Bústaðurinn er eins og falinn fjársjóður

Fjölskyldan keyrði í Þórsmörk nýverið.
Fjölskyldan keyrði í Þórsmörk nýverið.

Birna Ósk Sigurbjartsdóttir, þjónustufulltrúi hjá S4S, býr í Mosfellsbænum með eiginmanni sínum Daða Jóhannssyni, þremur börnum þeirra og hundinum Jökli. Fjölskyldan á fallegan bústað í Grímsnesi sem þau nota mikið.

„Við kunnum vel við okkur í Grímsnesinu og höfum verið dugleg að heimsækja staðina í kringum bústaðinn okkar.

Við erum mikið fyrir að stoppa í fjörum og öðrum opnum svæðum til að skoða okkur um og leyfa hundinum okkar að hreyfa sig,“ segir hún.

Birna Ósk er hrifin af Friðheimum þar sem má fá …
Birna Ósk er hrifin af Friðheimum þar sem má fá holla og góða tímatsúpu og heimabakað brauð.

Leika sér án tækninnar í sveitinni

Fjölskyldan vildi geta ferðast meira um landið en hún gerir, en Daði vinnur sem flugmaður hjá Cargoloux og er því mikið erlendis um þessar mundir.

„Við reynum þó að gefa okkur tíma í að gera eitthvað saman á sumrin sem fjölskylda.

Að komast út úr hversdagsleikanum í annað umhverfi er gott fyrir alla.

Það er margt gott við að vera í sveitinni. Við erum ekki með net í bústaðnum okkar fyrir utan 4G í símanum svo það er ekki hægt að hanga í símum, tölvu eða horfa á sjónvarpið.

Það sem við gerum í staðinn er að við spilum saman og búum til skemmtilegar minningar án þess að tæknin trufli okkur.“

Birna Ósk og Daði gengu í hjónaband þann 17. júlí …
Birna Ósk og Daði gengu í hjónaband þann 17. júlí árið 2020.

Dýragarðurinn Slakki í uppáhaldi

Hverjir eru uppáhaldsstaðir barnanna í kringum bústaðinn ykkar?

„Þeim finnst mikið sport að heimsækja dýragarðinn Slakka. Við erum nýlega búin að komast að því að það má vera með hund hjá þeim í bandi svo hundurinn okkar fær að njóta heimsóknarinnar líka.“

Hvert er uppáhaldsveitingahúsið ykkar á Suðurlandi?

„Okkur finnst Kaffi Krús á Selfossi alltaf standa fyrir sínu. Maður verður aldrei fyrir vonbrigðum með matinn þar.“

Hefurðu fundið faldar náttúruperlur eða staði sem komu á óvart á Suðurlandi?

„Það er kannski ekki falinn fjársjóður en við stoppuðum á Laugarvatni um daginn og fórum á leikvöll þar sem er eins og þrautabraut. Krökkunum fannst það rosalega gaman og tala mikið um að fara aftur. Annars held ég að bústaðurinn okkar sé okkar faldi fjársjóður,“ segir Birna Ósk.

Börnin eru ánægð úti á landi og hundurinn brosir á …
Börnin eru ánægð úti á landi og hundurinn brosir á ferðalögum.

Með fatnað sem hentar öllu veðri

Þegar kemur að því að pakka niður fatnaði fyrir bústaðinn er fjölskyldan með þá reglu að hafa með föt fyrir alls konar veðráttu.

„Því maður veit aldrei hvaða veðri maður á von á.“

Ertu með nesti í bílnum eða stoppið þið á förnum vegi?

„Við erum oftar en ekki með nesti því það er miklu skemmtilegra að stoppa einhvers staðar og fá sér nesti úti í náttúrunni.“

Fjölskyldan fór nýverið á flakk um Suðurlandið þar sem hún heimsótti Seljalandsfoss og fór þaðan yfir í Þórsmörk.

„Krökkunum fannst svo gaman að keyra yfir árnar og var mikið sport fyrir alla að vera á vel útbúnum bílnum í þeirri ferð. Svo fannst okkur foreldrunum einstakt hvað þau voru dugleg að ganga með okkur og getum við mælt með því fyrir alla sem hafa útbúnað á bílnum að fara þessa leið með fjölskylduna. Náttúran var æðisleg á þessum árstíma og áhugavert að sjá hundinn njóta sín í botn líka,“ segir Birna Ósk.

Börnin elska að vera vel klædd þegar þau leika sér …
Börnin elska að vera vel klædd þegar þau leika sér á ströndinni.
Það eru margar góðar gönguleiðir á Suðurlandi.
Það eru margar góðar gönguleiðir á Suðurlandi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »