Bensínlaus á Möðrudal á Fjöllum

Dagskrárgerðarkonan Rakel Hinriksdóttir þekkir orðið Norðurlandið eins og lófann á sér því hún hefur þvælst vítt og breitt um landshlutann í tengslum við vinnu sína á sjónvarpsstöðinni N4. Í frítíma sínum vill hún ekki hafa of þétta dagskrá á ferðalögum sínum svo það sé rými til þess að upplifa og njóta. 

Hver er þín fyrsta ferðaminning?

„Hún er reyndar ekki endilega sérstaklega góð, en þegar ég var 5 ára fórum við í fyrsta skipti á Vestfirði. Ég er ættuð frá Dýrafirði og þangað átti að skella sér á ættarmót um sumarið. Ég var alltaf frekar bílveik sem krakki, og ég man eftir mikilli ógleði á leiðinni. Ég fékk pylsu og kókómjólk á Hólmavík, eins og hinir krakkarnir, þrátt fyrir aðvaranir ömmu minnar. Það stóð svo heima, amma mín og afi fengu vænan skammt af pylsu- og súkkulaðigubbi í hnakkann stuttu eftir að við lögðum aftur af stað.“

Hvers konar ferðalög höfða helst til þín?

„Innanlands er ég mest fyrir það að hafa ekki of mikið af plönum. Leyfa svolítið veðri og tilfinningu að ráða för. Einnig vil ég ekki hafa þétta dagskrá, það þarf að vera rými til þess að upplifa! Erlendis reyni ég að leita uppi framandi menningu eða staði, er ekki mikið fyrir að liggja á sólarströndum og fara í verslunarmiðstöðvar. Eftir að ég varð móðir er ég reyndar ekki alveg eins ævintýragjörn og áður. Strákarnir mínir tveir eru ennþá frekar litlir þannig að stærri ævintýri á fjarlægum slóðum verða aðeins að bíða.“

Nú ferðastu mikið í vinnu þinni fyrir N4, ertu eitthvað að ferðast í frítímanum eða færðu útrás fyrir ferðagleðina í vinnunni?

„Ég fæ heilmikla útrás fyrir þetta í vinnunni, og margt sem ég fæ að sjá og upplifa í tengslum við þáttagerð. Ég hef reyndar mjög gaman af því að ferðast í nærumhverfinu þegar ég hef frítíma. Ég bjó erlendis meira og minna í 10 ár og eftir að ég flutti heim aftur þá sá ég Akureyri og Norðurlandið í nýju ljósi. Það er fátt betra en að búa í Danmörku í svolítinn tíma, upp á að læra virkilega að meta íslenska náttúrufegurð.“

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Norðurlandi?

„Valið er erfitt, það eru svo margir staðir sem koma til greina en ég held ég verði að segja Jökulsárgljúfur. Þar eru Hólmatungur og Dettifoss í sérstöku uppáhaldi. Ég reyni að heimsækja Dettifoss á hverju sumri en þar finnst mér maður best skynja náttúruna bæði andlega og líkamlega. Heimsókn að Dettifossi er einfaldlega mögnuð upplifun. Þá er ég líka mjög hrifin af Tröllaskaganum en ég fór ekki að kunna að meta hann fyrr en ég fékk danska vini í heimsókn til mín. Þeim voru sýndir helstu staðir á Norðurlandi en síðasta daginn keyrðum við Tröllaskagann og það var það sem stóð upp úr hjá þeim. Þeim fannst fjöllin og útsýnið alveg magnað og ég áttaði mig á því hvað Tröllaskaginn er hrikalega flottur.“

Ertu komin með einhver plön fyrir sumarið?

„Í sumarfríinu mínu ætla ég austur að heimsækja bróður minn í Neskaupstað. Við ætlum líka eitthvað suður, alla vega á Selfoss að heimsækja vinafólk. En sumarið byrjar reyndar hjá mér í vinnuferð um Austurland í tengslum við ferðaþættina Uppskrift að góðum degi sem N4 hefur verið að framleiða. Þessar tökuferðir eru með því allra skemmtilegasta sem ég fæ að gera í vinnunni og hlakka ég mikið til þess að skoða landshlutann í fylgd með Skúla B. Geirdal og tökumönnunum Sindra Steinarssyni og Tjörva Jónssyni. Við höfum lent í allskonar ævintýrum á þessum ferðum okkar í gegnum tíðina. Til dæmis gleymdi ég einu sinni glænýjum farsíma við listaverkið uppi á Fjarðarheiði og ég fattaði það ekki fyrr en ég var komin niður á Seyðisfjörð. Þá var brunað til baka til þess að leita að símanum en þegar ég var að koma að listaverkinu þá sá ég Kúkú campers-bíl vera að keyra í burtu þaðan. Mér datt ekki annað í hug en að ferðamennirnir hefðu tekið símann með sér en nei nei, síminn var á sínum stað. Það var mikill léttir. Þetta er svolítið ég, ég get verið alveg hrikalega utan við mig á ferðalögum í vinnunni því þá er oft að svo miklu að huga.“

Hvert er þitt allra besta ferðaráð?

„Sama hvað er að miklu að huga þegar lagt er af stað í ferðalag þá er alltaf nauðsynlegt að byrja á því að setja bensín á bílinn. Trúðu mér, það er ekki gaman að sjá rautt ljós á bensínmælinum um leið og glittir í Herðubreið. Ég hef lent í því, en sem betur fer bjargaði bóndinn á Fjallakaffi á Möðrudal okkur en hann er með bensínstöð, sem er gott að vita af ef svona vandræði banka upp á á þessum slóðum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »