Bretar vilja fleiri sólarlönd á græna listann

Breskir ferðamenn vilja komast til Spánar, Grikklands og Ítalíu í …
Breskir ferðamenn vilja komast til Spánar, Grikklands og Ítalíu í sumar. AFP

Eigendur ferðaskrifstofa í Bretlandi hvetja nú stjórnvöld til þess að bæta Spáni, Grikklandi og Ítalíu á græna listann sem var gefinn út á föstudaginn síðasta.

Grant Shapps, samgöngumálaráðherra Bretlands, tilkynnti á föstudag aðeins 12 lönd væru á græna listanum. Græni listinn er listi yfir lönd sem Bretar geta ferðast til eftir 17. maí og þurfa ekki að fara í sóttkví við heimkomu. 

Bresk stjórnvöld eru að innleiða svokallað umferðarljósakerfi þar sem lönd eru skilgreind sem græn, appelsínugul eða rauð eftir því hversu mikil hætta er á því að breskir ferðamenn smitist á ferðalagi sínu. 

Ísland er á meðal þeirra landa sem Bretar geta ferðast til eftir 17. maí. Einnig Ástralía, Brúnei, Falklandseyjar, Færeyjar, Gíbraltar, Ísrael, Nýja-Sjáland, Portúgal (þar á meðal Azor-eyjar og Madeira), Singapúr, Suður-Georgía og Suður-Sandvíkureyjar, St. Helena, Ascension og Tristan da Cunha.

Listinn þykir að mati eiganda ferðaskrifstofa ekki nógu spennandi fyrir breska ferðamenn, sem elska að skella sér í sólina. 

Ferðamálaráðherra Grikklands, Harry Theocharis, hefur barist fyrir því að Grikkland komist á lista Bretlands. „Við teljum stöðu heimsfaraldursins vera góða í Grikklandi og hún verður betri með hverri vikunni sem líður. Öll gögn sýna það,“ segir Theocharis.

Samkvæmt úttekt Daily Mail á smitrakningargögnum breska heilbrigðiskerfisins NHS greindist aðeins 1% ferðamanna sem komu frá Grikklandi, Spáni og Ítalíu á tímabilinu 26. mars til 22. apríl. 

Framkvæmdastjóri flugfélagsns EasyJet, Johan Lundgren, hefur gagnrýnt hversu fá lönd eru á listanum. „Okkur finnst það ekki réttlætanlegt að svo fá lönd hafi komist á grænan lista stjórnvalda og þessi sönnunargögn Daily Mail sýna að jafnvel þótt tíðni smita í Evrópu sé há, þá var hægt að rekja fá tilvik til ferðalaga,“ sagði Lundgren í viðtali við Daily Mail. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert