Vilja ekki fá „heita áhrifavalda“

Heimamenn í Byron Bay vilja ekki fá heita áhrifavalda til …
Heimamenn í Byron Bay vilja ekki fá heita áhrifavalda til bæjarins. Ljósmynd/Pexels/Ricardo Flores

Íbúar í Byron Bay eru síður en svo sáttir við áform streymisveitunnar Netflix um að taka upp raunveruleikaþætti í bænum. Raunveruleikaþættirnir eiga að fjalla um áhrifavalda á Instagram og munu bera nafnið Byron Bae. 

Netflix tilkynnti áform sín í síðasta mánuði og sagði að þættirnir myndu snúast um „heita áhrifavalda að lifa sínu besta lífi“. 

Byron Bay hefur á síðustu árum orðið vinsæll áfangastaður ferðamanna, þá sérstaklega ríka og fræga fólksins. Þangað hefur líka komið fjöldi áhrifavalda á samfélagsmiðlum 

Þúsundir hafa ritað nafn sitt á undirskriftalista þar sem farið er fram á að Netflix hætti við áform sín. Nokkur fyrirtæki í bænum hafa einnig sagst ekki ætla að taka þátt í verkefninu. 

Bæjarbúar segja að óraunhæf mynd hafi verið dregin upp af Byron Bay á samfélagsmiðlum; þar drjúpi smjör af hverju strái og sólin skíni allan daginn. Raunveruleikinn sé hins vegar sá að þarna búi venjulegt fólk sem glími við venjuleg vandamál eins og skort á húsnæði, hátt fasteignaverð og atvinnuleysi.

mbl.is