Gagnrýnandi Times hraunar yfir Friðheima

Giles Coren var ekki hrifinn af Friðheimum.
Giles Coren var ekki hrifinn af Friðheimum. mbl.is

Breski matargagnrýnandinn Miles Coren fór ekki fögrum orðum um matinn sem hann fékk í Friðheimum í sumar í gagnrýni sem hann skrifaði fyrir breska blaðið The Times. Coren segist þó elska Ísland, fólkið og fiskinn en tómatarnir hafi einfaldlega verið óætir. 

Fyrst segir Coren frá því að hann hafi gripið tómat af einni plöntunni og stungið upp í sig. 

„Þykki skrápurinn opnaðist og munnurinn fylltist af einhverju blautu. Ég held að kannski þriðjungur af fólki í blindsmökkun myndi giska á að þetta væri bragðið af tómat. Restin hefði giskað á að þetta væri allt frá eggaldini til borðtennisbolta. Þetta minnti mig einna helst á þegar ég borðaði vínber um jólin þegar ég var með Covid og var búinn að missta allt lyktar- og bragðskyn. Þetta lofaði alls ekki góðu,“ skrifar Coren.

Coren og vinur hans pöntuðu allt á matseðlinum og líkir hann tómatsúpunni frægu við tómatsósu í dós frá Heinz. „Súpan var ekki rjómalöguð, því miður. Og eftir hana langaði mig bara í dós af Heinz. Því þetta var ekkert annað en heitur, sætur, léttkryddaður tómatsafi. Svona soðinn þeytingur bragðbættur með, eins og þjónninn staðfesti, mangó chutney.“

Pastað sagði hann hafa verið of seigt undir tönn með sósu sem hann var ekki hrifinn af. „Og tortillan, sem var langt frá því það bragðbesta sem við borðuðum, var eins og slæm margarítupítsa. Svona pítsa sem þú gerir með krökkunum þínum heima þegar þú ert á 412. degi í útgöngubanni, hendir henni svo í ruslið og hringir í Domino's,“ skrifar gagnrýnandinn.

„Svo ég hljóp öskrandi út beint upp í flugvél til London.“

mbl.is