Yfir 40% ætla til útlanda næstu 12 mánuði

Yfir 40% ferðamanna á markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu ætla að ferðast …
Yfir 40% ferðamanna á markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu ætla að ferðast til útlanda á næstu 12 mánuðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfir 40% ferðamanna á helstu markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu stefna á að ferðast til útlanda á næstu 12 mánuðum. Ferðamenn frá Bandaríkjunum eru hvað líklegastir til að ferðast til Íslands á þessu tímabili. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem gerð var á meðal ferðamanna frá Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi. 

Könnunin var framkvæmd af Maskínu í febrúar 2021 og voru þátttakendur í flokknum „meðal eða hærri tekjur og menntun, virkur á atvinnumarkaði eða í námi og ferðast með reglubundnum hætti“. Alls bárust yfir þúsund svör frá hverjum markaði. 

Þá mælist Ísland hæst samanburðarlanda þegar kemur að trausti ferðamanna til landa í baráttunni gegn heimsfaraldrinum. 

Kanadamenn ólíklegastir

Lítill munur er á milli þeirra mánaða þegar ferðamenn segjast vera tilbúnir til að byrja að bóka næstu ferð sína til útlanda. Júní og september 2021 mælast þó hæstir hvað þetta varðar. 

Kanadamenn eru ólíklegastir til að leggja land undir fót á tímabilinu eða rétt undir 25%. Á öllum markaðssvæðum, nema Kanada, eru svarendur með hærri tekjur líklegri til að ferðast til útlanda á næstu mánuðum heldur en þeir sem eru með lægri tekjur. Þá virðast yngri ferðalangar, á aldrinum 25 til 35 ára, vera líklegri til að ferðast. 

Ástæðan fyrir því að fólk stefnir ekki á ferðalög næstu 12 mánuði eru áhyggjur vegna útbreiðslu faraldursins.

Nálgast má helstu niðurstöður á vef Maskínu.

Síðasta árið hafa erlendir ferðamenn verið nokkuð sjaldséð sjón hér …
Síðasta árið hafa erlendir ferðamenn verið nokkuð sjaldséð sjón hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is