Melrakkaslétta er eins og ævintýraland

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson myndlistarmaður og málverk eftir hann.
Sigtryggur Bjarni Baldvinsson myndlistarmaður og málverk eftir hann.

Líf myndlistarmannsins Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar snýst um að ferðast, veiða, kenna og auðvitað skapa. Sigtryggur sameinar allt þetta á námskeiðinu Endimörk alheimsins: Náttúra og líf við ysta haf sem fram fer á Melrakkasléttu í ágúst.

„Námskeiðið er blanda af listsköpun, náttúruskoðun ásamt fróðleik um svæðið í samstarfi við Rannsóknarstöðina Rif. Námskeiðið verður óvissuför sem stjórnast að miklu leyti af náttúrunni sjálfri, veðrum og vindum. Verkfærin verða vatnslitir, veiðistöng og gönguskór,“ segir Sigtryggur en námskeiðið er á vegum Myndlistarskólans í Reykjavík

Sigtryggur er búsettur í Reykjavík og segir að fyrir honum sé Melrakkaslétta frekar langt í burtu eins og svo mörgum öðrum. Hann segir staðinn þó sérdeilis heillandi og óvenjulegan stað. „Birtan er einstök og himinninn stór. Forvitnilegt ævintýraland,“ segir hann um Melrakkasléttu. 

„Náttúran er aðalviðfangsefni mitt í listsköpun minni. Ég trúi því að með því að mála náttúruna getir þú náð mikilli nálægð við náttúruna. Málverkið sé á einhvern hátt tungumál sem tengir mann og náttúru. Ég held að ég máli af svipuðum hvötum og hellamálararnir sem stóðu við „trönurnar“ fyrir að minnsta kosti 43.900 árum,“ segir Sigtryggur. 

„Veiðin tengir mann líka við náttúruna, dregur mann inn í dali og út á sléttur og glæðir landið nýrri merkingu. Mér finnst annars alltaf minna og minna gaman að drepa fisk en nýt þess þó að leita hann uppi og fylgjast með honum og veiða passlega í matinn. Þórarinn Blöndal er aðalveiðimentorinn í ferðinni en hann er landsþekktur urriða- og sjóbirtingssérfræðingur ásamt því að vera myndlistarmaður og þúsundþjalasmiður.“

Listin er órjúfanlegur hluti af lífi Sigtryggs og því erfitt fyrir hann að skilja sköpunarkraftinn eftir heima þegar hann ferðast um landið. „Það er orðið ansi erfitt fyrir mig að greina milli vinnu, tómstunda og ferðalaga. Ég er alltaf að reyna að skilja og skynja náttúruna betur og ferðast alltaf um landið þegar tækifæri gefst, þetta er allt runnið saman. Ég er alltaf að taka inn upplýsingar og upplifanir úr náttúrunni sem ég reyni svo að miðla með list minni og í gegnum kennsluna.“

mbl.is
Loka