Nágrannarnir ósáttir við Diesel

Vin Diesel heimsækir Dóminíska lýðveldið reglulega.
Vin Diesel heimsækir Dóminíska lýðveldið reglulega. AFP

Nágrannar leikarans Vins Diesels í Dóminíska lýðveldinu eru síður en svo sáttir við tíðar heimsóknir hans til eyjunnar og þá allra síst alla öryggisgæsluna sem honum og fjölskyldu hans fylgir. Um páskana lét Diesel loka heilli götu því hann fór út að hjóla með börnunum sínum. 

Diesel leigir orlofshús í Dómínska lýðveldinu og hefur verið tíður gestur þar undanfarin 20 ár. En hollywoodstjörnu fylgir ekki bara ýmislegt hafurtask heldur líka mikil öryggisgæsla. Nágrannarnir eru orðnir þreyttir á þessari gífurlega ströngu öryggisgæslu. 

„Síðustu vikur hef ég persónulega heyrt frá öðrum húseigendum á svæðinu sem greina frá allt of mikilli öryggisgæslu í kringum heimili okkar á ströndinni,“ skrifaði einn nágranna í bréfi til Diesel en TMZ náði afriti af bréfinu. 

Nágranninn sagði að þau væru vön því að frægt fólk kæmi til landsins en ekki hefði farið jafnmikið fyrir öryggisgæslu þessara stjarna. Kornið sem fyllti mælinn var atvik um páskana þegar Diesel lét loka fyrir umferð gangandi og akandi í heilli götu á meðan hann og fjölskyldan fóru í hjólatúr. 

Samkvæmt heimildum TMZ taldi Diesel öryggisgæsluna sérstaklega mikilvæga þar sem öll fjölskylda hans var með honum. Honum þætti þó miður að vera hans hefði haft áhrif á heimamenn, það hefði ekki verið ætlunin.

mbl.is