Maður verður nánast háður þessu

Gréta Guðjónsdóttir í Þórsmörk.
Gréta Guðjónsdóttir í Þórsmörk. Ljósmynd/Aðsend

Gréta Guðjónsdóttir segir það vanabindandi að vera dögum saman á fjöllum og fór því að sakna þess í fyrrasumar þegar erlendir ferðamenn hættu að koma til landsins og ekkert að gera hjá henni í leiðsögn. Nú skipuleggur hún sínar eigin ferðir fyrir Íslendinga.

„Ég hef alltaf verið í þremur vinnum. Ég kenni ljósmyndun, vinn við að ljósmynda og ég er leiðsögumaður. Þetta hefur alltaf farið vel saman, því kennslan er yfir háveturinn þegar lítið er að gera í leiðsögninni, í páskafríum er nóg að gera í fermingarmyndatökum og svo leiðsegi ég fólki á fjöllum á sumrin. Þegar Covid skall á, þá hrundi vinnan við leiðsögnina. Ég hef verið að vinna undanfarin 15 ár hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og þar voru langflestir viðskiptavinir erlendir ferðamenn,“ segir Gréta Guðjónsdóttir sem dó ekki ráðalaus.

„Ég leit fyrst á þetta sem kærkomið tækifæri til að komast í frí, enda var ég var nýbúin að kaupa mér sumarbústað og fá mér hund. En þegar leið á sumarið í fyrra þá fór ég að sakna þess mikið að vera á fjöllum með fólki. Maður verður nánast háður þessu, að vera dögum saman á fjöllum og vera í öllu því stússi sem fylgir fjallaleiðsögn, þetta er mikil vinna en það á vel við mig að taka tarnir og vera í ati,“ segir Gréta sem sagði því strax já þegar íslenskar vinkonur hennar spurðu hvort hún væri ekki til í að búa til ferð fyrir þær og vera leiðsögumaðurinn þeirra.

„Þetta vatt upp á sig og fyrr en varði vorum við komnar með stóran kvennahóp. Ég hafði samband við Guðfinn í Hólaskjóli sem var nýbúinn að kaupa stóra fjallarútu og bráðvantaði viðskipti, svo við tvö ákváðum að fara í samstarf. Ég skipulagði fljótt aðra ferð og var svo heppin að lenda akkúrat í gatinu, eða þeim tíma sumarsins í fyrra þegar fólki var frjálst að ferðast þrátt fyrir Covid. Ég kláraði seinni ferðina rétt áður en næsta lokun skall á.“

Íslendingar vilja vita öll örnefni

Gréta segir að hún hafi farið með báða hópana á sömu slóðir.

„Við gengum á Sveinstind, um Skælinga, í Hólaskjól og fórum yfir í Álftavötn. Þetta eru þrír langir dagar og einn rólegur. Ég komst að því að það er allt öðruvísi að leiðsegja Íslendingum en útlendingum. Útlendingar hafa mikinn áhuga á mínu persónulega lífi, þeir vilja vita hvernig það er að búa á Íslandi. Þeir eru líka óvanir að ganga um landslag þar sem eru ekki malarstígar, en ég fór oft með útlendinga þar sem ekki voru stikaðar leiðir og alveg ótroðið. Þeir eru ekki vanir að ganga í íslensku hrauni og snjó, sandi og aurbleytu, hvað þá vaða jökulár. Fyrir vikið var ég í öryggishjálparmömmuhlutverki með erlendum gestum. Þeir hafa heldur engan áhuga á hvað fjöll, tindar eða vötn heita. Þegar ég aftur á móti stend með Íslendingahóp á tindi sem ég hef staðið á ótal sinnum, þá fara þeir að spyrja hvað allt heitir sem sést þaðan,“ segir Gréta og hlær.

„Mér finnst það einmitt skemmtilegt við að vera komin með Íslendinga í gönguferðir, að ég þarf að lesa mér meira til. Annar kosturinn við að leiðsegja Íslendingum er sá að þeir eru svo góð auglýsing fyrir mig, því það spyrst fljótt út í litla samfélaginu okkar ef fólk er ánægt. Ég er því að fara aftur í sumar í gönguferðir með báða þessa hópa frá í fyrra, en núna á nýjar slóðir, annars vegar í Landmannalaugar en hins vegar í Lónsöræfi,“ segir Gréta og bætir við að oft sé það áhyggjuefni hjá Íslendingum að verða dragbítur í ferðum.

„Enginn vill verða sá síðasti, en þetta er aldrei vandamál. Mér finnst ofboðslega gaman að ganga aftur með Íslendingum, ég kann vel að meta þessar tengingar sem myndast milli fólks. Að upplifa íslenska náttúru saman á göngu tengir fólk svo skemmtilega saman, allir verða jafnir. Þess vegna er ekkert mál að koma einn í svona göngu.“

Hér stendur fjallagarpurinn og töffarinn Gréta Guðjóns uppi á Gjátindi, …
Hér stendur fjallagarpurinn og töffarinn Gréta Guðjóns uppi á Gjátindi, þangað sem hún ætlar að ganga með fólki á Jónsmessunni. Ljósmynd/Aðsend

Yndislegt að njóta bjartra sumarnátta

Gréta hefur nú blásið til Jónsmessugöngu 25. júní á Gjátind, sem er við norðurenda Eldgjár.

„Mér finnst það spennandi því ég man eftir að hafa farið sem krakki í Jónsmessuferð um Fimmvörðuháls með vinkonu minni og það var ofsalega skemmtilegt. Þetta verður eins dags ferð, við leggjum af stað klukkan átta að kvöldi og göngum inn í nóttina. Þetta er ekki erfið ganga, reyndar aðeins á fótinn, en við verðum keyrð að Hálendismiðstöðinni í Eldgjá sem er um 40 kílómetra löng eldsprunga á Skaftártunguafrétti. Við göngum strax upp úr Eldgjánni og meðfram barminum á henni, þaðan sem er afar fallegt útsýni. Síðan höldum við upp á Gjátind, sem er þægileg leið, þetta er ekkert brölt og því öllum fært. Þegar við komum þaðan niður þá húrrum við okkur niður í Eldgjá og göngum þar niðri að Ófærufossi og skoðum hann. Síðan verður náð í okkur og við keyrð í skálann í Hólaskjóli þar sem bíður heitur matur,“ segir Gréta og bætir við að áhugasamir geti skráð sig á viðburðinum á Facebook sem heitir: Jónsmessuganga á Gjátind.

„Ég ákvað að færa brottförina í Jónsmessugöngunni frá fimmtudeginum yfir á föstudaginn svo fólk þurfi ekki að taka frí í vinnu, en það tekur um fjóra tíma að keyra frá Reykjavík í Hólaskjól,“ segir Gréta og bætir við að öllum í göngunni sé frjálst að kaupa sér aukanótt í gistingu, ef fólk langar að vera lengur. „Það er yndislegt að njóta bjartra sumarnátta í þessu umhverfi.“

Áhugasamir geta haft samband við Grétu á Facebook: Gönguferðir með Grétu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert