Fjölbreyttasta neðansjávarlíf við Íslandsstrendur

Árið 1937 létu Thorsararnir byggja geysistóra síldarverksmiðju á Hjalteyri. Byggingin reis á methraða og þótti mikil nýlunda enda bjuggu margir Íslendingar enn í torfbæjum á þessum árum. Í dag hýsir þessi gamla síldarverksmiðja myndlistargallerí en á staðnum er einnig fínasta aðstaða fyrir sjósund, heitur pottur á bryggjunni, veitingastaður og köfunarskóli svo fátt eitt sé nefnt. Í stuttu máli hálfgerður undraheimur. 

Gústav Geir Bollason myndlistarmaður er meðal þeirra sem hafa haft veg og vanda af uppbyggingu menningar í þessu agnarsmáa sjávarplássi síðustu árin en þar búa nú um þrjátíu til fjörutíu manns allt árið og fleiri á sumrin. Þó Hjalteyri sé bara pinkulítið pláss úr alfaraleið er þar ótrúlega margt sem hægt er að sjá og upplifa, bæði ofan sjávar og neðan. Um aldamótin síðustu steig Gústav það merkilega skref að flytja úr stórborginni París, þar sem hann hafði búið í tíu ár, alla leið til Hjalteyrar.

„Pælingin var alltaf að flytja bara út á land og Hjalteyri varð fyrir valinu,“ segir Gústav sem var þó ekki ókunnugur svæðinu því sjálfur ólst hann upp á sveitabæ í grenndinni.

„Ég ólst upp á bænum Laufási sem er beint á móti Hjalteyri í firðinum,“ segir Gústav sem á það til að sigla út á fiskimið við Laufásgrunn og veiða sér í soðið.

Umfangsmeiri sýningar með hverju árinu

Nú hefur Gústav haldið utan um menningarstarfsemi í Verksmiðjunni í á þrettánda ár og hefur hróður hennar aukist jafnt og þétt síðan með sérlega öflugum spretti síðasta árið.

„Framan af voru það yfirleitt útlendingar sem voru spenntastir fyrir því að sjá og halda sýningar hérna og mörgum listamönnunum fannst bara spennandi að það kom enginn að skoða verkin,“ segir Gústav og skellir upp úr.

Verksmiðjan er mjög framandi, drungalegt og dramatískt rými og mikil upplifun að koma þar inn. Listafólkið sem heldur þar sýningar hannar gjarna verkin með rýmið sjálft í huga og þar skipa vídeóverk sérstakan sess. „Sýningarnar hérna verða alltaf stærri með hverju árinu og meira lagt í þær sem er mjög jákvætt,“ segir Gústav en það er eignarhaldsfélagið Hjalteyri sem heldur utan um húsnæðið, er það skipað heimamönnum og velunnurum staðarins.

„Frá upphafi hefur útlendingum alltaf þótt starfsemin hérna rosalega spennandi en síðasta sumar mættu margir Íslendingar sem okkur fannst auðvitað alveg frábært. Leiðin til Hjalteyrar liggur um afleggjara frá Dalvíkurveginum en það er ekki endilega auðvelt að rata hingað svo ég mæli með því að fólk noti bara Google Maps eða annað leiðsagnarforrit.“

Hægt er að læra að kafa á Hjalteyri.
Hægt er að læra að kafa á Hjalteyri.

Veitingastaður, hótelgisting og handverk

Gústav segir margt fleira í gangi á Hjalteyri yfir sumartímann sem vert sé að upplifa og einnig er þar úrval gististaða.

„Hér er til dæmis gistiheimili sem heitir hvorki meira en minna en Viking Country Club. Svo er gamli barnaskólinn á Hjalteyri núna rekinn sem glæsilegt íbúðahótel undir nafninu Apart Hotel. Þar er mjög glæsileg gistiaðstaða sem hefur fengið góða dóma,“ segir hann og bætir við að á Ytri-Bakka sé einnig hægt að leigja notaleg smáhýsi.

„Þá er hér líka að finna veitingahúsið Eyrina sem Nick Peros rekur, en hann er einnig með veitingastaðinn Báruna á Langanesi. Svo er það hún Lene Zachariassen, norsk handverkskona sem býr og starfar á Hjalteyri. Hún sútar skinn af allskonar dýrum og býr til ýmsa muni úr þessu sem hún svo selur hér á staðnum.“

Víkjum þá sögunni af landi og ofan í sjó. Á Hjalteyri rekur Erlendur Bogason, Vestmannaeyingur, vinsælan köfunarskóla og köfunarþjónustu undir nafninu Sævör. Þar taka þau dóttir hans, Sævör Dagný, bæði nýliða og reynda kafara í framandi köfunarferðir um Strýtuna sem þykir geysilegt náttúruundur enda er þar að finna fjölbreyttasta dýralíf neðan sjávar á Íslandi.

„Það er mikið af heitu vatni hér á svæðinu og í Strýtunni við Arnarnesvík kemur það upp úr iðrum jarðar. Hitastig sjávarins hefur orðið til þess að þar er að finna mjög fjölskrúðugt jurta- og dýralíf sem myndar alveg einstakt vistkerfi. Það er eins og fáir Íslendingar utan heimamanna viti af þessu en útlendingar hafa verið mjög duglegir að mæta á köfunarnámskeið og fara svo að kafa í Strýtunni.“

Kjassar og kafar með steinbítnum Stefaníu

Í einum af köfunarleiðöngrum sínum kynntist Erlendur steinbítnum Stefaníu og á milli þeirra hefur myndast ansi sérstakt samband með tímanum.

„Hún kemur alltaf til karlsins og heilsar upp á hann en hefur ekki gefið sig eins að öðrum þó hún heilsi þeim líka, enda kurteis steinbítur. Ég gef henni gjarna kúskel og það finnst henni mikið góðgæti,“ segir Erlendur sem á einnig ágætis samband við hvalina sem halda til í kringum Hjalteyri.

„Það er mjög algengt að rekast hér á hvali og við höfum boðið fólki að kynnast þeim betur, bæði með því að kafa niður með þeim og að sigla út á flotbretti eða svona „paddle board“ eins og það heitir á ensku. Hvalir óttast ekki fólk en þeir þurfa auðvitað að gefa sitt leyfi fyrir því að fólk fái að synda með þeim. Þá snorklum við með hvölunum í bæði stærri og minni hópum,“ segir Erlendur sem hefur verið að kenna köfun frá árinu 2009.

„Dóttir mín hún Sævör Dagný er að kenna með mér og núorðið sér hún að mestu um kennsluna. Til að geta kafað í Strýtunni þarf fólk að hafa köfunarréttindi sem hægt er að fá á námskeiðinu á þremur dögum. Þannig er hægt að byrja að læra á föstudegi og klára á sunnudegi með ferð í Strýtuna. Svo erum við með allskonar pakkaferðir sem áhugasamir geta skoðað á Strytan.is, meðal annars tveggja tíma snorkl-námskeið sem allir geta skellt sér á og svo gengur það upp í réttindanámskeiðið ef fólk vill taka þetta lengra. Eftir sundið er svo hægt að skella sér í pottinn sem stendur á bryggjunni en hann laðar hingað sjósundsfólk og fleiri sem kunna vel að meta þessa góðu slökun.“

Fyrir áhugasama um sýningar í Verksmiðjunni í sumar er hægt að skoða veffangið verksmidjanhjalteyri.is og fyrir þau sem eru spennt fyrir því að nikka höfðinu til Stefaníu eða taka sundsprett með hvölum má skoða heimasíðu Strýtunnar á strytan.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »