þyngdar. AFP

Villa í hugbúnaðaruppfærslu hjá flugfélaginu Tui olli því að kvenkynsfarþegar voru flokkaðir sem börn. Atvikið átti sér stað í flugi frá Birmingham til Majorca í júlí á síðasta ári og voru 187 farþegar um borð.

Atvikið er talið mjög alvarlegt þar sem viðmiðunarþyngd fyrir konur og börn er ekki sú sama og var því uppgefin heildarþyngd vélarinnar 1.200 kílóum minni en raunveruleg þyngd hennar. Hugbúnaðurinn gefur skýrslu sem er notuð til að reikna út eldsneytisþörf, hversu hátt vélin getur flogið og hversu mikið afl þarf til þess að vélin geti tekið á loft.

Hugbúnaðurinn var uppfærður í fyrstu bylgju kórónuveirunnar. Eftir uppfærsluna voru farþegar sem voru með skráð „miss“ fyrir framan nafn sitt skilgreindir sem börn og því viðmiðunarþyngd þeirra 35 kíló. Stöðluð þyngd kvenkynsfarþega er 69 kíló. 

Tvær vélar Tui tóku af stað frá Bretlandi sama dag með sömu þyngdarskekkju. Samkvæmt rannsókn á málinu var skekkjan þó innan marka og ógnaði ekki öryggi farþega um borð. 

„Heilsa og öryggi farþega okkar og starfsliðs er alltaf í forgrunni hjá okkur. Í kjölfar þessa einangraða atviks höfum við leiðrétt villuna í hugbúnaðarkerfi okkar. Eins og kom fram í rannsókninni var öryggi flugsins ekki raskað,“ segir í tilkynningu frá Tui.

The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert