„Ég hef verið á fjöllum allt mitt líf“

Jónas Guðmundsson skrifaði bókina Gönguleiðir á hálendinu.
Jónas Guðmundsson skrifaði bókina Gönguleiðir á hálendinu. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Öræfin hafa alltaf heillað mig,“ segir Jónas Guðmundsson ferðamálafræðingur. Út er komin hjá forlaginu Sölku bókin Gönguleiðir á hálendinu, þar sem finna má frásagnir og lýsingar Jónasar á nærri 30 leiðum og slóðum á sunnanverðu hálendinu. Undir er svæðið frá Þjórsárdal í vestri að Langasjó og nærliggjandi slóðum í austri. Miðja þessa svæðis er þá Friðland að Fjallabaki; stórbrotið umhverfið í Landmannalaugum, en þaðan er vinsælt að ganga um Laugaveginn suður í Þórsmörk. Frá þeirri gönguleið, sem rómuð hefur verið á heimsvísu, segir í bókinni og svo mörgu öðru.

Ferðalög eru ævintýri fyrir alla og þegar er haldið upp …
Ferðalög eru ævintýri fyrir alla og þegar er haldið upp til öræfa og um fjöll og dali verður slíkt mikil upplifun, ekki síst fyrir börnin.

Verið á fjöllum allt mitt líf

„Ég hef verið á fjöllum allt mitt líf. Þegar líða tekur á vetur leitar hugurinn á Fjallabakssvæðið þar sem ég reyni alltaf að eiga nokkra daga á sumri hverju,“ segir Jónas. Þar hefur hann sinnt landvörslu, verið skálavörður í húsum Ferðafélags Íslands og farið víða um. „Er gagnkunnugur öllum staðháttum, sem kemur sér vel,“ segir Jónas sem að aðalstarfi er verkefnisstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Hefur þar meðal annars stýrt upplýsingagáttinni savetravel.is og fleiri þáttum sem miða að auknu öryggi. Þá hefur hann komið að fjölda leitar- og björgunaraðgerða á sunnanverðu hálendinu, þar sem oft hafa orðið slys og óhöpp á undanförnum árum sem kallað hafa á aðgerðir björgunarsveita. Mótleik þar segir Jónas vera fræðslu um staðhætti og góða ferðamennsku og að því leyti geti bókin komið sér vel.

Í bók Jónasar segir frá gönguleiðum á Etnujökul, Brennisteinsöldu, Búrfell í Þjórsárdal, Heklu, Ljótapoll, Loðmund, Einhyrning, Strútslaug og svo mætti áfram telja. Einnig frá gönguleiðinni vinsælu yfir Fimmvörðuháls; frá Skógum undir Eyjafjöllum að Básum á Goðalandi.

„Fólk ferðast auðvitað hvað með sínu móti, en sjálfum finnst mér alltaf gaman að líta til landsins með augum barnanna. Dætur mínar tvær, sem nú eru nánast uppkomnar, hafa verið góðir ferðafélagar,“ segir Jónas. „Viðmið mitt í bókinni er að göngufólk komist yfir þrjá kílómetra á klukkustund, þótt margir geti farið hraðar. En sé farið rólega yfir gefst tími til að njóta og vera til. Ferðalög eiga ekki að vera kapphlaup, heldur tækifæri til að líta til fjalla og gæta að gróðri, fuglum og öðru í náttúrunni. Að þessu vík ég meðal annars í bókinni, sem ég skrifaði síðasta vetur. Það var á tímum þegar samfélagið allt var í ládeyðu vegna veirunnar og því gott að nýta tímann í eitthvað gagnlegt og gott.“

Í bókinni góðu segir meðal annars frá gönguleiðum á Búrfell …
Í bókinni góðu segir meðal annars frá gönguleiðum á Búrfell í Þjórsárdal, þann tilkomumikla stapa. Hér er horft til fjallsins úr Landsveit, þar sem fremst er Þjófafoss í náttúrulegum farvegi Þjórsár sunnan fjallsins

Fer vel í vasa

Bókin Gönguleiðir á hálendinu er í fremur litlu broti og mjúkbandi og fer því vel í vasa á ferðalögum. Er 190 blaðsíður, prýdd fjölda korta og fallegra mynda, sem Jónas og förunautar hans í gegnum tíðina hafa tekið. Nefnd eru hnit upphafsstaða á hverri gönguleið, erfiðleikastig hennar og fleira slíkt.

„Svo fléttast þarna saman við fróðleikur, skemmtilegar sögur, lýsingar á náttúrufari og annað. Þetta er góð bók þegar haldið er í ferðalög á fjöll,“ segir Jónas Guðmundsson að síðustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert